02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Það eru fáein orð út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði. Ég hef leyft mér að halda því fram, að stofnun þessa svokallaða ríkisábyrgðasjóðs o.fl., sem hefur gengið í þá stefnu að slíta einstaka reikningsliði út úr ríkisbúskapnum og gera þá upp sér, — ég hef leyft mér að halda því fram, að upp á þessu hafi hæstv. fjmrh. fundið til þess að leyna því raunverulega fyrir þinginu og þjóðinni, hvernig afkoma ríkissjóðs hefur verið. Ég hef fært rök fyrir þessu, sem hæstv. fjmrh. hefur ekki getað hnekkt og mun ekki geta hnekkt.

Hæstv. fjmrh. þóttist sjá fram á það 1961, að það mundi ekki takast að ná greiðslujöfnuði á ríkisbúskapnum þrátt fyrir þær óhemjuálögur, sem lagðar höfðu verið á og voru meiri en nokkru sinni áður hafa þekkzt í sögu íslenzku þjóðarinnar, því að þessi hæstv. fjmrh. hefur gengið lengra í skattpíningu og tollaálögum en nokkurn tíma hefur áður þekkzt í íslenzkri sögu. Hann hefur gengið svo langt í þessu, að síðan 1958 hafa álögur til ríkisbúskaparins hækkað um 1400 millj., og það er ekki nema vorkunnarmál, þó að hæstv. ráðh. sé æðisárt um, ef þannig æxlast, að þrátt fyrir þessar óhemjuálögur verði ekki einu sinni jöfnuður á ríkisbúskapnum. Þess vegna var það í sjálfu sér ekki nema mannlegt, að hæstv. fjmrh. varð bilt við 1961, þegar hann þóttist sjá fram á halla, og fyndist hann þurfa að gripa til einhverra sjónhverfinga, eins og hann er þekktur fyrir i þessum efnum. En þá fann hæstv. ráðh. upp það ráð að kalla ríkisábyrgðatöpin ríkisábyrgðasjóð og láta síðan gengishagnað á birgðum útflutningsafurða, sem hann lét taka eignarnámi af sjávarútveginum, ganga inn á þennan reikning. Þessu fé, sem tekið var eignarnámi frá sjávarútveginum, er þannig ætlað að standa undir ríkisábyrgðatöpunum, ná ríkisábyrgðatöpunum þannig að nafninu til út af ríkisreikningnum fyrir 1961 og segja svo: Það varð greiðsluafgangur hjá ríkissjóði 1961. Var þetta ósleitilega auglýst af hendi hæstv. ráðh., þessi greiðsluafgangur, sem fenginn var með þessu móti að taka ríkisábyrgðagreiðslurnar út af reikningnum og taka þetta fé eignarnámi af sjávarútveginum. Ef hæstv. ráðh. hefði ekki gripið til þess að hrifsa þetta fé með eignarnáminu og taka þennan reikningslið út af fjárl., hefði það komið í ljós, að raunverulega var greiðsluhalli á ríkisbúskapnum 1961, en það mátti ekki sjást.

Svipaðan leik leikur svo hæstv. ráðh. árið 1962, í sambandi við fleira, eins og t.d. það, að hann vildi ekki á fjárlögum fyrir það ár telja til útgjalda lögboðin framlög til atvinnuleysistryggingasjóðs, af því að það ætti að inna þau af hendi með lántökum. Þannig voru fjárlögin greiðsluhallalaus höfð á hv. Alþ. með því að sleppa að telja til útgjalda lögboðin útgjöld, af því að það átti að greiða þau með lántökum. Hefur slík bókfærslukenning aldrei heyrzt fyrr, en þetta er þáttur í sjónhverfingaleik hæstv. ráðh. til þess að láta þetta allt líta betur út en ástæða er til. Það er alveg sérstök ástæða til að víta hæstv. ráðh. fyrir þetta. Fyrir utan það, sem ég benti á hér um daginn, að hann lét ekki setja inn á fjárl. fyrir 1963 greiðslur af lánum, sem ríkissjóður hefur þegar tekið og verður að standa undir, eins og t.d. lánunum vegna Keflavíkurvegarins. Hann lét ekki setja þetta inn á fjárlögin, og hann ætlaði ekki einu sinni að leita heimildar Alþ. fyrir lántökum til Keflavíkurvegarins, fyrr en hann loksins var pressaður til þess hér á Alþ. með mikilli fyrirhöfn að leita löglegs samþykkis fyrir þeim lántökum í framtíðinni. Það fékkst þó fram, en hitt fékkst ekki, að hæstv. ráðh. léti færa greiðslur af þeim lánum, sem búið var að taka, inn á fjárl. Allt að einu verður að greiða þessar greiðslur. Það væri fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vildi upplýsa menn um þetta, en hann minntist ekkert á það í þeirri stuttu ræðu, sem hann hélt hér áðan, hvernig hægt er að afsaka þetta.

