26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

5. mál, lögreglumenn

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru mér nokkur vonbrigði, að hv. form, allshn. skuli nú, að mér virðist, hafa tekið fram fyrir hendurnar á hæstv, forseta, sem mér virtist áðan hafa í huga að fresta umr., og veit ég ekki, hvort hv. form. hefur borið sig saman við meðnm. sína um þetta, hvort verða skyldi við ósk okkar flm. eða ekki. (EI: Við meiri hlutann.) Hann segist hafa borið sig saman víð meiri hl. um það að óska ekki eftir því að fá ráðrúm til þess að athuga brtt. Mér kemur þetta nokkuð á óvart, því að ekki er nú fram á mikið farið, og oft er það nú svo, að það reynist vel til samkomulags í sambandi við brtt., ef n. er fáanleg til þess að taka þær til athugunar og ræða við flm. En úr því að n. vill ekki gera þetta eða meiri hl. hennar, þá er auðvitað ekkert við því að segja. Út af fyrir sig óska ég ekki eftir því, að málinu sé frestað, ef ekkí er hægt að fá n. til þess að athuga till. Ég held samt, að hv. form. n. hefði gert rétt í því að gefa sér tíma til þess að íhuga brtt. og það, sem í þeim felst, því að mér heyrðist á því, sem hann sagði hér áðan, að honum væri t.d. ekki sjálfum ljóst, að í brtt, okkar á þskj. 452 fælist breyt. á 1. gr. frv. Honum virtist ekki vera það sjálfum ljóst. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þessi brtt., ef samþ. yrði, gerði ekki annað en gera frvgr. óljósari. Það varð ekki öðruvísi skilið en þannig, að hann áliti, að í henni fælist engin efnisbreyting. En ég vil leyfa mér að benda á það, að í frvgr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt, að fengnum till. sveitarstjórnar eða sýslunefndar, að ákveða, að í sveitar- eða sýslufélagi, þar sem eru 500 íbúar eða fleiri, skuli vera allt að einum starfandi lögregluþjóni á hverja 500 íbúa.“

Eins og hv. þm. heyra, er hér aðeins um að ræða heimild fyrir ríkisstj. Jafnvel þó að hlutaðeigandi sveitarstjórn samþykki að óska eftir því, að lögregla verði stofnuð á staðnum, þá eru ekki í þessari gr. samkv. frv. nein fyrirmæli til rn. um að verða við þeirri ósk. En í brtt. okkar eru slík fyrirmæli í því tilfelli, að óskir komi fram. Hins vegar höfum við ekki hróflað neitt við því ákvæði frvgr., að ríkisstj. hafi heimild til þess að setja á stofn lögreglu í slíku sveitarfélagi, þó að ósk liggi ekki fyrir. Við höfum ekki hróflað við því ákvæði frvgr., ekki gert um það neina efnislega brtt. En þarna er, eins og hv. þm. sjálfsagt verður ljóst við að heyra þetta lesið upp, um efnisbreyt, að ræða, sem hv. form. allshn. hefur ekki gert sér grein fyrir enn sem komið er, því að hann hefur ekki haft ráðrúm til þess eða n. að kynna sér efni brtt.

Þá er það 2. brtt. frá okkur hv. 2. þm. Austf. á þskj. 452. Hv. form. allshn, dæmdi þá till. úr leik á þeim grundvelli einfaldlega, að hún raskaði allri skiptingu kostnaðar, sem annars fælist í frv., milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Þetta fæ ég ekki skilið, og þetta held ég einnig að stafi af því, að hv. þm. hafði ekkert ráðrúm til að kynna sér til hlítar áhrif brtt. á frv., ef hún yrði samþ.

