19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

5. mál, lögreglumenn

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú um þetta mál eins og fleiri, sem tekin eru til meðferðar á þessum fundi, að það er tekið til umr. með afbrigðum, og er það þriðja málið í röð, sem til hefur þurft afbrigði, að umr. mættu fara fram. Afbrigðin í þessu máli þurftu til að koma vegna þess, að nál. hv. allshn. mun ekki hafa verið útbýtt fyrr en á þessum fundi, og er bagalegt að hafa ekki séð nál. fyrr og þær brtt., sem því fylgja, ekki sízt vegna þess, að mér virðist vafasamt, að þær till. sumar hverjar, sem n. leggur fram, séu til bóta frá því, sem í stjórnarfrv. stendur.

Ég vildi leyfa mér að vekja sérstaka athygli á því, að í 4. brtt. á þskj. 409 frá n. er lagt til, sem ekki var í stjórnarfrv., að I. nr. 45 frá 5. apríl 1956 falli úr gildi. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli hv. þd. á efni þessara l. frá 1956. Í þessum l. felst viðbót við l. frá 1940, um lögreglumenn, og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í þessari viðbót:

„Lögreglumenn ríkisins og varalögreglumenn skv. 6. gr. annast löggæzlu frá 15. júní til 15. sept. ár hvert í kauptúnum, þar sem fjöldi aðkomufólks dvelur um stundarsakir vegna síldveiða, enn fremur á öðrum stöðum og árstíðum eftir ákvörðun ráðh., þar sem nauðsyn þykir til slíkra ráðstafana vegna hliðstæðra orsaka. Ráðh. er heimilt að láta lögreglumenn ríkisins og varalögreglumenn skv. 6. gr. annast löggæzlu á samkomum utan kaupstaða, ef hlutaðeigandi lögreglustjóri gerir grein fyrir þörf þess. Lögreglustjóri getur þá krafizt þess, að forráðamenn samkomuhalds annist hæfilega gæzlu innanhúss. Í reglugerð skal kveðið nánar á um löggæzlu skv. þessari gr.”

Þannig hljóðar það nýmæli, sem á sínum tíma fólst í lögunum frá 1956. Skv. till. hv. allshn. eiga þessi lög að falla úr gildi. Vera má, að það samræmist ekki fyllilega formi laga, að l. verði áfram í gildi, en þá þarf að íhuga það, hvort frá hinum nýju lögum er þannig gengið, að sú löggæzla, sem þarna er gert ráð fyrir að ríkislögreglan annist, falli ekki niður eða verði örðugri af fjárhagsástæðum fyrir hlutaðeigandi en hún er skv. þessum lögum.

Ég vildi leyfa mér að benda á þetta, en jafnframt vil ég, úr því að ég er farinn að ræða þetta mál, aðeins láta þá skoðun í ljós, að mér virðist aðalefni till. hv. 11. landsk. á þskj. 410 mundi vera til bóta, eða a.m.k. síðari málsgr. 2. brtt. um það, að hreppsnefnd eða sýslunefnd í sveitar- eða sýslufélagi með færri en 500 íbúa geti ákveðið að hafa lögreglu og átt rétt á endurgreiðslu eða greiðslu á hluta af kostnaði úr ríkissjóði. Ég held, að það mark, sem þarna er sett, 500 íbúar, sé ekki einhlítt í þessu efni. Það kemur ýmislegt fleira til greina en íbúafjöldinn, eins og raunar var tekið til greina með lagasetningunni frá 1956. Og ég geri ráð fyrir því, að til séu hreppsfélög, sem hafi, þó að þau fylli kannske ekki íbúatöluna 500, ekki minni þörf fyrir lögreglu en önnur, sem ef til vill hafa nokkrum íbúum fleira.

Með því að nál. og brtt. hafa ekki legið fyrir fyrr en á þessum fundi, hefði ég nú viljað mælast til þess við hæstv. forseta, að þessari umr. yrði ekki lokið að sinni, þannig að ráðrúm gefist til þess að athuga nánar þessar till., sem fyrir liggja, og þau atriði 1., sem þær snerta, og bera fram brtt., ef þurfa þætti. Og ég hygg, að það þyrfti ekki að tefja málið til muna, þó að það væri gert. Vildi ég mega vænta þess, að við því yrði orðið.