Hæstv. ráðh, sagði í sambandi við ríkisábyrgðasjóðinn, þegar hann var hér til umr., að það ætti að taka hann úr tengslum við ríkissjóðinn. Hvernig heldur hæstv. ráðh., að það sé hægt að taka þessi efni úr tengslum við ríkissjóðinn, þegar ríkisábyrgð er á lánunum og ríkið verður sjálft að standa við þá ábyrgð? Það sjá allir menn, að slíkt verður ekki slitið úr tengslum við ríkisbúskapinn eða ríkissjóðinn. Það er hægt að búa til einhvern sérstakan reikning yfir þetta og slíta reikninginn úr sambandi við ríkisreikninginn, gera ríkisuppgjörið rangt, samþykkja sérstök lög um, að þessu skuli haldið út af fyrir sig, þó að það standi í sjálfri stjórnarskránni, að það skuli færa allar ríkistekjurnar og ríkisútgjöldin á ríkisreikninginn. Það er hægt að gera svona sjónhverfingalistir, en það hefur bara ekki neina praktíska þýðingu. Ríkissjóður verður auðvitað að standa við sínar ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóðurinn er ekkert annað en reikningur í ríkisbúskapnum, þó að hæstv. ráðh. sé að bisa við að halda honum utan við reikningsskil ríkissjóðs til þess að sýna þar skakka niðurstöðu.

Hæstv. ráðh. er að ræða það hér, að í raun og veru hafi þetta allt saman verið ákaflega eðlilegt. Á árinu 1961 hafi ekkert þurft á því að halda að leggja fram neitt af ríkistekjunum, — þessum venjulegu ríkistekjum til að greiða ríkisábyrgðatöpin og þess vegna hafi mátt sleppa því, — það hafi alveg mátt sleppa því, það hafi verið alveg eðlilegt að sleppa því að greiða nokkuð af ríkistekjunum upp í ríkisábyrgðasjóðinn, því að það hafi ekki verið nauðsynlegt. Það hafi ekki þurft á því að halda.

Við sjáum þetta núna. Við þurfum ekki að deila um, hvort það hafi þurft á þessu að halda eða ekki. Er það ekki staðreynd, sem hæstv. ráðh. er að segja þinginu frá, að ríkisábyrgðasjóðurinn sé kominn í þrot, er það ekki það, sem hann er alltaf að segja okkur, og þess vegna þurfi að taka lán handa honum? En í hinu orðinu segir svo hæstv. ráðh.: Sjóðurinn þurfti ekkert á þessum 38 millj. kr. að halda. En er það ekki staðreynd, sem hæstv. ráðh, er alitaf að útskýra, að ríkisábyrgðasjóðurinn sé kominn í þrot? Og hann þarf ekki aðeins þessar 38 millj., sem hæstv. ráðh. greiddi honum ekki 1961, þó að gert væri ráð fyrir því í fjárlögunum, heldur þarf hann meira til, því að ráðherrann gerir ráð fyrir að taka lán handa honum samtals 50 millj. kr. M.ö.o.: það, sem með öllum þessum sjónhverfingum og blekkingum hét greiðsluafgangur árið 1961, það heitir nú orðið ríkislántaka upp á 50 millj. Þannig er leikið fram og aftur með þessi efni.

