28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

5. mál, lögreglumenn

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. 3. umr. þessa máls hófst s.l. þriðjudag og snerist eðlilega um brtt. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e. Frv. um lögreglumenn stefnir á margan hátt í rétta átt, en til þess að gera það sanngjarnara og hagnýtara fyrir fólk utan Reykjavíkur, þá bárum við brtt. fram á þskj. 452. Umr. á þriðjudaginn voru á ýmsa lund sérstæðar og athyglisverðar, og vil ég því, þar sem margír hv. dm. voru fjarverandi, geta þeirra að nokkru.

Hv. fyrri flm. brtt. gerði grein fyrir henni og gat þess, að við flm. væntum þess, að hv. allshn., sem hefur fjallað um frv. um lögreglumenn, sæi um, að umr, yrði ekki lokið að þessu sinni og að tækifæri gæfist til, að brtt. yrði athuguð í n., og frsm. lýsti því yfir fyrir hönd okkar flm., að við værum reiðubúnir til að ræða við n. um orðalagsbreytingar og annað það, sem n. kynni að þykja að betur mætti fara án þess að hverfa frá meginatriðum brtt. Hv. formaður allshn. lýsti því yfir sem skoðun sinni, að lítil eða engin efnisbreyt. væri í brtt. okkar, enda væri hún óljós og ekki á neinn hátt til bóta og því væri algerlega ófært að fresta umr. til þess að taka málið fyrir í n., og að lokum gat hann þess, að þá þegar væri fenginn meiri hl. innan n. gegn brtt.

Þessi yfirlýsing mun hafa vakið undrun flestra þeirra þdm., sem á hlýddu, og hv. form. allshn. á eftir að upplýsa, hvernig slíkt mátti ske og hvernig það sé þingræðislegt og skv. viðteknum venjum, að form. þn. geti myndað meiri hl. eða klofið n. án þess að kalla saman nefndarfund til þess að gefa öllum nm. kost á að ræða og taka afstöðu til málsatriða. Þessi yfirlýsing hv. form. allshn. um fenginn meiri hl. í allshn. gegn brtt. okkar var því furðulegri sem n. hefur til þessa staðið óklofin að meginefni þessa frv. um lögreglumenn og því taktlítið af form. að kljúfa n. utan nefndarfundar og án vitundar sumra nefndarmanna.

Hæstv. dómsmrh. kom svo hv. form. allshn. til aðstoðar. Kvað hann brtt. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e. óljósa og torskilda og því væri rétt að fresta umr. til þess að gefa flm. tækifæri til að betrumbæta hana. En ekki tók hæstv. dómsmrh. undir það, að málið yrði athugað í n. Ræða hæstv. dómsmrh. var á þá lund, að það mátti teljast fullvíst, hvaðan ummæli og afstaða form. hv. allshn. væri runnin, en þessi maður, hv. form., er yfirleitt þekktur að meiri sanngirni en framkoma hans í þessu máli sýndi.

Hæstv. dómsmrh. vék sér undan því að ræða brtt. efnislega, en taldi, eins og áður er sagt, að hún væri óljós og torskilin. Ég vil nú álíta, að hæstv. dómsmrh. mundi tæplega hafa haft öll þau fullyrðingaorð í þessu efni, ef hann hefði ekki verið fyrir fram ákveðinn, hver örlög brtt. skyldi fá, að hann frá upphafi hefur sennilega sett sjónaukann fyrir verra augað, þegar hann skoðaði till. Og það er því meiri ástæða til að álíta, að svo hafi verið, þar sem það henti þó hæstv. dómsmrh. í lok ræðu sinnar að geta þess, að það mundi sennilega vera álit ýmissa í d., að ræða hans væri að verulegu leyti orðhengilsháttur. Og ég tel, að það hafi verið sannmæli, það var ekki efnisleg aðfinnsla varðandi brtt., heldur orðhengilsháttur um einstök atriði hennar.

