04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Út af ábendingum hv. 2. þm. Reykv. varðandi 15. gr. frv. vil ég taka þetta fram: Í 3. tölul. þeirrar gr. segir, að leyfi fyrir veitingastöðum veiti rétt til sölu á heitum og köldum drykkjum, brauði og kökum, en ekki á heitum máltíðum. Við þetta hefur n. gert þá brtt., að í staðinn fyrir „heitum“ komi „heilum“. Nú skal ég að vísu viðurkenna, að þarna hefur mér orðið á lítils háttar í sambandi við orðalag á brtt., því að orðið heitum kemur fyrir tvisvar í þessari mgr., og það er ekki tekið skýrt fram í brtt., í hvoru tilfellinu það sé, sem orðið „heitum“ á að breytast í „heilum“, en það er að sjálfsögðu, eins og menn átta sig á, í síðara tilfellinu, og þess vegna get ég vel dregið þessa brtt. til baka til 3. umr. og endurbætt hana fyrir þann tíma. En þessi breyt. var gerð samkv. ábendingu formanns þeirrar n., sem undirbjó þetta frv., og ég tel engum vafa undirorpið, að þarna í síðara skiptið hafi átt að standa „heilum máltíðum“. Hann benti n. sérstaklega á þetta, þegar hann kom á fund n. og fór yfir frv. með henni.

Varðandi 4. tölul. þessarar gr. kann það e.t.v. að vera álitamál, hvort sú starfsemi, sem talin er þar upp, heyri fremur undir veitingarekstur eða almenna verzlun. Eftir að n. afgreiddi frv, og nál. hafði verið samið, kom fulltrúi borgarstjórnarinnar í Reykjavík að máli við mig og benti á, að þetta atriði þyrfti frekari athugunar við, og óskaði eftir að koma sínum sjónarmiðum á frekara framfæri við n., og ég lofaði því, að það skyldi tekið til athugunar milli 2. og 3. umr. Og þá má að sjálfsögðu, úr því að n. þarf aftur að fjalla um þetta mál, athuga betur 17. gr. um matsölu á vinnustöðum og hvort ástæða sé til að breyta því ákvæði eitthvað eða slaka til á því.

Þá kem ég að ræðu hv. 4. þm. Vestf., sem mælti fyrir brtt. sinni á þskj. 478, varðandi breyt. við 4. gr. frv. Mér finnst rétt að vekja athygli á því, að skilyrði fyrir veitingu leyfa, bæði gistihúsaleyfa og veitingaleyfa, eru miklu fleiri en þau skilyrði, sem talin eru upp í 4. gr. Það mætti e.t.v. svo að orði komast, að í 4. gr. væru hin persónulegu skilyrði til þess að öðlast leyfi. En svo að maður taki t.d. gistihúsaleyfi, þá eru í 11. gr. fjölmörg skilyrði fyrir því að fá að reka gistihús, og á sama hátt eru í 15. gr. ýmis skilyrði fyrir því að reka veitingastað. Þessi skilyrði voru ekki í l, og eru ekki í l. frá 1926. Það þarf þess vegna nú að uppfylla miklu fleiri skilyrði til þess að fá leyfi. Og það var þess vegna áður, meðan skilyrðin voru fá, þá var í sjálfu sér miklu eðlilegra, að þetta væri að verulegu leyti lagt á mat sveitarstjórnar, hvort ástæða væri til þess, að umsækjandi fengi leyfi. Nú eru þau atriði, sem þarf að meta, miklu færri, vegna þess að það eru komin ákveðin skilyrði inn í þetta frv., sem ætlazt er til að verði að l. að sjálfsögðu. Þess vegna er miklu minni ástæða en áður til þess, að bæjarstjórn eða sveitarstjórn hafi alveg neitunarvald um það, ef maður uppfyllir öll þessi skilyrði, sem talin eru hér í 4. gr. og 11. gr. og 15. gr., — þó að hann uppfylli þetta allt saman, á sveitarstjórn samt sem áður að geta neitað honum um leyfið. Ég sé ekki, að það sé nein ástæða til þess frekar en t.d. segjum verzlunarleyfið, sem sveitarstjórn hefur ekki afskipti af.

Hv. þm. taldi, að þetta hefði gefizt vel, eða vissi ekki nein dæmi annars. Ég þekki persónulega ýmis dæmi, þar sem þessi heimild hefur gefizt illa, þó að ég ætli ekki að fara að gera þau tilfelli að umræðuefni hér, og mér virtist einmitt þessi hv. þm. benda á rök fyrir því, að bæjarstjórn gæti synjað, þar sem mér fannst, að raunverulega væri bæjarstjórn að misbeita valdi sínu, en það var, ef bæjarstjórn hefði styrkt einhvern til veitinga- eða gistihúsahalds, þá væri eðlilegt, að hún neitaði öðrum um leyfi, ef sá nýi leyfishafi gæti e.t.v. eyðilagt fjárhag þess manns, sem áður hafði fengið leyfi.

Ég tel, að hvorki í þessari atvinnugrein né annarri komi það til mála, að sveitarstjórnir beiti völdum sínum til þess að loka atvinnugreininni og bægja mönnum frá henni, eingöngu með tilliti til fjárhagsafkomu annarra. Ég tel, að bæjarstjórnir og sveitarstjórnir fái nægilegan íhlutunarrétt um leyfisveitingu með því, að það er skylda lögreglustjóra að leita álits sveitarstjórnar, áður en hann veitir leyfið, og að sveitarstjórnir geta áfrýjað leyfisveitingu eða leyfissynjun lögreglustjóra til ráðh. Og þennan rétt tel ég alveg fullnægjandi fyrir sveitarfélag til þess að gæta hagsmuna sinna í sambandi við þessi mál.