15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

5. mál, lögreglumenn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að ræða þetta frv. og mun ekki heldur gera það. En aðeins út af því, að hæstv. dómsmrh. notaði þessa litlu fsp., sem ég gerði utan dagskrár, og umr. um hana sem rök fyrir því, að það þyrfti að fara að endurskoða þingsköpin, þó að hann um leið viðurkenndi, að hún væri vissulega ekki sjálf þess eðlis, að hún hleypti slíkri skriðu af stað, þá vil ég aðeins taka það fram, að þessi fsp. virtist gefa frekar lítið tilefni til þess, að út frá henni yrði farið að endurskoða þingsköpin, því að allar þær umr., tvær, þrjár ræður af hvorri hálfu, okkar utanrrh., tóku ekki einu sinni hálftíma hér. En okkur hæstv. ráðh. er báðum kunnugt um, að hér hefur það oft komið fyrir í þingi, að fsp. hafi verið gerðar utan dagskrár og allur þingtíminn fram til kl. 4 farið í að ræða slíkar fsp. Og það hafa allir flokkar sýnt sama áhugann á því, sérstaklega þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu, að geta haft þessa aðstöðu til þess að geta spurt svona, því að hin reglan, sem sett var upp um árið, þegar þingsköpunum var breytt, að maður gæti lagt fram skriflega fsp. og síðan fengi maður henni svarað, ýmist eftir viku eða hálfan mánuð máske, það hefur komið fyrir mig með slíkar fsp., að það væri neitað að svara þeim, — hún er engan veginn hentug, þegar eitthvað mikið liggur á. Hins vegar er náttúrlega alveg gefið, að það er ekki hægt að hafa annan hátt, þegar maður er að óska t.d. ákveðinna upplýsinga, þar sem viðbúið er, að ráðh. þurfi að athuga ýmsar tölur og hafa góðan undirbúning.

Ég verð að segja það sem mína reynslu af þingstörfum, að þau hafa ekki tafizt og þing orðið eins löng og þau oft hafa orðið vegna þess, að það hafi verið gerðar svo miklar fsp. utan dagskrár. Reglan er almennt sú, og þar eiga sömu sök allar ríkisstjórnir, sem ég hef haft kynni af, að almennt ganga þingstörf lengi vegna þess, hve ríkisstjórnir eru lengi að undirbúa sín mál. Ég man v arla eftir því, og ég held alls ekki, að það hafi komið fyrir, að vegna þm. sjálfra og þeirra umr. eða annars slíks hafi þing tafizt þannig. Það er yfirleitt vegna þess, hvernig ríkisstjórnirnar hafa undirbúið málin.

Viðvíkjandi þessum fsp. utan dagskrár, þá er það alveg rétt, að um þær eru ekki; neinar reglur, þær eru sem sé algerlega á valdi forseta, og það er náttúrlega mjög misjafnt, hvernig forsetar beita þessu. Þegar þeim finnst t.d., eins og hæstv. ráðh. minntist á, komið síðla á þing og mikið þurfa að hraða störfum, þá eru forsetar ákaflega íhaldssamir og leyfa kannske alls ekki fsp., þannig að ég held, að það hafi ekki verulega komið að sök.

Ég verð að segja, að það er vafalaust nauðsynlegt, eins og hæstv. ráðh. benti á, að endurskoða viss atriði í þingsköpunum, en ég er — og býst við, að hann mundi líka vera, ekki sízt þegar hann væri í stjórnarandstöðu — mjög íhaldssamur um að endurskoða það, sem veitir þm. einhvern rétt.