13.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

206. mál, tónlistarskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í frv. þessu er í fyrsta sinn gert ráð fyrir því, að lagaákvæði séu sett um fjárhagsstuðning ríkisins víð íslenzka tónlistarskóla. Tónlistarskólar þeir, sem nú starfa í landinu, eru allir einkaskólar, en hafa notið fjárhagsstuðnings bæði ríkis og þeirra sveitarfélaga, þar sem þeir starfa. Þessi fjárhagsstuðningur hefur þó reynzt ónógur og staðið rekstri skólanna nokkuð fyrir þrifum, en aðsókn að ýmsum skólanna, einkum hinum stærstu, þ.e. tónlistarskólunum í Reykjavík, á Akureyri og í Hafnarfirði, hefur mjög farið vaxandi. Má hiklaust fullyrða, að tónlistarskólarnir gegni mjög mikilvægu hlutverki í íslenzkum skólamálum og í íslenzku tónlistarlífi.

Í byrjun október s.1. boðaði menntmrn. skólastjóra allra tónlistarskólanna til fundar í Reykjavík til þess að ræða fjármál skólanna og skipulag. Er þetta frv. samið í samræmi við niðurstöður og ályktanir þess fundar, en höfundar frv. eru þeir Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, Jón Nordal skólastjóri og Magnús Jónsson alþm. Engin ósk kom fram um það á skólastjórafundinum, að ríki eða sveitarfélög, annar hvor aðilinn eða þeir báðir í sameiningu, tækju að sér rekstur tónlistarskólanna. Allir skólastjórarnir voru á einu máli um, að æskilegra væri, að þeir yrðu áfram einkaskólar, en að stuðningur ríkisins og sveitarfélaga við þá yrði aukinn og þó einkum að föstu skipulagi væri komið á þennan fjárhagsstuðning.

Í samræmi við þetta er í 1. gr. frv, ákvæði um, hvaða skilyrði tónlistarskólar skuli fullnægja til þess að geta notið ríkisstyrks. Í 2. gr. er síðan sagt, að þeir skólar, sem fullnægja skilyrðum 1, gr., skuli fá allt að 1/3 hluta rekstrarkostnaðar síns greiddan úr ríkíssjóði, en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags til skólans. Má gera ráð fyrir, að afleiðing þessa frv., ef samþ. verður, yrði sú, að íslenzkir tónlistarskólar, sem fullnægja skilyrðum laganna, fái yfirleitt 2/8 hluta rekstrarkostnaðar síns greidda af opinberu fé, helminginn frá ríkinu og helminginn frá hlutaðeigandi sveitarfélagi. Er gert ráð fyrir því, að menntmrn. geri í sambandi við undirbúning fjárl. till. um fjárveitingu til hvers skóla um sig með hliðsjón af starfsemi og fjárhagsafkomu skólans á undangengnu starfsári.

Þá er gert ráð fyrir því í 6. gr., að veita skuli tónlistarskóla styrk til hljóðfærakaupa í fjárl. og menntmrn. skipti styrknum með hliðsjón af þörfum skólanna. Styrkurinn má þó aldrei nema hærri upphæð en 1/3 hluta af andvirði hljóðfærisins.

Heimilað er einnig að veita styrki til tónlistarkennslu á stöðum, sem ekki fullnægja skilyrðum 1. gr. um tónlistarskóla. Slíkar umsóknir skulu sendar menntmrn. eigi síðar en 15. júní ár hvert ásamt nákvæmri skýrslu um kennslu s.l. vetur og kostnað víð hana, svo og starfs- og kostnaðaráætlun fyrir næsta ár. Ef ástæða þykir til styrkveitinga, er gert ráð fyrir, að menntmrn, geri till. um fjárlagastyrk til slíkrar tónlistarkennslu með hliðsjón af því, hversu fullkomna og fjölþætta fræðslu er um að ræða.

Í framhaldi af skólastjórafundinum á s.l. hausti var þeim Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra, Jóni Nordal skólastjóra og Magnúsi Jónssyni alþm, falið að gera till. um styrkveitingar til tónlistarskóla í sambandi við samningu fjárl. fyrir árið 1963. En það var sýnilegt, að ekki mundi takast að ljúka samningu frv. um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskólana, áður en afgreiða þyrfti fjárlfrv.

