08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

206. mál, tónlistarskólar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. þd. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir. Eins og fram kemur í nál., mælir n. með, að frv. verði samþykkt, en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Einn nm., hv. 5. þm. Reykn., var fjarstaddur, þegar málið var afgr. i nefndinni.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni frv. við þessa umr. Þegar það var til I. umr. hér í þessari hv. þd., fylgdi hæstv. menntmrh. því úr hlaði með allýtarlegri ræðu, og hef ég ekki neinu við það að bæta.

Ég sé, að einn nm., hv. 5. þm. Austf., flytur á þskj. 579 brtt. við frv., og ég ætla, að þær séu alveg shlj. brtt., sem einn ílokksbróðir hans flutti í Nd., þegar frv. var þar til umr. Ég vil annars víkja nokkrum orðum að þessum brtt. hv. þm.

Fyrri brtt. hans er við 2. gr. frv., og er efni hennar það, að framlag ríkissjóðs skuli vera allt að helmingi rekstrarkostnaðar við skólana og ekki lægra en 1/3 af rekstrarkostnaðinum. En í frv. er gert ráð fyrir, að framlag ríkisins geti orðið allt að 1/3 af rekstrarkostnaði. Í brtt., eins og reyndar einnig í frv., er gert ráð fyrir, að framlag ríkisins nemi þó ekki hærri upphæð en framlag hlutaðeigandi sveitarfélags til þess skóla, sem í hlut á.

Eins og fram kemur í grg. við frv., var við undirbúning þess haft samráð við skólastjóra tónlistarskólanna, og þeir munu yfirleitt og að ég held allir hafa lýst ánægju sinni með þá skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, og talið það vera til stórra bóta og að manni skilst viðunandi, einnig varðandi þátttöku ríkissjóðs í rekstrarkostnaðinum. Því hefur ekki verið hreyft, að tónlistarskólarnir ættu að vera reknir af ríkinu, en ef ríki og sveitarfélög ættu saman að greiða allan rekstrarkostnað, sýndist það þó óneitanlega eðlilegast, að þessir aðilar rækju þá skólana sameiginlega. En samkv. frv. er gert ráð fyrir, að þeir haldi áfram að vera einkaskólar, og ég býst við, að það mundi mörgum líka þykja sú tilhögun, að skólarnir yrðu reknir af ríki og sveitarfélagi, siður en svo æskileg, enda þá ekki víst, að þess mikla stuðnings, sem tónlistarskólarnir hafa haft af samtökum áhugamanna um tónlist og tónmennt, gætti í jafnríkum og heillavænlegum mæli og nú er. Ég á þar ekki við þann fjárhagslega stuðning, sem þau samtök, sem komið hafa skólunum á fót á hinum ýmsu stöðum landsins, hafa veitt skólunum, miklu frekar þann stuðning, sem skólarnir hafa haft af ötulum áhuga og ég vil segja áróðri þessa fólks fyrir aukinni tónlistarfræðslu og tónmennt. Í frv. er ekki gert ráð fyrir afskiptum ríkisvaldsins af skólunum umfram það, sem nauðsynlegt er til þess að koma úthlutun eða skiptingu á ríkisframlaginu í fast horf.

Á fjárlögum fyrir árið 1962 var fjárveiting til tónlistarskólanna, að ég ætla, 550 þús. kr. Í fjárl. fyrir yfirstandandi ár er fjárveitingin hækkuð í nærri 900 þús. kr., og auk þess er 200 þús. kr. fjárveiting til að styrkja félögin til hljóðfærakaupa. Það lætur því nærri, að framlag á fjárlögum hafi tvöfaldazt frá því, sem það var í fyrra. Verði frv. að lögum, er áætlað, — ég ætla, að það komi hér fram í grg., — að þetta framlag muni hækka upp í 1200 þús., og auk þess verður að sjálfsögðu veitt áfram ekki lægri upphæð en nú er til hljóðfærakaupa, eða 200 þús. Þetta verður þá samtals ekki minna en 1400 þús., og er þá ekki langt frá því, að á næsta ári, árinu 1964, muni, ef frv. verður að lögum, hafa þrefaldazt fjárveiting til tónlistarskólanna frá því, sem var árið 1962.

Það virðist augljóst, að svo stórkostleg hækkun á ríkisframlaginu ætti að gefa mikla möguleika til þess að stilla skólagjöldum nemenda svo í hóf, að þau verði viðráðanleg. En ég ætla, að fyrir flm., hv. 5. þm. Austf., vaki það að létta af nemendum greiðslu skólagjalda, svo sem einnig mun hafa vakað fyrir flokksbróður hans, sem flutti shlj. brtt. við frv. í Nd. Við verðum auðvitað að horfast í augu við það, að tónlistarkennsla er ávallt býsna kostnaðarsöm. Sú kennsla getur ekki nema að sáralitlu leyti farið fram í hóptímum, en fer að langsamlega mestu leyti fram þannig, að kennari kennir einum nemanda í einu. Ég hef verið að spyrjast fyrir um það, hvernig muni vera annars staðar í okkar nágrannalöndum með tónlistarskóla eða skóla, sem veita kennslu og tilsögn í tónlist, og ég skal að vísu játa það, að ég hef ekki fengið ýtarleg svör frá þeim, sem ég hef verið að spyrja um þetta. En þeir, sem ég hef spurt og ég hef haft ástæðu til þess að ætla að mundu þekkja eitthvað til slíks í okkar nágrannalöndum, hafa tjáð mér, að þeir vissu ekki til þess, að slíkir skólar væru reknir án þess, að nemendur væru látnir greiða einhver skólagjöld.

Það liggur sem sé ljóst fyrir, að ef frv. verður samþ. í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir, þá verða stórkostlega aukin framlög ríkisins og væntanlega þá um leið framlög sveitarfélaganna til tónlistarskólanna, og er því enginn vafi á því, að þeim mun verða mjög mikill fengur að þeirri löggjöf, sem í frv. felst, og af framansögðu verður ekki fallizt á 1. brtt. hv. þm.

Síðari brtt. er um það, að menntmrn. skuli hafa samband við skólastjórana, er áætla skal styrktarupphæð til hvers skóla um sig. Ég sé, að í umr. um málið í Nd. upplýsti, að mig minnir, hæstv. menntmrh., að það hefði að sjálfsögðu alltaf verið ætlunin að hafa samráð við skólastjórana í þessu sambandi, og sýnist því ekki vera ástæða til þess að taka það ákvæði inn í frv., enda hlaut samhljóða brtt. ekki samþykki hv. Nd.