08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

89. mál, veitingasala, gististaðahald o.fl.

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í tilefni af umr., sem spunnust um þetta frv. við 2. umr. málsins, hefur samgmn. tekið málið til athugunar á ný, og við þá athugun hefur verið haft samráð við form. n., sem samdi þetta frv., enn fremur var rætt við borgarlækni, sem átti líka sæti í n., sem undirbjó frv., og einnig við fulltrúa frá borgaryfirvöldum Reykavíkur.

Þessar athuganir og umr. leiddu til þess, að n. sá ástæðu til að gera frekari brtt. við frv. en fram komu við 2. umr. málsins, og liggja þessar brtt. hér fyrir á þskj. 569.

Fyrsta brtt, á þessu málsskjali er varðandi 1. gr. Ég tek fyrst a-liðinn, en í þessum a-lið segir, að málsliðurinn: „Söluskýli: Staður, þar sem seldir eru gosdrykkir, öl og sælgæti og salan er ekki háð reglum um lokunartíma og annað“ — að þessi málsl, í 1. gr. frv. skuli falla niður. Þessi málsl., sem ég hef vitnað til, er í nánum tengslum við 4. tölul. 15. gr. frv., en sá tölul. var nokkuð umræddur við 2. umr. málsins, en hann hljóðar á þá leið, að leyfi fyrir söluskýli veiti rétt til sölu á gosdrykkjum, öli, sælgæti og tóbaksvörum, en þetta söluskýli átti að vera einn þáttur veitingastarfseminnar, sem sérstakt leyfi þyrfti til.

Það kom fram við 3. umr., að hér kynni það að vera á döfinni, að verið væri að veita hinum svokölluðu sjoppum nokkra lögvernd og löghelga þær sem veitingastarfsemi, í stað þess að borgaryfirvöld hafa talið, að hér væri miklu frekar um verzlunarstarfsemi að ræða.

N. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að taka þessi sjónarmið til greina, einnig með hliðsjón af því, að skilsmunurinn á veitingasölu og söluskýli er ekki svo mikill, að það sé sérstök ástæða til þess að hafa þetta hugtak „söluskýli“ um sérstaka veitingastarfsemi. Þess vegna lagði n. til, að þetta hugtak söluskýli yrði alveg máð út úr frv., og það kemur fyrir bæði í 1. gr. og í 4, tölul. 15, gr. og enn fremur í 22, gr., og um þetta fjallar a-liður 1. brtt. og enn fremur 2. brtt. á þskj. 569, — þar segir, að 4, tölul. 15. gr. 1. mgr. skuli falla niður, — og enn fremur 4, brtt., þar sem orðið söluskýlisleyfi í 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. er fellt niður.

B-liður fyrstu brtt. fjallar um orðið „heilar“ í 1. gr. frv., sem hljóðar þannig: „Veitingastofa: Veitingastaður, þar sem seldir eru heitir og kaldir drykkir, brauð og kökur, en ekki heilar máltíðir.“ Þetta orð eða hugtak, „heilar máltíðir“, bar nokkuð hér á góma við 2. umr. málsins, og þá var það í sambandi við 3. tölul. 15. gr. frv., þar sem segir, að veitingastofa veiti rétt til sölu á heitum og köldum réttum, brauði og kökum, en ekki á heitum máltíðum. N. hafði lagt til við 2, umr. málsins, að orðin „heitar máltíðir“ í þessum 3. tölul. breyttust og yrðu „heilar máltíðir“, þannig að þar væri samræmi á milli 15. gr. og 1. gr., og sú brtt. var gerð eftir sérstakri ábendingu form. n., sem samdi þetta frv. Við þá athugun, sem fór fram milli 2. umr. og 3. umr., var þetta mál, þó að það sé kannske ekki merkilegt, kannað til hlítar, leituð uppi handrit af frv. og annað slíkt, til þess að finna út, hvort orðið ætti að vera, þ.e.a.s. í 15. og 1. gr., hvort það ætti að vera „heitum“ eða „heilum“, því að að sjálfsögðu á sama orðið að vera á báðum stöðunum, en á öðrum staðnum er notað „hellum máltíðum“, en hinum staðnum „heitum“. Og niðurstaðan af öllum þessum rökræðum varð sú, að í stað þess að breyta „heitum“ í „heilum“ í 15. gr., eins og nefndin ætlaði sér að gera við 2. umr., en dró þá brtt, til baka, þá væri skynsamlegra að fara að þessu á annan veg og breyta „heilum“ í 1. gr. í „heitum. Að vísu voru menn sammála um það, að í öllum höfuðatriðum meinti þetta það sama, en í vissum markatilfellum væri betra að nota orðið „heitum“ máltíðum heldur en „heilum“, þó að vísu með þeim fyrirvara og með þeim skilningi, að með „heitum máltíðum“ er ekki átt við einstaka heita rétti, eins og t.d. hamborgara eða heitar pylsur.

Þá kom fram við 2. umr. málsins ábending varðandi 17. gr. frv. um matstofur á vinnustöðum, þar sem bent var á, að það kynnu ef til vill að vera gerðar of strangar kröfur til matstofa á vinnustöðum, þar sem þær skyldu uppfylla sömu kröfur skv. gr. um hreinlæti og vinnuaðstöðu og gerðar væru til veitingahúsa af svipaðri stærð. Borgarlæknir sagði að vísu, að ekki hefði verið meiningin þrátt fyrir þetta ákvæði að leggja þarna alveg á sama mat, því að vitanlega hlytu matstofur vinnustöðva, þar sem venjulega væri ekki framleidd nema ein máltíð yfir daginn og tvisvar sinnum kaffi, það væri ekki hægt að líta á það sömu augum og veitingahús, þar sem væri opið lengur og veittir fjölbreyttari réttir, þannig að þegar þetta væri metið, þá yrði alltaf að taka tillít til þessa munar. En hins vegar féllst hann á, að þetta væri ef til vill of fortakslaust, að nota þetta orðalag um vinnuaðstöðuna. Það yrði þó að sjálfsögðu að gera sömu hreinlætiskröfur, en til þess að gefa til kynna, að kröfurnar um vinnuaðstöðu þyrftu ekki að vera eins strangar á matstofum á vinnustöðum og hjá veitingastofum, þá var það niðurstaðan að breyta orðalaginu og í stað orðanna „og vinnuaðstöðu“ kæmi: „og eftir atvikum vinnuaðstöðu,“ og um það fjallar 3. brtt. á þskj. 569.

Ég held þá, að ég hafi gert grein fyrir öllum þeim brtt., sem n. leggur til að gerðar verði á frv.