Í núgildandi fjárl. er farið eftir þeim till., sem þeir þremenningarnir gerðu. Á yfirstandandi ári eru framlög til tónlistarskóla í fjárl. að upphæð 889264 kr. auk 200 þús. kr. fjárveitingar til hljóðfærakaupa o.fl. Árið áður hafði ríkisstyrkur til tónlistarskólanna numið 550 þús. kr., og tætur því nærri, að fjárstyrkur ríkisins til tónlistarskólanna hafi verið tvöfaldaður á þessu ári. Ef þetta frv. verður að lögum, má gera ráð fyrir, að ríkisstyrkur til tónlistarskólanna aukist enn um rúmar 300 þús. kr. og verði rúmlega 1,2 millj. kr. á næsta ári auk fjárveitingar til hljóðfærakaupa. Á næsta ári mun ríkisstyrkurinn því verða næstum því þreföld sú upphæð, sem hann nam í fyrra, auk þess sem hann mun fara eftir föstum reglum. Er hér tvímælalaust um mikið framfaraspor að ræða, sem mun verða íslenzkum tónlistarskólum til stóraukins stuðnings og íslenzku tónlistarlífi þar með til mikillar eflingar.

Í þessu sambandi er ástæða til að fara nokkrum orðum um þá sérstöðu, sem tónlistarskólinn í Reykjavík hefur meðal íslenzkra tónlistarskóla. Hann er ekki að öllu leyti einkaskóli, þar sem við hann starfar kennaradeild, sem hefur það hlutverk að sérmennta og útskrifa tónlistarkennara til starfa við barna-, unglinga- og framhaldsskóla. Var þessari deild komið á fót með reglugerð, sem gefin var út af menntmrn. 1. júní 1959 um kennaramenntun í söng og tónlist. Kennaraskólinn hefur áfram með höndum kennslu, sem veitir réttindi til söngkennslu í skólum skyldunámsins, nema i skólum, sem hafa sérkennara í söng. Tónlistarskólinn starfrækir hins vegar deild til að sérmennta og útskrifa tónlistarkennara til starfa við barna-, unglinga- og framhaldsskóla, og hafa tónlistarkennarar úr kennaradeild tónlistarskólans forgang til kennslu í þeim skólum, sem hafa sérkennara í söng. Er samstarf með tónlistarskólanum og kennaraskólanum um menntun söng- og tónlistarkennaranna. Skortur á slíkum kennurum hefur staðið kennslu í þessum greinum nokkuð fyrir þrifum undanfarið. Í námsskrá, sem menntmrn. gaf út 16. sept. 1960 fyrir skyldufræðslustigið, eru allýtarleg ákvæði um söng- og tónlistarkennslu. Án fjölgunar söng- og tónlistarkennara og bættrar menntunar þeirra væri ekki unnt að framfylgja ákvæðunum í hinni nýju námsskrá um söng- og tónlistarfræðslu. En kennaradeild tónlistarskólans hefur þegar útskrifað allmarga tónlistarkennara, og er aðsókn að deildinni góð. Þeir kennarar, sem starfa við kennaradeild tónlistarskólans, eru opinberir starfsmenn og sömuleiðis skólastjóri tónlistarskólans, sem jafnframt er skólastjóri kennaradeildarinnar. Að öðru leyti annast kennarar tónlistarskólans kennslu í kennaradeildinni, auk þess sem nemendurnir stunda nám í kennaraskólanum.

Hinn 27. maí 1960 samþ. Alþingi svofellda þáltill. frá Magnúsi Jónssyni, Benedikt Gröndal og Kjartani J. Jóhannssyni, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um tónlistarfræðslu, þar sem m.a. séu sett skýr ákvæði um aðild ríkisins að þessari fræðslu, hluta ríkissjóðs í greiðslu kostnaðar við tónlistarskóla og hvaða skilyrði skólar þessir þurfi að uppfylla til þess að njóta ríkisstyrks.“

Í þessu frv. eru ákvæði um öll þau atriði, sem nefnd eru í þessari þáltill.

Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða. Ef frv. þetta nær fram að ganga, má segja, að traustum stoðum sé rennt undir starfsemi íslenzkra tónlistarskóla og þeir eigi að geta dafnað vel á komandi árum íslenzkri æsku og íslenzku tónlistarlífi til gagns og örvunar. Ég vona, að samstaða takist um, að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.