26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

5. mál, lögreglumenn

Gísli Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls, frv. til l. um lögreglumenn, vakti ég athygli á því, að með þessu frv., ef að lögum yrði, væru felld niður ákvæði l. frá 1956, sem leggja ríkislögreglunni nokkrar skyldur á herðar varðandi löggæzlu í verstöðvum og á samkomum víðs vegar um land. Síðar, áður en 1. umr. lauk, ræddi ég lauslega um þetta mái við hv. allshn., sem hefur haft frv. til meðferðar, og varð það þá eiginlega að samkomulagi, að ekki yrðu bornar fram brtt. um þetta efni eða önnur af minni hálfu við 2. umr. Um síðustu helgi, áður en 3. umr. átti að hefjast, höfum við hv. 2. þm. Austf. rætt saman um þetta mál, og það varð að ráði hjá okkur að bera fram brtt. við frv., sem prentaðar eru á þskj. 452.

Hér er um þrjár brtt. að ræða.

1. brtt. er við 1. gr. frv., og það, sem í henni felst, er, að ef sveitarstjórn eða sýslunefnd í sveitar- eða sýslufélagi, þar sem eru 500 íbúar eða fleiri, eins og segir í frv., óskar þess, að þar verði sett lögregla, þá skuli hún eiga rétt á því og á þátttöku ríkissjóðs í kostnaði. En í frv., eins og það liggur fyrir, er þetta allt í heimildarformi fyrir ríkisstj. Okkur sýnist, að ef slíkt sveitarfélag vill leggja á sig þann kostnað, sem hér er um að ræða, þá sé rétt, að það eigi þennan rétt og eigi þá sjálft að dæma um það, þegar það er reiðubúið að leggja fram sinn hluta kostnaðarins, hvort þarna sé þörf á lögreglu. Þetta er efni í 1. brtt.

2. brtt. varðar ríkislögregluna og er að efni til að verulegu leyti shlj. lögum frá 1956. Okkur finnst það óeðlilegt, að ríkislögregla, sem kostuð er að öllu leyti úr ríkissjóði, starfi ekki fyrir allt landið, og við leggjum til, að á þessa ríkislögreglu verði lögð sú skylda að annast löggæzlu í verstöðvum eftir því, sem er nánar til tekið í brtt. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að í þessum verstöðvum, þ.e. síldarmóttökustöðvunum fyrir norðan og austan á sumrin og í verstöðvunum hér fyrir sunnan og vestan, safnast saman fjöldi fólks, aðkomumanna, sem ekki eiga heima á þessum stöðum, og það er þess vegna eðlilegt, að þjóðfélagið í heild sjái um aukna löggæzlu, sem því svarar.

Við leggjum til, að ríkislögreglan sjái um þessa löggæzlu og enn fremur löggæzlu á samkomum utan kaupstaða, eins og hlutaðeigandi lögreglustjóri gerir grein fyrir þörf þess, en þó er það ákvæði í heimildarformi. Það er eins um þessar samkomur, sem haldnar eru víða um land, að þær sækir fjöldi fólks utan þeirra byggðarlaga, þar sem samkoman er haldin, og er því fremur vandamál þjóðfélagsins en eins sveitarfélags að halda uppi löggæzlu, þegar svo stendur á.

Við ætlumst ekki til, að starfsemi ríkislögreglunnar í höfuðborginni verði rýrð af þessum sökum, og þess vegna felst það í till. okkar, að fjöldi ríkislögreglumanna miðist ekki aðeins við fjölmenni lögreglunnar í Reykjavík einni saman, heldur við fjölmenni þeirra lögreglumanna, sem í landinu verða starfandi samkv. 1. gr. þessa frv., en það finnst okkur óeðlilegt, að þessir ríkislögreglumenn skuli allir endilega hafa búsetu og bækístöð í Reykjavík. Það virðist okkur ekki eðlilegt og sérstaklega ekki, ef sú breyt. væri gerð á, sem við förum fram á. Þess vegna höfum við lagt til, að hlutfallslegur fjöldi af ríkislögreglunni verði staðsettur í einstökum landsfjórðungum, ef hlutaðeigandi aðilar á þeim svæðum óska þess.

Ég skal svo aðeins geta þess, að 3. till. er um það að fella niður 2. mgr. 4. gr., en þessi mgr. er um það, að ráða megi lögreglumenn til starfa, þar sem þess þurfi vegna sérstakra aðstæðna, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum, og binda megi slík framlög því skilyrði, að ákveðinn hluti kostnaðar af löggæzlunni sé greiddur af viðkomandi sveitarfélagi. Þetta stendur í frv. eins og það er nú. Ef okkar brtt. nær fram að ganga, ætti ekki að vera þörf á þessu ákvæði. En eins og hv. þm. er kunnugt, hafa svona fjárveitingar verið í fjárl. til löggæzlu í einstökum verstöðvum, ákveðnar fjárupphæðir, sem hafa þá verið til þess notaðar, en þegar löggæzlan hefur kostað meira, hefur hlutaðeigandi sveitarsjóður orðið að greiða það, og hefur þá sums staðar verið um allháar upphæðir að ræða.

Við teljum, að ef okkar brtt. nær fram að ganga, muni síður vera þörf slíkra fjárlagaveitinga. En eigi að síður er það þó auðvitað svo, að Alþ. getur með fjárl. hverju sinni samþ. að veita upphæðir til löggæzlu á einstökum stöðum, ef því sýnist svo, og þarf ekki að taka fram í öðrum lögum það, sem hverju sinni er tekið fram í fjárl.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. En af því að hér er um nokkuð flókið mál að ræða og e.t.v. ekki gott að átta sig á því fyrir þm., sem ekki hafa sérstaklega rannsakað málið, þá vil ég nú fyrir hönd okkar flm. mælast til þess, að málinu verði frestað eitthvað, t.d. til næsta fundar a.m.k., og að hv. n. taki brtt. okkar til vinsamlegrar athugunar, og erum við þá að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að ræða við hana um málið og þá um þær af okkar brtt., sem samkomulag kynni að verða um.