26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr. um heimild fyrir ríkisábyrgðasjóð til þess að taka lán allt að 50 millj. kr., gefur mér ástæðu til að rifja nokkuð upp þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í fjármálum á þessu kjörtímabili, sem nú er senn liðið.

Allt frá því að núv. stjórnarflokkar fóru að stjórna fjármálum ríkisins, hafa fjárlög hækkað um hartnær 150%. Þrátt fyrir það hefur núv. ríkisstj. gert sér far um að fara ýmsar aðrar leiðir til þess að leyna því, hve útgjöldin raunverulega hafa hækkað og álögur á þjóðina í heild. T.d. er nú svo komið, að á þessum háu fjárlögum er pósti og síma ekki ætluð nein greiðsla frá ríkisins hendi, eins og áður var, en þessu er mætt með því að hækka þjónustugjöld þessara stofnana um 80% eða allt að því. Sömu sögu er að segja um ríkisskip. Úr útgjöldum til þeirra hefur dregið mjög á fjárl. á síðasi árum, en hins vegar hefur stofnunin verið látin hækka sín þjónustugjöld um svipaða upphæð og póstur og sími. Einnig á þetta sér stað með rafmagnsveitur ríkisins. Þær hafa verið látnar hækka sín þjónustugjöld á kjörtímabili núv. ríkisstj. um allt að 70% og sjúkrahúsin um 60%. Á öllum sviðum hefur því hæstv. ríkisstj. fylgt því að auka álögur á þjóðina í heild og reyna að koma útgjöldum fyrir á annan hátt en fjárlög sýna.

Til viðbótar því, sem ég hef hér sagt um þetta, vil ég minna á það, að ýmsar ríkisstofnanir hafa á þessu tímabili verið látnar stofna til skulda vegna rekstrarins, svo sem rafmagnsveitur ríkisins. Það lá fyrir við fjárlagaafgreiðslu um síðustu áramót, að rekstrarhalli þeirra mundi vera orðinn um 88 millj. kr., og gert er ráð fyrir 30 millj. kr. rekstrarhalla á yfirstandandi ári, svo að hér er um hartnær 120 millj. kr. fjárhæð að ræða í lok þessa árs, sem verður samansafnaður rekstrarhalli rafveitnanna. Við uppgjör ríkisins 1961 var lagt til hliðar 3.5 millj. kr. af halla Skipaútgerðar ríkisins það ár. Það var ekki fært á ríkisreikninginn, þó að það lægi þá fyrir sem staðreynd. Þetta var geymt til ársins 1962, og er mér nú ókunnugt um, hvernig með það hefur verið farið. Þá er kunnugt um það, að á árinu 1962 var ekki greitt lögboðið iðgjald til atvinnuleysistryggingasjóðs, og með fjárveitingunni 1963 eru 21 millj. kr., sem ríkissjóður á þar vangreitt. Þannig hafa í raun og veru safnazt saman á þessum þremur liðum, sem ég hef hér nefnt, vangreiddar skuldir ríkisstofnana, sem ríkissjóði ber að sjá um, um nær 140 millj. kr.

Í framhaldi af þessari stefnu hæstv. ríkisstj., að geyma þannig til framtíðarinnar það sem áfallið er, er einnig fylgt sömu stefnu um framkvæmdir þær, sem nú á að fara að gera eða þegar eru hafnar. Á fjárl. yfirstandandi árs var Keflavíkurvegur með lánsheimild upp á 70 millj. kr., menntaskóli, kennaraskóli og hjúkrunarskóli með 28 millj. kr. lánsheimild, lögreglustöð 14.2 millj., ríkisspítalar og rannsóknarstofan 4 millj., eða alls 116 millj. kr. Til viðbótar þessu er svo það, að mikið hefur verið af því gumað, að nú ætti að fara að sýna þjóðinni framkvæmdaáætlun, sem mér skilst að eigi að vera til tveggja ára, eftir því sem um hefur verið talað, en allt það, sem gera á samkv. þessari framkvæmdaáætlun, á að gera fyrir lánsfé. Á fjárl. íslenzka ríkisins, sem eru orðin 2 milljarðar og 200 millj., hefur alltaf færzt í þá áttina að draga úr fé til framkvæmda, auka rekstrarútgjöldin og leysa framkvæmdaþættina með lánsfé, ef um framkvæmdir hefur verið að ræða, eins og nú á að vera vegna kosninganna í vor.

Þetta frv., sem hér er á ferðinni, er því einn þáttur hæstv. ríkisstj. að losa ríkissjóð sjálfan við útgjöld, sem áður höfðu verið greidd af ríkinu, meðan fjárl. voru lægri og tekjurnar minni. Það er þess vegna í beinu áframhaldi af því að reyna að leyna því, hvað hinar raunverulegu ríkistekjur eru orðnar háar og hvað mikið er af því gert að forða ríkinu frá þeim útgjöldum, sem voru talin sjálfsögð áður.

