22.03.1963
Efri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. afsakaði það, að ekki hefðu legið fyrir skýrir reikningar um ríkisábyrgðasjóð, með því, að ekki hefði unnizt tími til að gera þá reikninga. Þetta getur náttúrlega verið góð afsökun út af fyrir sig. En ég verð að segja það, að hún er þó ekki í fullu samræmi við þær yfirlýsingar, sem sami hæstv. ráðh. hefur gefið oft og einatt hér á Alþ., að reikningum skuli hraðað og þeir skuli liggja fyrir strax að árum loknum. En afsökunina er nú vert að taka gilda. Hins vegar er ekki fært að afsaka það, að ekki skuli liggja fyrir neinar tölulegar áætlanir í þessu sambandi. Hæstv. ráðh. sagði, að þær væri erfitt að gera, en vitanlega væri þó hægt að gera þær, það varð hann að viðurkenna.

Hæstv. ráðh. svaraði ekki þeim fsp. mínum um tvo útgjaldaliði, sem eru á yfirlitinu um ríkisábyrgðasjóð 1962 og ég bað um skýringar á. Mér finnst afar eðlilegt, að hann hefði ekki getað gefið þær upplýsingar nú, sem um var beðið, og mér þykir ágætt, að þær komi fram, annaðhvort til n. eða við 3. umr.

Þá lagði ráðh. ákaflega mikla áherzlu á það frá upphafi til niðurlags í ræðu sinni, að nú væri verið að ráða bót á óreiðu, sem Framsfl. hefði átt mikla sök á í þessum málum. En óreiðan að því er ríkissjóðinn snertir í þessum efnum var ekki meiri en það, að jafnan voru árlega greiddar allar þær ríkisábyrgðir, sem féllu á ríkissjóð, þær voru greiddar jafnharðan, og það er sú hlið málanna, sem hér er til umr. Ég hef gert aths. við það, að nú eigi að skjóta á frest skilum hjá ríkissjóði á ábyrgðum, sem á falla. Hitt er svo annað mál og önnur hlið þessara mála, hvernig viðskipti ríkisins eru við þá, sem það veitir ábyrgðir. Um það greinir okkur dálítið á, mig og hæstv. ráðh., í orði. Ég er ekki viss um, hvort það er á borði. Ég tel, að ríkið eigi að styðja þá viðleitni í landinu, sem horfir til atvinnuaukningar og hagsbóta, þegar þess er þörf, og það eigi að gera það með sanngirni og ekki hafa í því sambandi endilega bankasjónarmið. En um þetta höfum við rætt áður. Það er þetta, sem hæstv. fjmrh. talar um sem óreiðusjónarmið. Ég er aftur að tala um það, að ég telji, að ríkissjóður eigi jafnharðan að greiða þau skuldatöp, sem á hann falla vegna ábyrgðarinnar, en ekki skjóta því til framtíðarinnar, og þá vil ég halda því fram, að það sé óreiðusjónarmiðið, sem hæstv. ráðh. hefur þar.

Ég gat þess og ráðh. viðurkenndi það, að sú fjárveiting, sam á fjárlögum var til að mæta ábyrgðartöpum 1961, hefði ekki verið innt af höndum. Hann taldi það afar eðlilegt, vegna þess að ráðstafað hafi verið verðhækkunarágóða af gengisfellingunni 1961 til þess að mæta slíkum töpum. En ég lít svo á, að þó að fé því væri þannig ráðstafað, þá átti það ekki að leysa ríkissjóðinn undan því að inna af hendi þá fjárveitingu í þessu skyni, sem búið er að ákveða til þessara hluta. Ég lít svo á, að ráðstöfun gengishagnaðarins hafi verið miðuð við að mæta í framtíðinni þeim töpum, sem þannig yrðu til, og þess vegna hefði hæstv. fjmrh. átt aðeins að taka af því fé það, sem vantaði á, að fjárlögin kvittuðu áfallin töp 1961. Og þess vegna lít ég svo á, að í raun og veru eigi ríkisábyrgðasjóður þetta inni hjá ríkissjóði, og þetta sé einn vottur þess, að verið sé að reyna að láta þetta útibú ríkissjóðsins koma sem minnst við ríkissjóðinn. Og ég held mig við það, að þessi ráðstöfun hafi beinlínis verið gerð 1961 til þess að fá álitlegri niðurstöðu á ríkisreikningnum til þess að hæla sér af, eins og vissulega var gert þá fullkomlega.

Ég tel of mikið bera á því hjá hæstv. ríkisstj., að hún vilji skjóta á frest skilum frá ríkissjóði. Ég minnist þess ekki, að lánsheimildir handa ríkissjóði hafi verið fengnar áður til þeirra verkefna, sem nú hafa verið fengnar lánsheimildir fyrir. Það var fengin lánsheimild til að leggja Keflavíkurveg. Það var ekki ágreiningsmál að vísu. En það hefur líka verið fengin lánsheimild til þess að standa straum af byggingarkostnaði menntaskóla og kennaraskóla og hjúkrunarkvennaskóla, 28 millj. Það hefur verið fengin heimild til þess að taka lán til lögreglustöðvarbyggingar, 14 millj. kr., og til byggingar ríkisspítala. Þetta eru fyrirtæki, sem skila ekki neinu til baka í ríkissjóð beint. Það er aðeins verið að skjóta á frest að inna skyldur ríkissjó$s af hendi til þessara fyrirtækja. Ég minnist ekki, að slik stefna hafi verið gildandi áður.

Það má geta þess, að rekstrarhalli hjá rafveitunum, 88 millj. kr., hefur ekki verið greiddur, að hjá skipaútgerðinni er skuld, sem ríkissjóður ber ábyrgð á, 31/2 millj. kr., og svo er lántakan hjá atvinnuleysistryggingasjóði, beinlínis lántaka vegna rekstrar ríkissjóðs. Það er þetta, sem ég tel athugavert — mjög athugavert. Ég kalla það ekki beinlínis óreiðu, en þó hefði verið réttmætt að svara hæstv. fjmrh. með því, að þetta benti frekar til óreiðustefnu heldur en það, sem hann var að tala um til ámælis Framsfl. Og ég vildi, að það kæmi skýrt í ljós, að það væri ekki angi af þessari stefnu, sem lægi í því að biðja um 50 millj. kr. lántökuheimild handa ríkisábyrgðasjóði. Hann hefði áreiðanlega ekki þurft á þessari heimild að halda, ef 38 millj. kr. hefðu komið inn, eins og vera bar. Og það er áreiðanlegt, að löggjafinn, þegar hann ákvað, að gengishagnaðurinn ætti í framtíðinni að mæta ábyrgðartöpum, ætlaðist ekki til þess, að það tæki af ríkissjóði skylduna til að inna af hendi móti þessum töpum það, sem búið var þegar að ákvarða til þess á fjárlögum.