Svo er hæstv. ráðh. alveg hissa á því, að þetta skuli sæta nokkurri gagnrýni, að mönnum skuli ekki þykja þetta eðlilegt og sjálfsagt. Ætli það hefði ekki verið eðlilegri framkvæmd á þessum málum, ef ríkisábyrgðasjóðurinn hefði átt að heita sjóður, en ekki bara ríkisábyrgðatöp, sem færð eru á sérstakan reikning, að það hefðu þá verið lagðar til hans þessar 38 millj. kr., sem Alþ. ætlaði upp í ríkisábyrgðatöpin árið 1961? En það mátti auðvitað ekki láta það, því að þá var lakari útkoma á pappírnum hjá hæstv. ráðh. 1961. Þess vegna mátti ekki láta það, þá var ekki hægt að gorta af því sem greiðsluafgangi. Við sjáum svo, hvaða hald er í þessu, að nú örstuttu síðar kemur svo hæstv. ráðh. og segir: Hann þurfti á þessu að halda, sjóðurinn, því að nú vantar hann 50 millj. Ég ætla að biðja ykkur að samþykkja, að það verði tekið að láni.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að þetta mál væri tiltölulega einfalt. Ég hallast að því, að það sé tiltölulega einfalt, þegar búið er að reyta utan af þessu umbúðirnar, sem hæstv. ráðh. hefur vafið það inn í, — þá er þetta tiltölulega einfalt. Það er engum manni ofvaxið að skilja, hvað hér hefur raunverulega gerzt, og þessi sjónhverfing mun því hafa ákaflega litla þýðingu. Þó má vera, að hæstv. ráðh. nái þeim tilgangi sínum að láta líta svo út í augum sumra, að það hafi verið glæsilegur greiðsluafgangur árið 1961, sem fenginn var þannig m.a. að greiða ekki 38 millj, kr., sem áttu að ganga upp í ríkisábyrgðatöpin, koma svo rúmlega ári síðar og biðja Alþ. um að standa að því, að lán verði tekið til þess að greiða þetta og meira til.

Já, sennilega eru það margir, sem álíta, að það hafi orðið mjög vænlegur greiðsluafgangur hjá hæstv. ráðh. Mér dettur í hug á stundinni annað, sem sýnir, að hæstv. ráðh. er talsvert ýtinn við svona sjónhverfingar. Ég man eftir því, að þegar hæstv. ráðh. tók við, þá gerði hann mikið úr því, að hann ætlaði að framkvæma alls konar sparnað. M.a. sagðist hann ætla að fækka stórkostlega nefndum. Það brá nú samt svo við, að þegar fyrstu reikningsskil komu frá hæstv. ráðh., þá hafði nefndum fjölgað, en ekki fækkað, og stóraukizt kostnaður við þær á allar lundir. En svo þegar næstu reikningsskil koma fyrir árið 1961, þá hafði nefndunum fækkað. Ég fór þá að kynna mér þetta dálitið, lagði vinnu í að kynna mér þetta, og þá komst ég að því, að þetta var ósköp einfalt og mjög í stíl við annað, sem kemur frá hæstv. ráðh. Hann hafði bara farið í gegnum reikninginn og einfaldlega breytt titlunum, og það, sem áður hétu nefndir, hét nú rannsókn á hinum og þessum málum og athugun á hinu og þessu o.s.frv. Nefndanöfnin höfðu verið strikuð út og annað sett í staðinn, og þannig kom glæsilegur árangur. Það hafði fækkað stórkostlega nefndum. En nefndunum hafði náttúrlega ekki fækkað neitt og kostnaðurinn vaxið stórkostlega. En síðan ráðh. gerði þetta, hef ég ekki heyrt hann gorta af því, að hann hafi fækkað nefndum.

Þetta er bara til að benda á eitt dæmi enn í þessu sambandi, sem sýnir, að hæstv. ráðh. getur ekki með neinni sanngirni undrazt, þó að einhverjum detti í hug að benda á leikaraskapinn í þessum efnum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég ætti ekki að vera að tala um þetta, því að það hefði verið breytt til frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 1958, og tekin upp ný skipan á þeim málum, — dýrtíðargreiðslur, sem ráðgerðar hefðu verið á fjárlögunum 1958, hefðu með sérstakri löggjöf verið færðar yfir á annan sjóð, og hann gerði mikið úr þessu, að mér ætti að vera þetta minnisstætt. — Ég neita því algerlega, að hér sé um nokkra hliðstæðu að ræða, því að það var ekki í þessu sambandi veríð að gera neina tilraun til þess að sýna ranga mynd af útkomunni í þessum málum. Og m.a. er hægt að benda á, að 1958 voru ekki aðeins nokkur gjöld, sem í fjárlögunum stóðu, með lögum færð yfir á útflutningssjóð, heldur var stór tekjupóstur, sem einnig var gert ráð fyrir í fjárl., einnig færður yfir til útflutningssjóðs, þannig að það var bæði um tekjur og gjöld að ræða í þessu sambandi. Hér er líka um algerlega ósambærilega hluti að ræða, vegna þess að það var skýrt tekið fram í l. um útflutningssjóð, sem sett voru, að þessi gjöld skyldu úr honum greidd, enn fremur skýrt tekið fram, að hann skyldi þeirra tekna njóta, sem áður höfðu runnið í ríkissjóð. Það voru hreinar línur um það.

