04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er 2. flm.brtt. á þskj. 478, og þó að hv. 1. flm., 4. þm. Vestf., hafi nú gert góða grein fyrir ástæðum, sem að baki brtt. liggja, þykir mér samt ástæða til að bæta nokkrum orðum við, sérstaklega eftir seinni ræðu hv. 9. landsk., af því að mér virðist, að hann muni vera lítt kunnugur þessum málum og ekki lífsreyndur í þeim í samanburði við mig. En till. tek ég þátt í að flytja vegna persónulegrar reynslu í þessum málum.

Það er svo, að á öllum þéttbýlum stöðum þurfa að vera veitingasala og gististaður. Margir þessir staðir eru svo smáir, að þetta tvennt fer bezt saman og fullnægir saman. Og þannig er ástatt víða, að það gengur illa að láta þá starfsemi bera sig, ekki sízt árlangt, og þá vill um leið verða misbrestur á því, að þessi rekstur sé með þeim menningarbrag, sem æskilegur er.

Kröfur eru gerðar til þess á þessum stöðum, að sveitarstjórnirnar hlutist til um, að þessi þjónusta sé fyrir hendi, hana vanti ekki og hún sé viðunandi. Víða hefur það gerzt, að sveitarstjórnir hafa orðið að beita sér fyrir að fá menn til að gerast veitingamenn og reka gistihús í sveitarfélaginu. Jafnframt hefur orðið að leggja fram fé úr sveitarsjóði til styrktar rekstrinum, taka á sveitarfélagið ábyrgðir eða veita lán til að bæta húsakost vegna rekstrarins. Þetta hefur orðið sveitarfélagsmál. En þó að svona standi sakir, er alltaf að koma fram fólk, sem vill gjarnan um stundarsakir hafa veitingasölu, t.d. um hásumarið, meðan mest er gestakoman, mest af ferðamönnum, eða á kvöldin til að drýgja tekjur sínar. Veitingasölur, sem enga heildarþjónustu veita fyrir staði, en eru reknar sem aukastörf á þeim tíma, sem líklegt er að þær geti gefið arð, svarað kostnaði, eru sjaldan æskilegar. Slíkar sölur leysa ekki heildarvandann, þvert á móti auka þær hann oft og tíðum, af því að svona takmörkuð og tímabundin starfsemi dregur frá þeim, sem veitir þjónustuna allt árið, og torveldar það, að nokkur vilji taka þann rekstur að sér fyrir byggðina. Það eykur vanda þessa máls sem sveitarfélagsmáls, byggðarmáls.

Ég þekki ákaflega vel kröfur þær, sem gerðar eru til sveitarstjórna í þessum efnum, og erfiðleika þá, er þær eiga við að fást til að koma á samfelldri þjónustu árlangt í þessum efnum. Í minni heimabyggð gerðist það t.d., þegar ég var þar oddviti og þessi mál hvíldu á mér að töluverðu leyti sem framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, að rekið var þar gistihús að sumrinu, myndarlega rekið, ágætt gistihús. En því var lokað, hvernig sem á því stóð, þegar haustaði. Og ég get sagt frá því til sönnunar því, hvernig viðhorfið er í þessum málum, að eitt sinn, þegar nýlega var búið að loka þessu húsi, þá vakti upp heima hjá mér maður úr Reykjavík, kaupsýslumaður, og sagði mér, að hann hefði leitað gistingar eins og venjulega hjá sumargistihúsinu. Nú var búið að loka því, og veitingamaðurinn, sem það rak, veitingamaður sumargistihússins, sagði manninum, að hann skyldi fara til oddvitans, hann ætti að sjá um það, að gestir gætu fengið gistingu hér í þorpinu. — Það stóð þannig á hjá mér, að ég gat lofað þessum manni að vera. Ég held, að hann hafi ekki farið ósáttur við staðinn. En samt sem áður var þetta nú svona, og svona er þetta.

Ég er á því, að hv. 9. landsk. þm. þekki ekki nógu vel gang þessara mála, þegar hann vill nú breyta þessu 37 ára gamla ákvæði um íhlutunarrétt eða nokkurs konar neitunarvald sveitarstjórnanna í þessu sambandi. Hann segir, að sveitarstjórnirnar geti haft nægileg áhrif með umsögnum sínum. Þar við bætist svo, að þær geti kært til ráðh. Í þriðja lagi nefnir hann svo þá aðstöðu, sem sveitarstjórnir hafa við lóðaveitingar og byggingarleyfisveitingar. Allt eru þetta of linar ástæður. Það er fjarstæðulegt að leggja þá fyrirhöfn á sveitarstjórn, sem ber hita og þunga í þessum málum, að þurfa að kæra eða leita úrskurðar, eiginlega kæra fyrir ráðh. Það er oft og einatt, að það snertir ekkert lóðir né byggingarleyfi, þegar sótt er um veitingasölu. Það er ekki alltaf verið að byggja í því sambandi.

Nei, sannleikurinn er þetta. Lögreglustjórinn er ekki sá aðilinn, sem vandinn hvílir á í þessum efnum og ábyrgðin. Sumarveitingamaðurinn visaði ekki gestinum á Húsavík til lögreglustjórans, og átti hann þó heima þar. Það sannar mál mitt. Þar að auki er það svo, að það eru ekki allir þessir smá-þéttbýlisstaðir þannig settir, að lögreglustjóri hafi þar heimili; sýslumaðurinn situr ekki nema á einum stað, en það getur verið, að hann sé á öðrum héraðsenda. Og lögreglustjóri er ekki í hverju þéttbýlisplássi. En það getur verið, að þegar menn sækja um veitingaleyfi, þar sem lögreglustjórinn á ekki heima, sýnist honum sanngjarnt það, sem er til óhagræðis, og undir öllum kringumstæðum er hann ekki eins kunnugur þessum málum og sveitarstjórnin og ber ekki þungann af þeim á sama hátt. Löggjöfin á að vera þannig, að hann gangi frá leyfisveitingunni sem embættismaður, en hins vegar á það að vera sveitarstjórnin, sem hefur mest um það að segja, hvort leyfið á að veita, því að hún kann bezt að meta það, hvort eðlilegt er að veita þetta leyfi, hvort þetta er heppileg þjónusta, sem þarna er verið að sækja um að veita, og hvort hún er ekki til óhagræðis fyrir byggðina.

Ég vænti þess þess vegna, að hv. deild geti fallizt á það að samþykkja brtt., og enn fremur vil ég vænta þess, að hv. 9. landsk. endurskoði afstöðu sína, því að ég veit, að hann vilt ekki gera neinni sveitarstjórn eða neinu byggðarlagi óleik með því að breyta þessum ákvæðum, en til þess gæti það hreint og beint leitt.