04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Um þetta frv. má heita samkomulag í samgmn., þó að ég flytji ásamt 1. þm. Norðurl. e. eina brtt. við frv., eins og hv. frsm. n. gat hét um áðan. Hann skýrði réttilega frá því, að ákvæði 4. gr. eru um það m.a., að leita skuli álits bæjareða sveitarstjórnar, áður en veitt er leyfi til veitingarekstrar. En í þessu felst sú breyt. frá núgildandi l., að sveitarstjórnirnar eru sviptar þeim rétti að ráða mestu um það, hvort slíkt leyfi skuli veitt, og valdið fengið í hendur lögreglustjóra. En í gildandi l. nr. 21 frá 1926, 3. gr., 5. tölul. segir: „Hefur meðmæli bæjarstjórnar eða hreppsnefndar, þar sem hann ætlar að reka atvinnu.“ Þetta á að fella niður, sem gilt hefur undanfarin 37 ár, og ég veit engin dæmi til um, að hafi gefizt illa. Ég sé ekki, að það sé neitt fram komið, sem mælir með því að svipta sveitarstjórnirnar þessum rétti. Hins vegar er eðlilegt að mínum dómi, að sveitarstjórnirnar hafi þennan rétt. Það er vitað mál, að víða úti um land, í kaupstöðum og kauptúnum, er skortur á gisti- og veitingastöðum, sem er mjög bagalegur, og jafnvel vansæmandi fyrir þessi byggðarlög að hafa ekki neitt slíkt til móttöku gesta. Sveitarstjórnir hafa því hlaupið hér undir bagga, ýmist með lánveitingum, ábyrgðum eða beinum framlögum til þeirra aðila, sem hafa viljað taka þessa þjónustu að sér. Og með þeim hætti hefur verið komið upp á ýmsum stöðum gistiþjónustu og veitingaþjónustu, sem ekki var áður til að dreifa. Það er því ekki óeðlilegt, að sveitarstjórnirnar hafi nokkur afskipti af leyfisveitingum til þessa atvinnurekstrar, þegar það er vitað, að þessi mál hafa þurft svo mjög á aðstoð sveitarstjórnanna að halda.

Nú getur maður auðveldlega hugsað sér það, að eftir að sveitarstjórn hefur þannig styrkt einhvern aðila til að koma upp veitingarekstri, þá komi einhver annar og sæki um sams konar leyfi eða svipað leyfi, t.d. til veitingasölu, þó að ekki sé til gistiþjónustu, og vilji setja sig niður við hliðina á hinum, sem áður er búið að styrkja til þessa rekstrar. Að vísu er þetta lögmál frjálsrar samkeppni, en þarna getur hún farið út í öfgar, því að afleiðingin getur auðveldlega orðið sú, að viðskipti dragist svo frá þeim aðila, sem styrktur hefur verið til að koma henni upp, að hann gefist upp og hún jafnvel falli niður að einhverju leyti eða jafnvel öllu leyti, sú þjónusta, sem þannig var komið á. Af þessum ástæðum tel ég mjög varhugavert að svipta sveitarstjórnirnar þessum rétti, sem þær hafa haft í undanfarin 37 ár og mér vitanlega hefur aldrei verið fundið að.

Menn segja, að það sé alveg óhætt að treysta lögreglustjóranum til þess að beita sanngjarnlega þessu valdi, og auðvitað má segja það. En hvaða ástæða er til þess að vantreysta sveitarstjórnunum til þess að sýna þarna fulla sanngirni, eða hafa þær ekki gert það undanfarna áratugi? Það hvílir sú siðferðilega skylda á sveitarstjórnunum að greiða fram úr þessum málum, þar sem svo er ástatt eins og ég nefndi áðan, en sú skylda hvílir ekki á lögreglustjóranum. Af þessu tel ég eðlilegra, að það haldist sá háttur, sem verið hefur og hefur gefizt vel, en ekki sé hér breytt til. Það breytir engu hvað snertir húsnæði, sem á að hafa til þessa, að sveitarstjórnir hafi úthlutun byggingarleyfa með höndum og þ. h., það hefur engin áhrif á þetta mál. Um áfrýjunarréttinn til ráðuneytis leggjum við ekki til að sé neitt breytt til. Hann helzt efnis og lagt er til í frvgr. Það eina, sem við leggjum til, er það, að sá réttur, sem sveitarstjórnirnar hafa haft og gefizt vel, haldist, þ.e. að samþykki sveitarstjórna þurfi til þess, að veita megi leyfi til gistihúsa- og veitingarekstrar.