26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

5. mál, lögreglumenn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að sú brtt., sem hér kemur fram á þskj. 452, sé mjög athyglisverð, og ég vildi gjarnan fá að heyra frá hv. allshn., hvort hún skilur þessa brtt. eins og ég. Mér heyrðist hér áðan á hv. form. allshn., að hann álíti ekki verulega breyt. í þessu, en mér sýnist þessi brtt. umturna alveg og það á mjög góðan hátt 1. mgr. l. gr. Brtt. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. ákveður samkv. ósk sveitarstjórnar eða sýslunefndar, að í sveitarfélagi eða sýslufélagi, þar sem eru 500 íbúar eða fleiri, skuli vera allt að einum lögregluþjóni á hverja 500 íbúa, og hefur heimild til slíkrar ákvörðunar, að fengnum till. sveitarstjórnar, ef brýna nauð. syn ber til.“

Það er tvennt nýtt að mínu áliti, sem í þessu felst. Eins og 1. gr. er nú í 1., er ríkisstj. heimilt, þegar hún hefur bara hlustað á till., að ákveða, að í hverju sveitar- eða sýslufélagi skuli vera svo og svo margir lögregluþjónar. Samkv. þessari brtt., sem hér liggur fyrir, skilst mér svo í fyrsta lagi, að ríkisstj. ákveði þetta samkv. ósk sveitarstjórnar. Það þýðir m.ö.o., að það er sveitarstjórnin eða sýslunefndin, sem tekur ákvörðun og lætur ósk sína í ljós. Og þá á ríkisstj. að ákveða þetta samkv. þeirri ósk. Ríkisstj. ákveður samkv. ósk sveitarstjórnar eða sýslunefndar. Í hvert skipti sem orðið samkvæmt stendur í þessu sambandi hjá okkur, ef við segjum t.d. samkv. till. í staðinn fyrir að fengnum till., þá þýðir það, að það ber að fara eftir því, sem þarna er lagt fyrir. Mér sýnist þess vegna vera alveg ákveðið, að það er sveitarstjórnin og sýslunefndin í fyrra tilfellinu, sem er sá, sem raunverulega ákveður, og það er aðeins formið, sem ríkisstj. gerir. Hún ákveður þetta samkv. ósk sveitarstjórnar eða sýslunefndar, að 1 hverju sveitar- eða sýslufélagi, sem í eru 500 íbúar eða fleiri skuli vera allt að einum lögregluþjóni á hverja 500 íbúa. Og ég álít þetta mjög skynsamlegt. Ég álít þetta mjög rétt.

En áður en greidd eru atkv. um svona ákvörðun, þá hygg ég, að það sé alveg brýn nauðsyn á, að allir hv. þm. geri sér ljóst, bæði þeir, sem flytja till., og hv. nm., hvað sé átt við með þessu. En ég fæ ekki skilið þetta öðruvísi. Ríkisstj. ákveður samkv. ósk sveitarstjórnar eða sýslunefndar. Og ef þetta er ekki rétt hjá mér, þá vildi ég eindregið óska eftir því, að bæði hv. flm. og hv. meiri hl. í allshn., ef allt í einu er skapaður þar sérstakur meiri hl., vildu leiðrétta þetta. Ég hef hingað til gengið út frá, að það hafi verið enginn meiri hl. í henni. Ég hélt, að þetta mál hefði verið afgreitt af n. sameiginlega, það hefðu aðeins verið fluttar brtt., það er kannske misminni hjá mér. Ég man ekki eftir, að n. hafi klofnað, það er kannske misminni. (EI: 3 af 5 eru meiri hl.) 3 af 5 eru meiri hl., en það er enginn meiri hl., sem stendur að þessu nál., heldur heil nefnd. (EI: Það er alveg rétt.) Jæja, þá er það rétt hjá mér, og þá þakka ég form. fyrir þær upplýsingar. Það er n. í heild, sem stendur að þessu, og þá er ekki vani að skapa allt í einu sérstakan meiri hl. við 3. umr. máls, meðan umr, stendur yfir, svo að segja utan dagskrár. Ef það er n. öll, sem ber ábyrgð á því, að hún mælir með þessu frv. við okkur, þá finnst mér eðlilegt, að n. athugi þetta. Ef n. hefði verið klofin og hér væri eitthvert harðvítugt pólitískt deilumál, þá skil ég ákaflega vel, að menn væru ekki að þessu.

Svo í öðru lagi er seinni parturinn af þessu: ríkisstj. hefur heimild til slíkrar ákvörðunar, að fengnum till. sveitarstjórnar, ef brýna nauðsyn ber til. M.ö.o.: samkv. fyrri hluta setningarinnar var það sveitarstjórnin og sýslufélagið, sem var hinn raunverulegi valdhafi í þessum efnum, og ríkisstj. ákvað þá því aðeins, að sveitarstjórnin óskaði þess. Svo kemur hins vegar í seinni hlutanum, að ríkisstj. hefur heimild til svona ákvörðunar um að setja einn lögregluþjón á hverja 500 íbúa, að fengnum till. sveitarstjórnar, ef brýna nauðsyn ber til. Við þekkjum nú orðið brýna nauðsyn. Það er orðið í sambandi við stjórnarskrána mjög ákveðið og ýmiss konar fordæmi, og stundum finnst manni kannske ekki alveg farið eftir orðanna hljóðan, en a.m.k. má alltaf um það deila. Ég skil sem sé seinni hlutann þannig, að ríkisstj. hafi ekki heimild til þess að ákveða slíkt, nema brýna nauðsyn beri til. M.ö.o.: mér sýnist þetta alveg umturnun á 1. málsl. í l. mgr. Fyrst er valdið lagt í hendur sveitarstjórnar eða sýslunefndar og ríkisstj. falið að framkvæma það, sem sveitarstjórnin óskar, í seinni hluta málsl. er síðan ríkisstj. gefin heimild til, sams konar heimild og nú er í 1. gr., til að gera þetta, ef brýna nauðsyn ber til og því aðeins að brýna nauðsyn beri til. Ég fæ ekki betur séð en þetta sé mjög veigamikil breyt., sem þarna er lögð til, og ég vildi fyrir mitt leyti, ef ég hef eitthvað misskilið í þessu, eindregið óska, að það væri upplýst.

Ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að menn séu a.m.k. sammála um það, hvernig menn skilja greinarnar, áður en menn eru látnir greiða atkv. um þær. Og ég sé ekki, eins og mætt er yfirleitt á þessum þingfundi, að það geri mikið til, hvort svona mál dregst til fimmtudagsins eða ekki, því að það er líklega varla fært að greiða atkv. um það einu sinni núna, og þetta er nú svo lítið, sem um er að ræða, hvort það væri nokkur möguleiki á, að hægt væri að hafa samkomulag um þetta í n., og n. tæki ekki upp á því að fara að klofna síðla í 3. umr, málsins, þótt hún slampaðist óklofin fram að þessu.