11.02.1963
Efri deild: 39. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á árinu 1961 voru sett lög um ríkisábyrgðir, og á árinu 1962 voru sett lög um ríkisábyrgðasjóð. Þessi lög tvenn eru þegar farin að hafa veruleg áhrif, en eins og kunnugt er, var ríkisábyrgðamálum í rauninni komið í óefni, og þurfti þar gagngerðra endurbóta við. Ástæðurnar til breytinganna eru ýmsar, Í fyrsta lagi er þegar farið að gæta mjög þeirrar breyt., að aðalreglan er sú nú, að ekki er veitt sjálfskuldarábyrgð, heldur einföld ábyrgð, þegar ríkið tekur á sig ábyrgð einhverra lána. Þetta felur í sér þá gerbreytingu, að í stað þess, að með sjálfskuldarábyrgðinni gat lánveitandi, ef vanskil urðu, gengið beint að ríkissjóði og krafið hann um greiðslu án þess að gera tilraun til að krefja sjálfan skuldarann. Með hinni nýju aðferð hinnar einföldu ábyrgðar er nauðsynlegt fyrir lánveitanda eða kröfuhafa að reyna fyrst til þrautar innheimtu hjá skuldara. Síðan ríkisábyrgðalögin tóku gildi hafa því, nema sérstakar heimildir hafi verið til annars, verið veittar einfaldar ábyrgðir í staðinn fyrir sjálfskuldarábyrgðir, og ætla ég, að varðandi þau lán hafi ekki enn komið til þess, að ríkissjóður hafi þurft að greiða vegna vanskila. Hitt er svo augljóst mál, að enn eru í gildi og verða um nokkurra ára skeið margar sjálfskuldarábyrgðir, þar sem kröfuhafinn hefur heimild til að snúa sér beint að ríkissjóði og krefja hann greiðslu án þess að ganga úr skugga um vilja eða getu skuldarans til greiðslu. Þessi breyting, sem ég nú nefndi, er þegar farin að segja til sín, en að fullu gagni verður hún að sjálfsögðu ekki orðin fyrr en eftir nokkur ár.

Í öðru lagi er nú orðið meira aðhald varðandi veitingu ríkisábyrgða. Fjmrn. hefur samið við Seðlabanka Íslands, að hann taki að sér umsjá ríkisábyrgðasjóðs og enn fremur það eftirlít og þann undirbúning, sem ríkisábyrgðalögin gera ráð fyrir. Þegar einhver aðili biður um ríkisábyrgð, lætur Seðlabankinn kanna, hvort rök séu til þess að veita slíka ríkisábyrgð, hverjar tryggingar þurfi að setja. Og þegar ríkisábyrgð hefur verið veitt, þá er það hans verkefni að fylgjast með aðila og reyna í tæka tíð að gera ráðstafanir til þess, að til þess komi ekki, að ábyrgð falli á ríkissjóð.

Það hefur að undanförnu verið gengið í það af hálfu ríkisábyrgðasjóðsins að fá ákveðna samninga og undirrituð skuldabréf til tiltekinna ára og með tilteknum vöxtum um greiðslu hinna eldri vanskila, og má segja, að í öllum meginatriðum séu nú þessi mál að komast í fast form.

Ég tel engan vafa á því, að þessar breyt., þessar umbætur, sem gert er ráð fyrir með l. um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóð, muni hafa mikil áhrif til þess að forða ríkissjóði frá áföllum, án þess þó að draga úr þeirri nauðsynlegu fyrirgreiðslu, sem veita þarf með ríkisábyrgðum oft og einatt til bæði sveitarfélaga og ýmissa aðila, sem vilja koma nauðsynlegum og nytsömum framkvæmdum áfram. Það, sem þetta frv. fer fram á, er, að ríkisstj. sé heimilt fyrir hönd ríkisábyrgðasjóðs að taka allt að 50 millj. kr. innlent lán handa sjóðnum. Það er ljóst, að á s.l. ári og væntanlega á þessu ári geti fjárþarfir ríkisábyrgðasjóðs orðið nokkru meiri en fjárlög gera ráð fyrir, og má þó segja, að mjög sé það í óvissu enn þá, hversu tekst með það hvort tveggja, annars vegar að koma i veg fyrir, að greiðslur falli á ríkissjóð á næstunni, og hins vegar, hversu gengur að innheimta hjá skuldurum það, sem þegar er á fallið. En meðan ríkisábyrgðasjóður er að komast yfir örðugasta hjallann í þessu efni, er nauðsynlegt, að hann fái nokkurt lán í þessu skyni, og fer þetta frv. fram á, að skýlaus heimild sé til þess veitt. Hins vegar benda allar líkur til þess, að áður en langt um liður, þá muni þessi mál taka verulegum stakkaskiptum og þau fjárframlög, sem ríkissjóður þarf að inna af hendi, eða nauðsyn á lántökum í þessu skyni verði miklu minni en nú er.

Ég vænti þess, að þetta atriði, að veita ríkisábyrgðasjóðnum formlega heimild til nokkurrar lántöku í bili, þurfi ekki að valda neinum ágreiningi hér á Alþingi.

Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.