Tilgangurinn með ríkisábyrgðum hefur verið sá að aðstoða á þann hátt við uppbygginguna í landinu. Þess vegna hafa framkvæmdir í hafnargerð v erið venjulega með ríkisábyrgð, því að ríkið hefur á þann hátt lagt höfnunum til aðstoð til þess að hraða framkvæmdunum umfram þær fjárveitingar, sem ríkissjóður hefur lagt til. Hefur öllum verið ljóst, að þetta hefur verið meginstefnan, og í verulegum atriðum var fylgt því að reyna að forða ríkissjóði frá áföllum vegna þessarar stefnu, þó að nokkur breyt. hafi orðið á því á síðari árum. Þegar l. um ríkisábyrgðir voru sett hér á hv. Alþ. 1960, var hafnargerðin undanþegin ákvæðum 1., þannig að hafnargerðir búa enn þá við eldri ákvæði um ríkisábyrgðir.

Ef við gerum nú samanburð á áföllnum ríkisábyrgðum áður og nú og nokkra tilraun til þess að flokka þetta, þá kemur í ljós, að höfuðútgjöld vegna ríkisábyrgða eru nú á síðustu árum. Samkv. yfirliti um ríkisábyrgðir til ársloka 1960 voru áfallnar ríkisábyrgðir þá orðnar um 125 millj. kr. Af þessu voru innan við 100 millj. kr., sem höfðu fallið til útgjalda fyrir árslok 1958. Hins vegar hafa þessi útgjöld orðið allveruleg, sérstaklega á árunum 1961 og 1962. Ef borin eru saman útgjöld ríkisábyrgða áður fyrr og nú, þá kemur í ljós, að hafnargerðir eru alltaf verulegur hluti af ríkisábyrgðunum og munu nú vera ca. 50 millj, kr. af því, sem ríkisábyrgðirnar eru í heild. Síldarverksmiðjurnar hafa einnig verið þar stór útgjaldaaðili eða munu vera með álíka fjárhæð. En þess er að geta, að verulegan hluta af þessum síldarverksmiðjum átti ríkið sjálft og hefði orðið að mæta útgjöldum þeirra á annan veg, ef ríkisábyrgðaleiðin hefði ekki verið valin.

En það, sem gerir mestu útgjöldin vegna ríkisábyrgðanna, eru togararnir. Og það eru einmitt þeir togarar, sem við höfum keypt núna síðustu árin eða ákveðið var að kaupa 1959 og hafa komið síðan, sem eru þar þyngstir á metunum. Í yfirliti um útgjöld ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða 1962 sýnist mér, að rúmlega helmingurinn af því, sem ríkissjóður greiddi þá, hafi verið greiddur vegna togaranna, sem keyptir voru 1959 og síðar. Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða, eða fyrir suma aðila 5–6 millj. kr. Þess vegna held ég, að það sé á misskilningi byggt hjá hæstv. ríkisstj., ef hún vill halda því fram, að það hafi orðið einhver breyt. til batnaðar í sambandi við þessi mál við valdatöku hennar.

Þá er það áberandi, að frystihús eða greiðslur vegna þeirra eru meira áberandi nú á síðari árum en áður var. Mun það hafa stafað af því, að árið 1960, þegar 1. um stofnlánadeildina voru í undirbúningi, þá var svo ákveðið, að ekki skyldi gengið að þeim aðilum, er laganna áttu að njóta, og það var verulegur hluti af frystihúsunum, sem ríkissjóður varð að greiða fyrir, og virðist það hafa haldizt áfram. Nú er það um l. frá 1960 að segja, að þau áttu að tryggja þetta betur en áður var, að ríkissjóður yrði ekki fyrir áföllum, en það virðist ekki hafa komið fram enn þá. Hins vegar gerðu þau annað að verkum, að sérstaklega koma þau hart við bæjar- og sveitarfélög, þar sem þau hafa verri aðstöðu til þess að fá ábyrgðir vegna sinna framkvæmda heldur en áður hefur verið. Og ef litið er á þá skýrslu, sem ég hef fengið, eða þá flokkun, sem ég hef reynt að gera um útgjöld vegna ríkisábyrgðanna, þá kemur í ljós, að sáralítill hluti þeirra er vegna sveitarfélaga fyrir önnur lán en hafnargerðir. En með l. um ríkisábyrgðir frá 1960 gerði hæstv. ríkisstj. sér far um að leggja skatt á alla þá aðila, er ábyrgð fá hjá ríkissjóði, alveg án tillits til þess, hvort ríkissjóður hefur nokkur útgjöld af ábyrgðinni eða ekki. Samkv. þessu hefur ríkissjóður haft smátekjur, þó að það nemi ekki mikilli upphæð.