Þetta mun hæstv. ráðh. hafa gert sér ljóst, og fékkst hann að lokum til að viðurkenna það í lok ræðu sinnar. Að ég tel, að hæstv. ráðh. hafi hitt á rétt orð yfir málflutning sinn, styður m.a. það, að við flm. höfðum, áður en till. var útbýtt, borið hana undir viðurkenndan lögfræðing, sem m.a. hefur talsverða reynslu í því efni að semja lagafrv., og lýsti hann því yfir við okkur, að það væru ekki sjáanlegar neinar ástæður til þess að finna að þessari brtt. formlega séð. Það mun því vera staðreynd, að það er tómur orðhengilsháttur, ef hæstv. ráðh. og stjórnarmeirihl. vill ekki fallast á þær breyt., sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. leggjum til að gerðar verði á frv. um lögreglumenn. Astæðan gegn meginefni till. er því sú að vilja ekki fallast á, að sveitarstjórnir og sýslun. eigi ákvörðunarrétt um lögreglulið sitt og fái ekki í sumum tilfellum fjárhagslega aðstoð í því efni fram yfir það, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil svo leiðrétta ummæli, sem ég viðhafði, þegar hv. form. allshn. hafði neitað að stuðla að frestun umr. til þess að taka brtt. til athugunar í allshn. Ég benti þá á, hversu slík afstaða form. væri óviðurkvæmileg, ekki sízt eftir að málið hefði legið hjá n. í nálægt 5 mánuði, og síðan væri málið afgr. gegnum 2. umr. með afbrigðum. Hið rétta mun vera, að málið var tekið fyrir með afbrigðum í hv. þd., en síðan umr. frestað skv. eindregnum tilmælum nokkurra þdm. Það stendur því eftír sem áður, að augljóst er, að allir tilburðir hafa verið hafðir til að hraða málinu á óeðlilegan hátt, þó að betur hafi úr rætzt að sumu leyti en til hefur staðið á hverjum tíma.

Þessa óþolinmæði hæstv. dómsmrh. og stjórnarstuðningsmanna má kannske rekja til skiljanlegrar ástæðu, þeirrar, að dómsmrh. hæstv. hafi verið orðinn órólegur að vonum um það, að hann gæti ekki heimt málið úr þeim utanþingsfjötrum, sem það virðist hafa verið í í nokkra mánuði, og þess vegna ekki verið viðbúinn að sýna þá biðlund eða þá þolinmæði í sambandi við athugun málsins eins og hann hefði annars gert.

Síðan mál þetta var til umr. í þessari hv. d. s.l. þriðjudag, hefur það gerzt, að hv. form. allshn. boðaði í morgun okkur flm. umræddrar brtt. á fund sinn til þess að ræða um ágreiningsatriði. Satt að segja hélt ég, að hér væri um að ræða fund í allshn., en svo var ekki, heldur aðeins einkafund með hv. form. Sést á því, að hv. stjórnarmeirihl. heldur sig við þá ákvörðun að gefa ekki allshn. tækifæri að ræða brtt. og taka afstöðu til hennar í heild. Víð hv. 3. þm. Norðurl. e. endurtókum fyrri yfirlýsingar okkar um, að við værum fúsir að taka til greina orðalagsbreyt. og annað, sem ekki færi í bága við meginhugsun till. En við þessu fengum við engín svör frá hv. form. allshn. Með því er augljóst, að hv. stjórnarlið vill ekki samþ. aðalefni brtt. okkar, en kveinkar sér þó mjög undan því að sýna það í verki og kýs að reyna að breiða yfir viðhorf sitt með orðhengilshætti, eins og hæstv. dómsmrh. tók fram á sínum tíma.

Í sannleika er málið ákaflega einfalt og í aðalatriðum þetta: í fyrsta lagi: Á að veita sveitar- og sýslufélögum óskoraðan rétt til að ráða því að stofna til lögregluliðs, þegar þess er óskað af hlutaðeigandi aðilum, eða á ríkisstj. á hverjum tíma að haga slíkri framkvæmd eftir geðþótta, hvað sem óskum heiman úr héraði liður? Í öðru lagi: Eiga byggðarlögin utan Reykjavíkur að njóta einhvers, en þó takmarkaðs réttar til aðstoðar ríkislögreglunnar með því, að hún sé að nokkrum hluta, en þó litlum, staðsett úti á landi? Eða á að hafa hana alla staðsetta í Reykjavík, og þá jafnvel þótt liði hennar verði verulega fjölgað? Og er ekki rétt og sanngjarnt, að allir borgarar landsins, sem greiða til ríkissjóðs kostnað af þessu lögregluliði, fái meira en verið hefur að njóta nauðsynlegrar aðstoðar þess?

Hér er um tvö meginsjónarmið brtt. okkar að ræða. Atkvgr. um till. sker úr um það, hvort hv. Alþ. vill í þessu tilfelli veita fólkinu úti á landi eðlilegan rétt og sjálfsagða lágmarksaðstoð, sem það á í þessu efni rétt á.