22.03.1963
Efri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. fjhn. með fyrirvara. Ég tel við eiga að gera með nokkrum orðum grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði undir með fyrirvara. Astæðan er sú, að ég tel ekki, að fram hafi komið, svo sem vera ætti, ýtarlegur rökstuðningur fyrir því, að sú 50 millj, kr. heimild, sem ríkisstj. biður um með frv. þessu til lántöku handa ríkisábyrgðasjóði, sé nauðsynleg eða eðlileg í alla staði. Í grg. frv. eru alls ekki færðar sönnur á lántökuþörf sjóðsins. Þar segir að vísu, að allar líkur bendi til, að ríkisábyrgðasjóður þurfi á talsverðu fé að halda á næstunni, en enginn reikningur fylgir fyrir liðið ár eða töluleg áætlun um þetta ár eða næstu ár, aðeins að líkur bendi til þessarar þarfar.

Við hv. 5. þm. Norðurl. e. báðum þess vegna um tölulegar upplýsingar í fjhn. um hag og horfur þessa útibús ríkissjóðs, sem ríkisábyrgðasjóðurinn er. Hann er útibú frá ríkissjóði. Hv. form. n. tók vel undir þessa málaleitun okkar, eins og hans var von og vísa, og fór á stúfana til að útvega upplýsingarnar, og eftir tæpar 5 vikur kom svo form. með skrá yfir, hv að greitt hefur verið 1962 vegna ríkisábyrgða og hvað upp í þetta hefur komið inn í sjóðinn. Skrá þessi er gefin út af ríkisbókhaldinu, svo að ekki virðist reikningshaldið hafa komizt til banka á því ári, þó að gert væri ráð fyrir því við setningu l. um ríkisábyrgðasjóð, að hann yrði rekinn í banka. Og þótti það góð ráðstöfun af heilbrigðisástæðum þessara mála.

Samkv. skránni eru greiddar ábyrgðir árið 1962 rúmlega 113 millj. kr., en innborganir frá lántakendum þar upp í rúmlega 5 millj., eða 108 millj. munur. Upp í þann mun kemur ríkisábyrgðagjald frá nýjum lántakendum, eins og sjóðurinn á að taka, 1 millj. 755 þús., og svo verðhækkunartekjur vegna gengisfellingarinnar góðu 1961 23 millj. 665 þús. kr., og svo er fjárveitingin samkv. fjárl. 1962 38 millj. kr. úr ríkissjóðnum. Munurinn í sjóðnum, mismunurinn, er því 44 millj. og 698 þús., þ.e. halli.

Margt er vitanlega í þessari skrá forvitnilegt. Þar eru fyrirtæki með margra millj. kr. ábyrgðaráföll, en ég skal ekki fara mörgum orðum um þá hliðina, mér þykir ekki viðeigandi að tala þar um einstaka aðila, hvorki einstaka menn né fyrirtæki. Ég tel óviðeigandi að gera þau þannig að umræðuefni.

Hins vegar vildi ég leyfa mér að spyrja um tvær upphæðir, sem ekki ætti að vera neitt óþægilegt persónulega fyrir nokkurn, þótt spurt sé um. Og þá er fyrri spurningin: Hvaða Marshall-lán er það, sem ríkisábyrgðasjóður hefur greitt með rúml. 5 millj.? Það er fyrri spurningin. Og svo: Hvers konar lán eru það, sem hafa fallið á ríkisábyrgðasjóð fyrir raforkusjóð, nálega 30 millj. samtals?

Mér er spurn: Er verið að fara fram hjá ríkissjóði í bili með áföll af þessum fjárhæðum, fresta því, sem fram á að koma? Eða er það beint samkv. hlutverki sjóðsins, eins og l. hljóða, að greiða þessar upphæðir? Eru þær þess eðlis?

Ég gat þess áðan, að yfirlit um út- og innborganir ríkisábyrgðasjóðs 1962 hefði sýnt rúml. 44 millj. kr. halla fyrir árið 1962, og nú vil ég leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Hvar voru þessar 44 millj. fengnar að láni handa sjóðnum? Einhvers staðar standa þær sem skuld sjóðsins. Voru þær skuld við ríkissjóðinn, og á lánsheimildarupphæðin, sem beðið er um, að verða til þess, að hægt sé að kvitta þessa skuld? Um þetta var spurt í fjhn., en þar fengust ekki svör. En fulltrúar ríkisstj. töldu, að réttara væri þá að spyrja um þetta undir umr. heldur en fara að tefja afgreiðslu n. með annarri sendiferð, sem mátti hugsa sér að gæti tekið nokkurn tíma.

3. gr. l. um ríkisábyrgðasjóð er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjur ríkisábyrgðasjóðs eru:

1. Áhættugjald fyrir ríkisábyrgðir samkv. 4. gr. l. nr. 37 29. marz 1961, um ríkisábyrgðir, það er goldið verður eftir gildistöku l. þessara.

2. Fé það, sem endurgreiðist samkv. kröfum þeim, sem greinir i 3. tölul. 2. gr., svo og fé, sem greiðist upp í kröfur ríkisábyrgðasjóðs samkv. 2. mgr. 4, gr.

