12.03.1963
Efri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

173. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Ég get því miður ekki leyst úr öllum spurningum hv. 1. þm. Vesturl., en ég skal leitast við að leysa úr einhverjum af þeim, eftir því sem mér er kunnugt um.

Um tekjur D.A.S. frá upphafi get ég því miður ekki sagt, því að ég veit ekki, hverjar þær eru, en nú á undanförnum einu eða tveimur árum hafa tekjurnar numið 61/2–7 millj. á ári, og það er búizt við, að þær hækki á næstu árum upp í 8 millj. kr. Það er gert ráð fyrir að fjölga nokkuð miðum í happdrættinu, og þá er búizt við, að tekjur hækki á 1–2 árum upp í 8 millj. kr. á ári. Ég get ekki heldur upplýst, hvað dvalarheimili aldraðra sjómanna hefur kostað til þessa. En rekstur dvalarheimilisins er, að því er mér er bezt kunnugt um, þannig, að rekstur sjálfs dvalarheimilis aldraða fólksins hefur nokkurn veginn staðíð undir sér, a.m.k. núna undanfarin ár, eftir að það komst í þá stærð, sem það er nú í ár og s.l. ár. Rekstur sjálfs dvalarheimilisins stendur undir sér með þeim gjöldum, sem vistmennirnir eru látnir greiða. En hins vegar hefur verið nokkur halli á sjúkradeild heimilisins, og ég hygg, að þessum halla hafi verið mætt af tekjum sjómannadagsráðs. En nú eru tekjur sjálfs sjómannadagsráðs nokkuð aðrar og meiri en bara tekjur af happdrættinu, og það voru a.m.k. um skeið og eru nú nokkrar tekjur af bíói, sem stofnsett var og rekið í dvalarheimilinu. Það er von um, að það geti orðið til þess að styrkja rekstur heimilisins enn betur í framtíðinni.

Um þessar 10 íbúðir, er ég gizkaði á að mundi a.m.k. vera hægt að styrkja eða lána til á næstu árum, þá er miðað við litla íbúð í fjölbýlishúsi fyrir 2 manneskjur aðeins, og þar er miðað við það, að þessi íbúð sé að vísu lítil, en hins vegar nægileg og eins hentug og við verður komið með nútímatækni. Upplýsingar um verðið hafði ég frá manni, sem hefur verið a.m.k. í fyrra og í ár að byggja og haft með höndum reikningshald fyrir allstóra byggingu eða byggingar, sem í eru svona íbúðir.