Á hinn bóginn er það alveg víst, að engum datt það í hug á hv. Alþ., að ekki yrðu greiddar úr ríkissjóði þessar 38 millj., sem áttu að ganga til að greiða ábyrgðatöpin á árinu 1961, enda þurfum við ekkert um þetta að deila meira, því að þetta liggur alveg ljóst fyrir. Ríkisábyrgðasjóður er kominn í þrot, fyrst og fremst vegna þess að hann fékk ekki þessar 38 millj., sem hæstv. ráðh. segir nú, að hann hafi ekki þurft á að halda.

Nú getur hæstv. ráðh. e.t.v. sagt sem svo, að hann hafi ekki getað séð fyrir, hversu mikil ríkisábyrgðatöpin yrðu t.d. árið 1962. En ég fullyrði alveg hiklaust, að honum hlýtur að hafa verið alveg ljóst, að það þurfti að leggja út gífurlegar fúlgur vegna ríkisábyrgðanna, sem teknar höfðu verið fyri: togaraútgerðina og nema milljónatugum, eins og ég sýndi fram á síðast, þegar þessi mál voru hér til umr.

Hæstv. ráðh. ræddi nokkuð um, að hann vildi reyna að koma þessum málum í betra horf en þau hefðu verið, og m.a. væru allar þessar tilfæringar fram og aftur gerðar í því skyni. Og hann sagði hér áðan, að það mætti teljast til stórtíðinda að heyra fyrrv. fjármálaráðherra lýsa því yfir, að komið hefði fyrir á undanförnum áratugum, að veittar hefðu verið ríkisábyrgðir, þótt fyrirsjáanlegt hefði verið, að ekki gætið orðið staðið í skilum. Ég hef margoft lýst því yfir, og hv. Alþ. hefur verið það fullkomlega ljóst, að sú hefur verið framkvæmd þessara mála, að það hefur verið gengið í ríkisábyrgðir fyrir bæjar- og sveitarfélög sérstaklega í ýmsum dæmum, þó að fyrirsjáanlegt væri, að ekki væri hægt að standa í skilum með greiðslur af lánunum, a.m.k. fyrstu árin eftir að framkvæmdirnar áttu sér stað. Þetta hefur verið gert í mýmörgum dæmum víðs vegar um landið með fullu samþykki allra flokka á Alþ. og með fullu samþykki ráðh. úr öllum flokkum.

Kannske er það meiningin hjá hæstv. fjmrh. að deila á mig fyrir að hafa gengið í ríkisábyrgð fyrir Þorlákshöfn, tek það sem dæmi. Augljóst var hverju mannsbarni, að þegar ríkisábyrgðir voru teknar fyrir Þorlákshöfn, þá var óhugsandi, að hægt væri að standa í skilum með greiðslu vaxta og afborgana af þeim lánum fyrstu árin. Samt var gengið í þessar ríkisábyrgðir. Ber að skilja þessar ádeilur hæstv. ráðh. á mig þannig, að hann sé að deila á mig fyrir að hafa veitt ríkisábyrgðir við þessar aðstæður á Þorlákshöfn? Eða t.d. fyrir Sauðárkrók, Skagaströnd eða Akranes? Er það skoðun hæstv. fjmrh. núv., að það hafi verið hneyksli? Ekki varð annað ráðið af orðum hans en það hafi verið hneyksli að ganga í ríkisábyrgðir fyrir þessa staði, þó að það væri augljóst, að þeir gátu ekki greitt af lánunum. Það var fyrir fram augljóst um marga þessa staði, að þeir gátu ekki greitt af lánunum lengi vel. Hitt er svo annað mál, að menn gátu gert sér vonir um, að atvinnulif þróaðist svo á þessum stöðum, að þeir gætu síðar staðið í skilum. Þannig væri hægt að halda áfram að nefna dæmi, hliðstæð þeim, sem ég var að nefna núna og hæstv. fjmrh. telur hneyksli af minni hendi.

