26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

5. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var út af aths. hv. 2. þm. Austf., þá hygg ég, að hann hafi misminnt. Í huga mér stendur málið þannig, að 2. umr. hafi verið frestað, eftir að fram kom aths. frá hv. 3. þm. Norðurl, e. og til athugunar á brtt., sem hv. 11. landsk. þm. hafði borið fram, og n. hafi við 2. umr. flutt brtt., sem í aðalatriðum gekk til samkomulags við hv. 11. landsk. þm., og sú brtt. sé nú komin inn í frv. eftir frestun málsins, og þá hafi einnig verið athuguð meginaths. hv. 3. þm. Norðurl. e. og komizt að þeirri niðurstöðu, að efni það, sem hann fjallaði um, væri þegar í frv. frá upphafi. Ég skildi svo, að þetta ætti sér stað allt við 2. umr., og þess vegna var aths. sú, sem hv. 2. þm. Austf. bar fram, á misskilningi byggð, eftir því sem mig minnir. Aðrir leiðrétta þá, ef þar er um misminni að ræða.

Hitt vil ég svo taka undir, sem hv. frsm. sagði, að 1. brtt, á þskj. 452 er ákaflega óljós og mjög torskilin. Það mætti kannske fara þess á leit, að tillögumenn fengju tám til þess að setja þá till. í það horf, að ekki þyrfti að verða mikill ágreiningur, hvað í henni fælist, vegna þess að það er ljóst af ummælum hv. 1. flm. till. og hv. 3. þm. Reykv., að þeir leggja mjög annarlegan skilning í þá till. Þeir ætlast til þess, að sveitarstjórn eða sýslunefnd hafi þarna hreint ákvörðunarvald um fjölda lögregluþjóna, þar sem engin ákvörðun ríkisstj. komi til, og verði ríkið þó framlagsskylt til lögreglunnar. Ef þetta vakir fyrir tillögumönnum, þá segir till. það ekki. Till. hljóðar, með leyfi hæstv, forseta, svo í upphafi: „Ríkisstj, ákveður samkv. ósk sveitarstjórnar eða sýslunefndar“ o.s.frv. Það getur engum blandazt hugur um, að þarna er ákvörðunarvaldið hjá ríkisstj., en hinir bera einungis fram ósk. Ef þeir ætlast til, að ríkisstj. missi sitt ákvörðunarvald, verður að orða það á annan veg og segja: „Ríkisstj. skal samkv. eða eftir ákvörðun sveitarstjórnar gera svo og svo.“ En þegar orðalagið er þannig, að það er fyrst berum orðum tekið fram, að það er ríkisstj., sem þetta ákveður, en hinir bera einungis fram óskina, þá er ekki hægt með venjulegum lögskýringarreglum að segja, að ákvörðunarvaldið sé fengið í hendur sveitarfélags eða sýslufélags og tekið úr höndum ríkisstj.

Það er annað mál, sem velktist fyrir hv. 3. þm. Reykv., að það er stundum tekið fram, að „ríkisstj. skal skipa eftir tilnefningu“ eða „ríkisstj. skipar eftir tilnefningu“ þessa og þessa aðila, og er það skilið á þann veg, að tilnefningaraðilinn ráði raunverulega og það sé ríkisstj., sem einungis eigi að setja sinn stimpil á þetta. Þetta er orðalag, sem er búið að fá hefð og er skilið á þennan ákveðna veg, sem hv. 3. þm. Reykv. gerði grein fyrir. Ég hygg, að það hafi aftur á móti komið fyrir og orðið ágreiningsmál á sínum tíma, að ákveðið var, að bæjarstjórn skipaði t.d. lögregluþjón eftir tilnefningu lögreglustjóra, og var þá litið þannig á af dómstólum, að bæjarstjórnin mætti ekki fara út fyrir neinn þann, sem lögreglustjóri hafði tilnefnt, en bæjarstjórnin gat hins vegar neitað tilnefningunni. Ef orðalagið hefði verið: „bæjarstjórn skipar að fengnum till. lögreglustjóra“, þá mundi bæjarstjórnin algerlega frjáls að sínu vali og einnig geta tilnefnt einhvern annan en lögreglustjóri hafði stungið upp á.

Það má segja, að allt þetta sé nokkur orðhengilsháttur, en viss hefð hefur komizt á skilning tiltekinna orðasambanda. Ég þori að fullyrða, að ef það er það, sem vakir fyrir hv. flm., sem hv. 3. þm. Reykv. skýrði svo örugglega, — ég gat því miður ekki heyrt grg. hv. 3. þm. Norðurl. e. í upphafi, en skildist þó á hans síðari ræðu, að það væri það sama, sem vekti fyrir honum, — þá þarf að orða þetta skýrar. Og mér finnst alveg sjálfsagt, ef aðilar óska eftir því að fá færi að orða það þannig, að það falli saman við þeirra hugsun, þá gefist þeim tóm til þess. Það liggur ekki svo á afgreiðslu málsins. En þá er rétt, að það komi alveg ljóst fram, að það er vegna þess, að þeir óski eftir því, að þetta sé umorðað.

Hins vegar vil ég geta þess, að mér finnst ekki vera neinn hraði á meðferð málsins nú eða það sé verið að ýta málinu áfram meira en góðu hófi gegnir. Eins og ég segi, málinu var frestað við 2. umr., til þess að þau atriði yrðu íhuguð, sem við þá umr. var hreyft. Hitt er tiltölulega sjaldgæft, eins og við vitum, að þó að brtt. séu bornar fram við 3. umr., þá sé máli sérstaklega frestað, til þess að nefnd athugi það, sérstaklega ef búið er að athuga meginhluta hugsunarinnar við 2. umr. Þeim mun minni ástæða er til þess að fresta núna, þar sem málið var á dagskrá hér í gær. Brtt. lá þá fyrir, og að sjálfsögðu var flm. fært að bera sig saman við n. og hafa veður af hennar skoðun á þeim tíma, sem síðan er liðinn. Eins og venja er til við 3. umr. sker ákvörðunarvilji hv. þm. úr. Vilja þeir fallast á þessa brtt. eða ekki? Nú er það ljóst, að það vakir töluvert annað fyrir flm. en þeirra till. segir, og mér finnst sanngjarnt, að þeir fái færi á að leiðrétta þetta, ef þeir óska eftir.