01.11.1962
Efri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða fyrir mig að halda hér lengi umr. áfram, þar sem hæstv. ráðh. gerir aðeins aths. við eitt atriði í sambandi við afstöðu mína og hv. 1. þm. Norðurl. e. Ég hef nú engin gögn hér við höndina, sem varða afkomu sveitarfélaganna, og enn síður um það, hvaða áhrif söluskattarnir hafa haft á afkomu þeirra.

Hitt hygg ég að öllum alþm. sé kunnugt, að álögur bæjarfélaganna hafa aldrei hækkað eins stórkostlega árlega og á tímabili þeirrar skattastefnu, sem ég var hér lítillega að gera skil áðan. Og ég hygg, að það sé mjög algengt a.m.k., að útsvörin hafi hækkað á þessu tímabili um 50% eða enn þá meira en hin almenna verðlagshækkun hefur orðið í landinu á sama tíma. Og ég hygg, að þó að hægt sé að setja dæmið upp kannske eins og hæstv. ráðh. gerði hér — og ég vil ekki að svo komnu draga í efa, að þær tölur, sem hann nefndi, séu út af fyrir sig réttar, en hæstv. ráðh. gleymir bara einu í þessu dæmi, að söluskatturinn á innfluttum vörum hefur ekki svo litla þýðingu fyrir bæjarfélögin, og hygg ég, að þar komi allstór frádráttur. Ef þessi skattur væri afnuminn, mundi tekjuþörf bæjarfélaganna að sjálfsögðu minnka allverulega og jafnvel ekki síður en einstaklinganna. Bæði mundi það koma á móti óhjákvæmilegum launahækkunum og svo er margs konar efnivara, sem bæjarfélögin þurfa á að halda. En það verð ég að segja, að mér finnst harla broslegt, þegar hæstv. ráðh. gerir það að einu ástæðunni fyrir því, að æskilegt sé að halda þessum skatti áfram, að sveitarfélögin fái 20% af honum, það sé tilvinnandi, að lagðar séu á almenning í landinu 260 millj. kr., til þess að bæjarfélögin fái aftur af því 50 millj., sem ég hygg þó, að séu engar 50 millj., þegar það dæmi er reiknað rétt og reiknað til hlítar.