Ég skal fúslega taka við þeim vitnisburði frá honum, alveg fúslega og kvíði því ekkert að standa undir honum: Hitt er annað mál, hvort hæstv. fjmrh. stendur undir því, sem hann hefur sagt um þetta. Það er annað mál. Það er ekki aðeins, að það sé hægt að nefna þessi hafnarmannvirki, sem ég nú hef nefnt, heldur mætti einnig halda áfram og nefna t.d. rafveitur, sem staðið hafa undir ýmsum þýðingarmiklum byggðarlögum landsins, eins og t.d. rafveituna á Siglufirði og Andakíls

virkjunina, sem var alveg fyrirsjáanlegt að mundu ekki geta staðið fyrstu árin undir sínum greiðslum af ríkisábyrgðarlánunum. Og þannig mætti halda áfram að nefna mörg merkustu mannvirki á landinu, sem mundu aldrei hafa komizt upp, ef ætti að fylgja fram þeirri stefnu, sem hæstv. fjmrh. lýsir hér yfir í fljótræði sínu, að ekki sé annað meira sagt.

Svo er helzt að heyra, að hæstv, fjmrh. haldi því fram, að það hafi aldrei verið gerð nein tilraun til að semja um ríkisábyrgðir og fá greitt aftur það, sem út var lagt, fyrr en hann kom þarna. Þetta eru auðvitað hreinar blekkingar. Ég man eftir því á stundinni, að það var gerður samningur við Andakílsvirkjunina og fleiri stofnanir um endurgreiðslur á ríkisábyrgðarlánum. Það er ekkert nýtt. Slíkir samningar hafa verið gerðir þar, sem fyrirtækjum eða byggðarlögum hefur vaxið þannig fiskur um hrygg, að þau gátu farið að greiða aftur inn. Sannleikurinn er sá, að með þeirri einstrengingslegu stefnu, sem núv. hæstv. fjmrh. vill fylgja í þessu, verður lagður fjötur á margar þær þýðingarmestu framkvæmdir, sem þarf að vinna að í landinu, í mörgum kauptúnum og kaupstöðum. Það er sannleikurinn.

Hitt er svo annað mál og kemur til bjargar, að hæstv. fjmrh, getur ekki framkvæmt þessa stefnu og kiknar undir henni. Ætlar hæstv. ráðh. t.d. ekki að ganga í ríkisábyrgð fyrir nýja Þorlákshafnarláninu? Hafa verið lagðar fyrir hann áætlanir, sem sýna, að það sé undir öllum kringumstæðum klárt og ljóst, að Þorlákshöfn geti staðið í skilum með þetta nýja lán frá fyrsta gjalddaga og fram úr? Ég spyr: Ætlar hæstv. fjmrh. að neita Þorlákshöfn um ábyrgðina? Hefur hæstv. fjmrh. fengið óyggjandi greinargerð fyrir því, að Þorlákshöfn geti staðið fullkomlega í skilum frá fyrsta gjalddaga til hins síðasta? Vill hæstv. fjmrh. ekki gera svo vel að svara þessum spurningum?

Ég segi: Hæstv. ráðh. kiknar á þessu öllu saman, sem betur fer, vegna þess að Þorlákshöfn á að koma upp, jafnvel þó að hún geti ekki staðið undir vöxtum og afborgunum af lánum frá fyrsta gjalddaga, því að það getur hún ekki.. Eða kannske hæstv. fjmrh. ætli að leggja fram löggjöf um, að ríkissjóður leggi fram það fé, sem þarf til hafnarbyggingar í Þorlákshöfn umfram það, sem staðið verður undir af lánum, því að eitthvað var hann áðan að tæpa á slíku? En aðalstefna hans var, að ef það væri ekki alveg ljóst, að fyrirtækin gætu staðið undir lánum sínum frá fyrstu tíð, þá ætti að neita þeim um ríkisábyrgð, sagði ráðh., og það væri ömurlegt hneyksli að heyra fyrrv. fjmrh. lýsa því yfir á Alþ., að ríkisábyrgð kæmi til greina undir slíkum kringumstæðum. En svo tæpti ráðh. á, þó að það væri óljóst, að ef þyrfti að styðja slíkar framkvæmdir, þá yrði ríkíð bara að taka þeim mun meira á sig. Ætlar hann þá að leggja fram hér og fá samþykkt á Alþ. frv. um, að ríkissjóður leggi fram það, sem þarf til að greiða stofnkostnaðinn í Þorlákshöfn svo langt niður, að það sé alveg öruggt, að aldrei geti orðið um nein vanskil þar að ræða á greiðslum af hafnarlánunum? — Annaðhvort verður hæstv. ráðh. að standa ómerkur að öllu því, sem hann hefur sagt um þetta, eða hann verður að gera nánari grein fyrir þessu.

