07.02.1963
Efri deild: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd. og er á margan hátt svipað þeim frv., sem áður hafa verið flutt á hv. Alþ. um þetta efni. Það hefur þó verið reynt að samræma skoðanir hinna ýmsu manna, sem um þetta eiga helzt að fjalla, annars vegar veitingamanna og hins vegar veitingaþjóna, og svo í þriðja lagi heilbrigðiseftirlitsins. Þetta hefur tekizt með því, að skipuð var nefnd til þess að taka hin eldri frv. til athugunar og semja nýtt upp úr þeim. Þessi n. var skipuð af samgmrh. í okt. 1961, og lauk hún störfum á s.l. hausti. 1 n. voru Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður nefndarinnar, Benedikt Gröndal alþm., dr. Jón Sigurðsson borgarlæknir, Pétur Daníelsson veitingamaður, Símon Sigurjónsson framreiðslumaður og Þorvaldur Guðmundsson forstjóri.

Till. n, ganga að mestu leyti í sömu átt og hin eldri frv., en breytingarnar eru í því, eins og ég áðan sagði, að samræma hinar ýmsu skoðanir, sem ekki hafði tekizt áður. Stærsta nýmæli tillagna n. er það, að hún leggur til, að eftirlit með gisti- og veitingahúsum, sem í eldri frv. var lagt til að falið yrði Ferðaskrifstofu ríkisins jafnframt heilbrigðiseftirlitinu, verði falið sérstökum eftirlitsmanni, sem starfar undir yfirstjórn landlæknis. Eins og kunnugt er, þá eru veittar árlega 20 þús. kr. til Ferðaskrifstofu ríkisins til að hafa þetta eftirlit með höndum, en það hefur verið talið alls ófullnægjandi af eðlilegum ástæðum, því að ef það á að halda uppi eftirliti með veitinga og gistihúsum um landið allt, þá hlýtur að fylgja því allmikill ferðakostnaður. Það er gert ráð fyrir, að það verði eitthvað aukinn kostnaður við þessa skipulagsbreytingu, en flestum, sem til þessara mála þekkja, sýnist vera nauðsynlegt að auka eftirlitið og hreinlætið, ef á að koma hér á veitingahúsmenningu með auknum ferðamannastraumi.

Lagt er til, að gistihúsahald og veitingasala verði áfram bundin leyfi, sem lögreglustjórum er heimilt að gefa út, og er það eins og var í hinum fyrri frv.

Frv. skýrir sig að mestu leyti sjálft ásamt grg., sem því fylgir, og er alveg ástæðulaust að vera að lesa það upp hér fyrir hv, þm., sem hafa vitanlega kynnt sér málið, og tel ég; að það sé í rauninni óþarft hvað þetta snertir.

Það, sem má telja þessu frv. til gildis og fram yfir núgildandi lög, er það í fyrsta lagi, að með því að lögtaka þetta frv. verður meira og betra eftirlit með gististöðum og veitingastöðum en áður hefur verið. Og ef þetta frv. verður að lögum, þá ætti það að leiða til þess, að það yrðu meiri framfarir í okkar gistihúsarekstri og veitingasölu en áður hefur verið. Nú er það eðlilegt, að veitingasala og gistihúsahald hér á landi sé allt af vanefnum gert, vegna þess að umferðin er ekki nógu mikil til þess, að það borgi sig að hafa veitingasölu og gistihúsahald úti um land. Og það er kunnugt, að þetta eru kannske aðeins 3 mánuðir á ári, sem það er um nokkurn verulegan ferðamannastraum að ræða. Meiri hluti ársins er dauður t:ími. Og þess vegna er það, að þegar þessi mál eru athuguð á raunsæjan hátt, þá er ekki nema eðlilegt, að þetta sé allt af vanefnum gert. En það verður að standa til bóta, það verður að vinna markvisst að því, sem ábótavant er í þessum efnum, um leið og skipuleggja þarf meiri ferðamannastraum til landsins og bæta þannig úr því fámenni og þeirri litlu sölu, sem veitingahús og gististaðir hafa, ef aðeins er um innlenda ferðamenn að ræða.

Ég hygg að segja megi, að þetta standi til bóta, enda hefur ferðamannastraumur aukizt allverulega hin siðari ár og á eftir að aukast meir, og þetta frv., ef það getur orðið að lögum, ætti að vera hjálp í því að ná því marki í þessum efnum, sem ætlazt er til.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2, umr. og hv. samgmn.