02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Úr því að hv. 8. þm. Reykv. fann ástæðu til þess að ræða þetta mál, þá er ég tilbúinn til að ræða málið miklu ýtarlegar. Ég veit ekki, hvort hv. þm. telur sig hafa meiri þekkingu á þessum málum og áhuga fólksins úti á landsbyggðinni heldur en ég hef. Ég hef nú í s.1. 20 ár staðið sem fulltrúi fyrir dreifbýlið, hef svo að segja kynnzt hverju heimili á Vesturlandinu og þykist hafa þar miklu meiri þekkingu á en hv. 8. þm. Reykv., og mér er það fullkunnugt, að margt af þessu fólki fer þaðan sárnauðugt til elliheimila, hvort heldur þau eru í þorpum eða í kaupstað. Mér er líka kunnugt um, að það eru ýmsir staðir á landinu, þar sem bæði eru skólasetur og heitt vatn, sem eru miklu betur til þess fallnir að vera elliheimili fyrir það fólk, sem hefur aldrei verið annars staðar en í sveit. Þar eru miklu meiri skilyrði fyrir það til að geta haldið áfram að vinna með þeim kröftum, sem það enn á og fara að sjálfsögðu dvínandi, hvort heldur er við jarðrækt eða annað. Það hefur þar miklu víðari sjóndeildarhring og er það mun hugþekkara að vera þar síðustu stundirnar heldur en vera flutt til Reykjavíkur, þar sem það svo að segja situr í fangelsi. Það mundi einnig tryggja mörgum þessum sveitum öruggari læknishjálp en nú er gert, ef heimili væru sett á slíka staði. Ég mótmæli því þeirri skoðun, sem einnig kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv., og vænti þess, að hún eigi ekki að mæta meirihlutavilja alþm. á Alþingi.