26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og afgreitt þaðan óbreytt. Efni þess er að gera þann viðauka við lögin frá 1962 um ríkisábyrgðasjóð að heimila ríkisstj. fyrir hönd sjóðsins að taka allt að 50 millj. kr. innlent lán handa sjóðnum. Málavextir eru þeir, að á s.l. ári voru samþykkt lög um stofnun ríkisábyrgðasjóðs. Ætlunin var sú að losa ríkisábyrgðirnar úr beinum tengslum við sjálfan ríkissjóðinn og fá banka þennan sjóð til umsjár og vörzlu. Nokkru eftir að l. voru sett, var samið við Seðlabanka. Íslands um, að hann tæki að sér vörzlu sjóðsins, og hefur hann þegar lagt í það mikla vinnu að fá yfirlít um þær ríkisábyrgðir, sem á ríkissjóð hafa fallið á undanförnum árum, og leitað eftir samningum við skuldara um það, með hverjum hætti þeir gætu endurgreitt lánin. Auk þess hefur svo Seðlabanka Íslands verið falið samkv. l. um ríkisábyrgðir að vera fjmrn. til ráðuneytis um umsóknir um ríkisábyrgðir, og eru þessi mál nú óðum að komast í fast horf.

Það er ljóst, að nú á þessu ári og e.t.v. því næsta muni fjárþörf ríkisábyrgðasjóðs vera allmikil og væntanlega á þessu ári eins og síðasta nokkru meiri en tekjur hans eru, og er þá meðtalið framlag það, sem áætlað er í fjárlögum fyrir 1962 og 1963. Hins vegar er það von manna, að síðan breytist þetta fljótlega þannig, er áhrif þessara ráðstafana og hinna tveggja laga um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóð fari að koma í ljós, að meira aðhald verði, ekki aðeins um nýjar ábyrgðir, heldur komist einnig fastara horf varðandi eldri ábyrgðir, þannig að síður falli þær á ríkissjóð, og enn fremur, að fylgt verði af bankans hendi eftir, eins og föng eru á, að þegar aðilar hafa samið við ríkisábyrgðasjóðinn, þá verði við þær skuldbindingar staðið. Þá er enginn vafi á því, að breytingin frá sjálfskuldarábyrgð til einfaldrar ábyrgðar er þegar farin að hafa veruleg áhrif og mun þó í enn ríkara mæli síðar.

Það er því ljóst, að ríkisábyrgðasjóður þarf á nokkru fé að halda umfram þær tekjur, sem honum eru ætlaðar nú í ár og væntanlega á næsta ári, og til þess að afla honum þess fjár er gert ráð fyrir að heimila honum að taka það lán, sem hér greinir. Hins vegar er ætlazt til þess, að það lán verði til skamms tíma og eins og ég gat um verði sjóðurinn innan skamms orðinn þess megnugur að standa með sínum eðlilegu og venjulegu tekjum undir þeim gjöldum, sem á hann falla.