Ég tek Þorlákshöfn hér vegna þess, að þar er um eina merkilegustu framkvæmd á Íslandi að ræða, og Þorlákshöfn er líka alveg týpískt dæmi um það, sem hér er verið að deila um, og svo stórt og glöggt og ljóst dæmi, að það getur enginn verið í neinum vafa um, hvað hæstv. ráðh. talar gersamlega út í hött um þessi mál, einmitt þegar dæmi eins og Þorlákshöfn er tekið. En þó að ég taki hér Þorlákshöfn, þá er því sama til að dreifa um margar stórmerkar framkvæmdir víðs veg ar um landið, en bara smærri í sniðum. Ég tek stóra dæmið, vegna þess að það er svo ljóst, tek það eitt og læt það duga, af því að það er svo einfalt. Það gerir augljóst, að yfirlýsingar hæstv. ráðh. og gagnrýni hans, þetta er allt markleysa. Stefnuyfirlýsingarnar eru út í bláinn. Og ef hæstv. ráðh. fengi því ráðið að fara eftir því, sem hann lýsir yfir, þá sjáum við af þessu eina dæmi, í hvert óefni mundi leiða.

Hæstv. ráðh. var að tala um þessa óreiðustefnu, sem ég hefði staðið fyrir. Því miður hef ég ekki hér lista yfir útlagðar ábyrgðir í árslok 1958 og man ekki, hversu háa fjárhæð alls var þá búið að leggja út vegna ríkisábyrgða. En ég fullyrði, að þær fjárhæðir, sem þá var búið að leggja út vegna ríkisábyrgða, voru hreinir smámunir hjá því, sem síðan hefur verið lagt út vegna ríkisábyrgða af ríkisfé og úr þessum sjónhverfingasjóði vegna ríkisábyrgðanna.

Það eru tvær meginástæður fyrir því, að þessar fjárhæðir hafa vaxið svona mikið. Önnur ástæðan er sú, að á árinu 1961 — og ég hygg líka á árinu 1962, sérstaklega á árinu 1961, voru lagðar út háar fjárhæðir vegna fiskiðjuvera, fiskvinnslustöðva víðs vegar um landið. En slíkt hafði aldrei áður tíðkazt í svo stórum stíl. Ég hygg, að þetta hafi staðið að einhverju leyti í sambandi við löggjöfina um skuldaskil sjávarútvegsins. Þessar fjárhæðir voru að vísu yfirleitt greiddar vegna lána, sem búið var að taka ábyrgð á, áður en ég sleppti þessum málum. En ég hygg líka, að þessar fjárhæðir séu alls ekki tapaðar, þó að þær væru ekki innheimtar strax 1961. Þær munu yfirleitt skila sér þessar fjárhæðir. En áður, á meðan ég hafði með framkvæmd þessara mála að gera, söfnuðust yfirleitt alls ekki vanskilaskuldir upp vegna fiskiðjuveranna. Það var gengið frá því jafnóðum, nema í tveimur eða þremur dæmum eða svo, örfáum dæmum, sem vanskil urðu og húsin gátu ekki staðið í skilum, og þá voru þau hús boðin upp og urðu stundum eign ríkisins. Það var passað upp á þessar ábyrgðir. En 1961 var stórfé lagt úr ríkissjóði vegna ábyrgðanna fyrir fiskiðjuverin, og er það önnur aðalástæðan fyrir því, hversu töpin hafa verið miklu hærri nú síðustu missirin en áður.