Það er ekkert í þessari till. um það, að breyta skuli því almenna hlutfalli, að sveitarfélag greiði helming lögreglukostnaðar og ríkissjóður hinn helminginn. En hér er um að ræða staði, þar sem við teljum og raunar þarf ekki að vera neinn ágreiningur um að sé um sérstaka löggæzluþörf að ræða, — aðeins þá staði. Það er gert ráð fyrir, að ríkislögreglan inni af höndum tiltekna löggæzlu á þessum stöðum í verstöðvum, þar sem, eins og ég sagði áðan, safnast saman fjöldi fólks úr öðrum sveitarfélögum eða lögsagnarumdæmum og þar sem okkur sýnist þess vegna mjög eðlilegt, að ríkislögreglan komi til skjalanna og ríkið beri kostnað af. Ég sé ekki, að þetta raski neinum hlutföllum. Hitt er svo annað mál, að á þessu kunna að vera einhverjir gallar, sem við höfum ekki komið auga á, eitthvað annað, sem ekki væri í fullu samræmi við lögin, og það hefði ég að sjálfsögðu mjög gjarnan viljað ræða við n. og að sjálfsögðu taka til greina gild rök í þeim efnum.

En það vakti fyrir okkur í þessu sambandi t.d., svo að ég reyni að skýra það mál nánar, að ríkislögreglumenn, sem staðsettir verða á Norðurlandi — skulum við segja — í réttu hlutfalli við tölu fastra lögreglumanna í sveitarfélögum þar, gætu á öðrum árstímum, þótt þeir væru sérstaklega staðsettir á Norðurlandi, komið til liðs við ríkislögreglumenn á Suðurlandi, þegar meiri þörf er fyrir löggæzlu þar, og svo gagnkvæmt, þannig að þessi lögregla í fjórðungunum gæti unnið nokkuð saman og verið eitthvað hreyfanleg, þó að hún væri fyrst og fremst staðsett í vissum landshlutum.

Hv. þm., formaður allshn., vitnaði til þess, að í 7. gr. frv. stæði, að ríkislögreglumönnum væri skylt að gegna löggæzlustörfum hvar sem er á landinu, og það er rétt, að þau orð standa í frv. En ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að ríkislögreglan í Reykjavik hafi alls ekki til þessa starfað á þennan hátt, að hún hafi sinnt löggæzlu hvar sem er á landinu, þannig að hægt sé að hafa þetta orðalag þar um. Og svo mun varla verða, meðan það er talin sjálfsögð regla, að allir ríkislögreglumenn séu staðsettir og búsettir hér í Reykjavík. Þess vegna ætla ég, að þetta ákvæði í 7. gr. reynist gagnslítið til þess að ná þeim tilgangi, sem fyrir okkur hv. 2. þm. Austf. vakir. Hv. þm. og hv. stjórnarvöld verða að fara að venja sig við þá hugsun, og það er eins gott, að á því verði ekki allt of mikill dráttur, að það sé ekki endilega sjálfsagt, að stofnanir, sem ríkið setur upp til þess að starfa á vegum þjóðfélagsins, séu staðsettar hér í Reykjavik, og aðrir landshlutar eigi líka sína kröfu, án þess að á nokkurn hátt sé á rétt höfuðborgarinnar gengið eða eigi að ganga í því sambandi. Og hér er um að ræða eitt af þeim málum m.a. Þetta kann að koma mönnum dálitið undarlega fyrir sjónir, ýmsum, sem eru búnir að venja sig við þessa hugsun, ef sett er upp ný stofnun á vegum ríkisins, þá eigi hún að vera staðsett í höfuðborginni, þar á að safna öllu saman. En það eru til önnur viðhorf í þessu máli, sem eru engu síður þjóðholl en hin, og það er rétt að gera sér grein fyrir því.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en mér þykir það leitt — mér þykir það mjög leitt, að hv. meiri hl. allshn. skuli ekki vera til viðræðna um breyt. á frv. Það hefur ekki verið ætlun okkar, sem stöndum að þessum brtt., að tefja þetta mál á neinn hátt, en tækifæri höfum við gjarnan viljað fá til að ræða við hv. n. um málið.