19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

5. mál, lögreglumenn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Frv. því, sem hér um ræðir, var útbýtt á Alþ. 11. okt., eða daginn eftir að þing var sett. Því var visað til 2. umr. og allshn. þann 15. okt. og hefur legið hjá n. síðan. Þær brtt., sem íram hafa komið, bæði frá n. og einstökum þm., á þskj. 408, 409 og 410, svo og framsöguræða hv. frsm., benda ekki til þess, að nein ástæða hafi verið til að tefja þetta mál svo lengi sem raun ber vitni um í n. Það væri því fróðlegt að heyra um það hér við umr., hvaða önnur ágreiningsatriði það eru, sem hafa tafið þetta mál svo langan tíma í hv. allshn. Það væri mjög fróðlegt fyrir okkur alþm. að fá að heyra um það. Skal ég svo ekki ræða meir um það atriði sérstaklega.

En ég vil ekki láta þetta mál fara hér úr þessari hv. d. nema gera grein fyrir minni afstöðu til löggæzlunnar yfirleitt. Ég lit svo á, að löggæzlumál eða lögreglumál séu eingöngu mál ríkissjóðs eða ríkisstj., en ekki sveitarfélaga eða bæjarfélaga, og því beri að stefna að því, þó að ekki sé hægt að gera það í einum áfanga, að allur kostnaður við lögreglumál sé greiddur úr ríkissjóði. Ég veit, að í þessu frv. er gerð tilraun til þess að minnka þá byrði, sem hvítir á sveitarfélögum og bæjarfélögum í sambandi við löggæzluna, og er það rétt stefna. En ég tel, að það eigi að taka alla þessa byrði af sveitarfélögunum. Og meginástæðan fyrir því er sú, að langsamlega mestur hluti af lögbrotum í landinu stafar frá víndrykkju, langsamlega mestur hlutinn vegna neyzlu á áfengi, og enginn annar aðili hefur verulegar tekjur af þeim viðskiptum en ríkíssjóður. Að vísu hafa þeir, sem selja áfengi, nokkrar tekjur og einnig sveitarsjóðirnir, þar sem útsölur eru, en langmestur hlutinn af tekjum af vínsölu rennur í ríkissjóð, og þess vegna ber þeim aðila að bera uppi hlutfallslegan kostnað við lögbrotin.

Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að það er vaxandi þörf tollgæzlu í landinu, einkum og sér í lagi síðan skip fóru að sigla beint frá útlöndum á hinar ýmsu hafnir. Og það er vaxandi krafa um það, að sú tollgæzla sé aukin. Nú er svo ráð fyrir gert í þessu frv., sem ég tel alveg rétt, að nota jafnframt löggæzlumenn til tolleftirlits, einkum á þeim stöðum, þar sem lítið er við löggæzlumenn að gera. Það bendir einnig til þess, að það sé réttmætt að gera kröfu um þetta, að ríkissjóður greiðir allan kostnað við tollgæzlu og hefur sameiginlegs verkefnis hér að gæta um tollgæzlu annars vegar og löggæzlu hins vegar. Ég vil því mega kasta þeirri spurningu hér fram: Er mögulegt, að hv. n. og hæstv. dómsmrh., sem hefur borið fram þetta frv. sem stjórnarfrv., vildu taka það til athugunar, áður en málið fer út úr þessari hv. d., hvort ekki sé hægt að setja inn ákveðin fyrirmæli í ákvæði til bráðabirgða um það, að stefna beri að því að ná því takmarki, sem ég þegar hef hér lýst, þó að því sé ekki náð með því frv., sem hér er nú, og ekki í einum áfanga, frekar en ætlazt sé til þess, að þeim kostnaði, sem hér um ræðir, sé að fullu dreift á þá aðila, heldur er þar ætlazt til, að þetta verði ekki að fullu komið yfir á ríkið fyrr en 1964? Og ég skil vel, að vegna þeirrar fjárhæðar, sem það kostar ríkissjóð, þurfi að hafa lengri umhugsunartíma en hér væri fyrir hendi. Þó vildi ég samt sem áður, að þetta væri tekið til athugunar, og ef mögulegt er, sett inn í bráðabirgðaákvæði, að að þessu máli skyldi vinna þannig, að á einhverju tímabili væri allur þessi kostnaður kominn yfir á ríkissjóð og tekinn að fullu af sveitarsjóðunum.