En á árinu 1961 gerðist annað, sem hefði átt að gera það að verkum, að frv. sem þetta hefði verið gersamlega óþarft, því að þá, með gengisbreyt. þeirri, sem ríkisstj. gerði í ágúst 1961, tók hún gengismismuninn í sínar hendur. Þessu fé var síðan ráðstafað í ríkisábyrgðasjóðinn, þegar hann var stofnaður með l. Tekjur þær, sem hæstv. ríkisstj. eða ríkisábyrgðasjóður hafði af þessum gengismun 1961, voru um 70–75 millj. kr., en það var álíka fjárhæð og ríkið varð að greiða vegna ábyrgðarskuldbindinga það ár. Á árinu 1962 hefur svo ríkisábyrgðasjóður haft tekjur samkv. þessum tekjustofni yfir 20 millj. kr., eða nær 100 millj. kr. í heild frá þessum tekjustofni. Þetta átti að vera veruleg búningsbót fyrir þennan sjóð. En það var annað, sem gert var jafnhliða, þegar ríkisábyrgðasjóðurinn fékk þessar tekjur. Á fjárlögum ársins 1961 var ákveðið, að ríkissjóður skyldi verja vegna ríkisábyrgða 38 millj. kr. En hæstv. fjmrh. ráðstafaði því þannig, að þessi fjárhæð var ekki notuð, heldur var ríkisábyrgðasjóðurinn látinn greiða að öllu leyti áfallnar ríkisábyrgðir 1961, án þess að ríkissjóður legði þar nokkuð til.

Hver var nú ástæðan fyrir því, að þessi leið var valin? Ástæðan var fyrst og fremst sú, að hæstv. ríkisstj. hafði hug á því við áramótin 1961 og 1962 að gefa út stórorðar tilkynningar um góða afkomu ríkissjóðs. Þess vegna voru í útvarpi og blöðum gefnar út tilkynningar um, að staða ríkissjóðs væri nú betri en nokkru sinni fyrr og staða hans hjá Seðlabankanum væri slík, að þar væru nú engar skuldir. Þegar hæstv. fjmrh. gaf yfirlit um greiðsluafgang ríkissjóðs 1961 í fjárlagaræðunni s.l. haust, þá skýrði hann frá því, að samkv. þeirri venjulegu reglu, sem hefði verið fylgt um ríkisuppgjörið, hefði greiðsluafgangurinn orðið 57 millj. kr. Þetta er tæpum 20 millj. kr. hærri upphæð en fjárhæð sú, sem ríkið átti að greiða vegna ríkisábyrgða samkv. fjárl. 1961. Og ef ríkissjóður hefði greitt áfallnar ríkisábyrgðir, eins og hann hefur orðið að gera undanfarin ár, umfram fjárlög, þá hefði ekki orðið greiðsluafgangur, heldur greiðsluhalli, þar sem greiðslur vegna ríkisábyrgðanna voru 71 millj. kr. þetta ár. En á þennan hátt er hægt að komast hjá því að sýna þá útkomu, sem áður var sýnd hjá ríkissjóði í sambandi við þessi útgjöld, en færa það til útibúsins, eins og þarna hefur verið gert.

Með l. um ríkisábyrgðasjóð var í raun og veru ekkert gert annað en ríkissjóður stofnaði útibú til þess að láta það annast eitt það verkefni, sem ríkissjóður hafði áður annazt. Og ef þetta útibú ríkissjóðs, ríkisábyrgðasjóðurinn, hefði fengið þessar 38 millj., sem Alþ. var búið að samþykkja á fjárl, að ættu að ganga til ríkisábyrgða, þá hefði þessi sjóður ekki haft greiðsluhalla í árslok 1962 nema 8,7 millj. kr. í staðinn fyrir 44 millj., eins og nú er gefið upp. Ef þannig hefði verið staða ríkisábyrgðasjóðs, þá hefði þessi lántaka að verulegu leyti eða öllu leyti verið algerlega óþörf. En með því að ríkissjóður tók til sin til þess að geta auglýst greiðsluafgang 1961 það, sem átti að ganga til þessara greiðslna, þá er frv. það fram komið, sem hér er til umr.

Þegar það er athugað, hvaða stefnu hefur verið fylgt í fjármálum ríkisins, þá er þetta frv. eðlilegt, því að það á m.a. að verða til þess, að útibúið taki lán, svo að ríkissjóður geti auglýst góða fjárhagsafkomu, eins og gert hefur verið af núverandi valdhöfum.