26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í þær almennu umr. um fjármál, sem hv. þm. innleiddi hér, en tel rétt að leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hans.

Það eru í fjárl. fyrir 1963, í 20. gr., áætlaðar 38 millj. kr. vegna áfallinna ríkisábyrgða eða til ríkisábyrgðasjóðs. Sama upphæð var í fjárl. fyrir 1962 og fyrir 1961. í mörg ár hefur verið veitt einhver upphæð á 20. gr. fjárl. til þess að mæta hinum áföllnu ábyrgðum. Sú upphæð, sem í fjárl. er þannig áætluð, er ekki fast framlag, sem á að borga, hvernig sem allt veltíst, og ekki fast framlag til ríkisábyrgðasjóðs. Þetta er áætlunarupphæð, sem skal greiða eftir því, sem þörf er á hverju sinni, þannig að ef fjárþörf vegna áfallinna ríkisábyrgða er eitt árið minni en 38 millj., þarf að sjálfsögðu ekki og á ekki að greiða úr ríkissjóði hærri fjárhæð en þörf er fyrir. Verður þá einhver hluti þessarar upphæðar eða öll upphæðin umfram, þannig að ekki þarf að greiða úr ríkissjóði. Ef hins vegar áfallnar ríkisábyrgðir eða þörf ríkisábyrgðasjóðs verður eitthvert árið óhjákvæmilega meiri en 38 millj., verður að greiða umfram úr ríkissjóði til þess að ná endunum saman.

Þannig er um fjölda liða í fjárl. Það er ekki framlag, sem skylt er að greiða nákvæmlega af þeirri upphæð, sem fjárl, gera ráð fyrir, heldur áætlun. Má nefna þess mörg dæmi, ýmist þannig, að ekki hefur þurft að nota til fulls áætlunarupphæð, og hins vegar hefur þurft að greiða meira á tilteknum lið en fjárl. gerðu ráð fyrir. Áætlunarfjárhæðin til ríkisábyrgðasjóðs er einn af þeim liðum, sem þannig er ástatt um. Árið 1961, fyrsta árið, sem ríkisábyrgðasjóður starfaði, — hann átti að taka við ríkisábyrgðum frá ársbyrjun 1961, kom í ljós, að ríkisábyrgðasjóður þurfti ekki á þessum 38 millj. að halda, heldur hafði hann nægilegt fé með þeim tekjustofnum, sem honum voru ætlaðir, án þess að þessar 38 millj. væru greiddar úr ríkissjóði. Samkv. öllum venjum og réttum skilningi á fjárl. átti því ekki að greiða þessar 38 millj, úr ríkissjóði samkv 20. gr. fjárl., þar sem ríkisábyrgðasjóður hafði enga þörf fyrir það. Þessi aðferð var auðvitað sjálfsögð og óvefengd, og ríkisreikningurinn fyrir 1961, þar sem þetta kemur fram, hefur verið samþ. á Alþ. og afgreiddur hér, án þess að nokkur maður hreyfði nokkurri aths. Og ég man ekki eftir einni rödd frá hv. stjórnarandstæðingum um, að þar væri ekki rétt að farið. Þess vegna gegnir nokkurri furðu að fá hér nú aths. frá einum þm. um þetta atriði, eftir að hann hefur sjálfur hér á Alþ. átt þátt í því að afgreiða ríkisreikninginn þannig upp settan og færðan.

Á árinu 1962 kemur það hins vegar í ljós, að ríkisábyrgðasjóður þarf á meira fé að halda en þessum 38 millj. Þessar 38 millj hafa að sjálfsögðu verið greiddar af hendi, en samt sem áður er nokkurs fjár þörf. Og þá voru tvær leiðir fyrir hendi. Önnur var sú að greiða úr ríkissjóði umfram þá milljónatugi, sem á vantaði, umfram þessar 38 millj., og kæmi það sem umframgreiðsla í ríkisreikninginn 1962, eða fara hina leiðina, sem gert er ráð fyrir að fara og þetta frv, byggist á, og hún er sú, að í sambandi við þann halla, sem varð á ríkisábyrgðasjóði 1962, sé tekið lán til skamms tíma til að jafna þennan halla.

Ef svo væri, að við gerðum ráð fyrir um ófyrirsjáanlega framtíð stórkostlegum útgjöldum ríkisábyrgðasjóðs, eitthvað í áttina við það, sem varð á árinu 1962, þá væri vafalaust rétt að greiða umfram fjárlög á árunum 1962 og 1963 og hækka síðan við fyrsta tækifæri fjárveitingu í fjárl. En þeir, sem fjalla um ríkisábyrgðasjóð og hafa mest fylgzt með honum, gera ekki ráð fyrir, að þróunin verði þessi. Þeir gera ráð fyrir því, eins og ég gat um í minni framsöguræðu, að fjárþörf ríkisábyrgðasjóðs, þegar búið er að koma lagi á þessi mál, verði minni á hinum næstu árum en hún hefur verið, þannig að að því stefni, að sem allra flestir þeir, sem fengið hafa lán með ríkisábyrgðum, fari að standa í skilum, og að því er stefnt með þessum tvennum lögum.

Af þessari ástæðu er það, sem ekki þótti rétt að greiða stórfé umfram fjárlög eða fjárlagaáætlun fyrir árið 1962, en þær greiðslur eru óafturkræf framlög til ríkisábyrgðasjóðs, heldur brúa þetta bil með lántöku til skamms tíma í trausti þess, að jafnvel á árinu 1964 og sérstaklega á næstu árum þar á eftir mundi hagur ríkisábyrgðasjóðs batna svo verulega, að hann gæti greitt upp að fullu þetta lán og staðið svo undir sínum greiðslum.

Þetta ætla ég, að ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir. En sérstaklega vil ég endurtaka, að ummæli hv. þm. varðandi áætlun fjári., 38 millj. fyrir 1961, þær fullyrðingar hans eru á algerum misskilningi byggðar. Þá fjárhæð átti að sjálfsögðu eingöngu að greiða af hendi, ef þörf hefði verið fyrir hana. Það var ekki þörf á henni. Þess vegna var hún ekki greidd, og Alþ. hefur einróma staðfest það með samþykkt l. um ríkisreikning fyrir árið 1961.