En hin ástæðan, og langsamlega aðalástæðan, eru ríkisábyrgðirnar, sem teknar voru vegna kaupa á togurum á árunum 1959 og 1960 og eru mér alveg óviðkomandi, eru á ábyrgð þess stjórnarmeirihl., sem hæstv. fjmrh. talar hér fyrir. Og þær greiðslur eru svo gífurlegar, að allar aðrar greiðslur, sem komið hafa til greina vegna ríkisábyrgða, verða nánast dvergsmáar í samanburði við þær. Það leikur á 10-20 millj., sem ríkissjóður hefur orðið að leggja út fyrir einstaka togaraeigendur í sambandi við þessi lán. Þessi lán voru til tiltölulega skamms tíma og með allháum vöxtum, og ég leyfi mér nú að draga í efa, að sá fjmrh., sem tók þessar ábyrgðir, hafi getað gert ráð fyrir því, að þessar ábyrgðir yrðu áfallalausar fyrir ríkissjóð. Það var að vísu ekki núv. hæstv. fjmrh., sem tók þessar ábyrgðir, heldur annar ráðh. úr samstarfsflokki hans, en allar eru þær framkvæmdir að sjálfsögðu á ábyrgð þess stjórnarmeirihl., sem hæstv. fjmrh. talar fyrir. Ég mundi ekki tala mikið um óreiðu í sambandi við þessi mál, ef ég væri í sporum hæstv. fjmrh. og stjórnarmeirihl. Ég mundi ekki í sporum fjmrh. leyfa mér að gefa í skyn, að þau verk, sem ég hef sjálfur staðið að í þessu sambandi, eins og t.d. ríkisábyrgðirnar fyrir togarana, sem mestu valda nú um töpin, væru arfur frá öðrum. Ég mundi ekki leyfa mér að gera slíkt, að ógleymdri ríkisábyrgðinni fyrir Ásfjall h.f.

Ég held, að það væri lítil áhætta í því fyrir mig, að þessi mál yrðu borin saman, það yrðu t.d. bornar saman og skoðaðar þær ríkisábyrgðir, sem teknar voru fyrir 1958, og hvernig heppnazt hefur með þær annars vegar, og svo aftur þær, sem teknar hafa verið síðan, og hvernig heppnazt hefur með þær. Og ég held, að það færi vel á því fyrir hæstv. fjmrh. að tala um þessi mál með minni hroka.

Það væri líka fróðlegt í sjálfu sér, fyrst hæstv. fjmrh. gefur það í skyn, að þessi mál hafi verið mjög glannalega framkvæmd, og æskilegt, að hæstv. ráðh. hefði gert grein fyrir því, hvaða ríkisábyrgð hann á við, þegar hann talar um ríkisábyrgðir, sem hann telur að ekki hefði átt að veita. Eru það ríkisábyrgðirnar fyrir hafnargerðirnar víðs vegar, sem ég hef gert nokkuð að umtalsefni, fyrir rafveiturnar í einstökum byggðarlögum, eða hvað er það, sem hæstv. ráðh. á við?

Ég vil svo segja það að lokum, að ég held því hiklaust fram sem áður, að með því að fara að taka lán til þess að greiða ríkisábyrgðatöpin sé verið að skjóta ríkisútgjöldunum yfir á framtíðina. Það hefði verið eðlilegast að greiða töpin af ríkistekjunum jafnóðum, eins og gert var, og líka eðlilegast að greiða út fjárveitingu 1961, vegna þess að það þurfti á henni að halda, eins og reynslan sýnir ótvírætt. Nú gefur hæstv. ráðh. í skyn, að sú gagnrýni sé ekki réttmæt, vegna þess að það sé von á svo miklum tekjum eða endurgreiðslum inn á þennan reikning, sem hann kallar ríkisábyrgðasjóð. Því vil ég enn beina því til hæstv. ráðh., sem ég gerði um daginn, en hann sniðgekk alveg í sinni ræðu, að hann gefi okkur upp áætlun sína um útgjöld og tekjur ríkisábyrgðasjóðs eða þessa reiknings.

Hvað gerir ráðh. ráð fyrir, að þurfi að leggja út marga milljónatugi, t.d. á þessu ári, vegna togaraábyrgðanna og svo vegna annarra ábyrgða? Hvað býst hann við að fá mikið inn? Ég álít, að það eigi að koma fram áætlun, og réttmætt að óska eftir því, að það komi fram áætlun um þetta. Og ef hæstv. ráðh. hefur ekki enn búið sig út með þá áætlun, þá mundi ég telja sjálfsagt, að sú áætlun yrði lögð inn i fjhn., sem væntanlega fær þetta mál.