3. Framlög, sem ákveðin verða í fjárlögum hverju sinni, eftir því sem sjóðurinn þarf á að halda“.

Svo er tekið fram í 4. gr., að sjóðurinn taki að sér áfallnar ábyrgðir allt frá 1. jan. 1961.

Sem sagt, það á að byggja hann upp, skilst mér, fyrir þennan tíma aftur til 1. jan. 1961. Það eru því tvö ár, sem hér er um að ræða fyrir sjóðinn. Og upplýsingar lágu fyrir í n., að því er snertir seinna árið, 1962.

Ljóst er af þeirri gr., 3. gr., sem ég las upp áðan úr l. sjóðsins, að gert er ráð fyrir, að á fjárl. hverju sinni sé sjóðnum ætlað það fé, sem þarf til að jafna halla hans. Á árinu 1961 voru á fjárl. ætlaðar 38 millj. til þess að mæta ríkisábyrgðatöpum, árið 1962 jafnhá upphæð, og enn 1963 er jafnhá fjárhæð. Fjárhæðin hefur ekki verið hækkuð, og gæti það náttúrlega verið umræðuefni, hvers vegna hún hefur ekkí verið hækkuð, ef fjárþörfin fer vaxandi, og þar sem það væri líka í samræmi við hækkandi fjárl. að öðru leyti. Það sýnist a.m.k. ekki fjarstæðukennt, þó að hún hækkaði í samræmi við umsetningu ríkissjóðs.

En svo kemur það líka til greina, að fjárveitingin samkv. fjárl. 1961 hefur ekki verið notuð. Hvers vegna var hún ekki notuð? Var það máske ekki gert, til þess að hægt væri að sýna á yfirborðinu betri útkomu hjá ríkissjóði? Mér virðist m.ö.o., að 38 millj. kr. standi inni hjá ríkissjóði sem skuld hans við ríkisábyrgðasjóð, og mér virðist því, að greiðsluafgangurinn, sem talið var að væri, ef ég man rétt, 57 millj. fyrir árið 1961, hafi í raun og veru verið 38 millj. kr. minni, þar sem þetta var vangoldið af fjárveitingu til ríkisábyrgðasjóðs af fjárveitingu upp í ábyrgðir, sem féllu á ríkissjóðinn og ríkisábyrgðasjóður átti að taka á móti, þegar búið var að setja honum lög og ákveða honum þau verkefni, sem honum voru ætluð fyrir 1961 og 1962. Það er augljóst, að ef þessar 38 millj., sem ráðstafað var á fjárl. 1961, hefðu verið teknar til síns rétta brúks, þá hefði verið lítill halli á ríkisábyrgðasjóði nú, eða aðeins munurinn á 44 millj. og 38 millj. Lántökuþörfin er þess vegna þeim mun minni. Er það ekki rétt skilið, hæstv. fjmrh., að ríkisábyrgðasjóður eigi inni hjá ríkissjóði þessar 38 millj. frá 1961?

Eins og hv. frsm. n. gat um áðan, hefur Seðlabankanum verið falið að semja um endurgreiðslu áfallinna ábyrgða fyrir ríkissjóð. Sjálfsagt er hann nú búinn að ganga frá miklu af þeim samningum, a.m.k. eru liðnir þeir eindagar, er hann setti til samningagerðarinnar. Frá Seðlabankanum tel ég, að hefði átt að liggja fyrir hjá fjhn, skýrsla um, hvaða endurgreiðslna mætti vænta til tekna fyrir ríkisábyrgðasjóð á þessu ári og næstu árum. Í stuttu máli: Það hefði átt að fylgja þessu frv. til n, áætlun um tekjur og gjöld sjóðsins a.m.k. fyrir árið 1963. Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. fjmrh. annaðhvort að leggja fram hér við þessa umr. slíka áætlun eða láta fjhn. hana í té milli 2. og 3. umr.

E.t.v. spyr nú einhver stjórnarsinni eða jafnvel hæstv. fjmrh. sjálfur: Hvað gerir það til, þótt lántökuheimild þessi sé veitt? Hún verður ekki notuð, nema hennar þurfi með. En frá mínu sjónarmiði er engin trygging fyrir því, að þetta verði þannig, að hún verði ekki notuð, þó að hægt væri að komast af án hennar. Hæstv. ríkisstj. virðist einmitt gefin fyrir að taka lán og skjóta skilum hjá ríkissjóði á frest með því að taka t.d. lán vegna þess, sem ég kalla útibú ríkissjóðs. Það sýnir dæmið, sem ég nefndi, um 38 millj. kr. fjárveitinguna 1961. Ríkissjóður gat vel innt hana af hendi til ríkisábyrgðasjóðs. Hann þurfti ekki að taka lán hjá sjóðnum. En þá hefði vitanlega greiðsluafgangurinn orðið minni. Ég tel einnig, að lántaka, sem átti sér stað fyrir ríkissjóð hjá atvinnuleysistryggingasjóði 1962, sanni þetta, og fleira gæti ég nefnt.

Það er af þessum ástæðum, sem ég hef minnzt á, sem ég skrifaði undir nál. með fyrirvara og óska nú rökstuðnings, að lántökunnar sé þörf. Vitanlega er ég ekki mótfallinn því, að lán sé tekið, ef þess þarf með, og þess vegna skrifaði ég undir nál., en hafði þó fyrirvara á.