02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Eysteinn Jónsson:

Ég skal ekki níðast á því, að ég hef aðeins athugasemd. — Hæstv. ráðh. vill ekki játa, að hann hafi viljað punta upp á afkomuna 1961 með því að láta undir höfuð leggjast að greiða þessar 38 millj. til ríkisábyrgðasjóðs. Augljóst er þó, að þetta var til þess gert og til viðbótar til þess að punta upp á þetta ár. Þegar hæstv. ráðh. sá fram á hallann, tók hann líka gengishækkunina á birgðum sjávarvaranna og lét svo allar greiðslur af ríkisábyrgðalánum ganga yfir á þennan reikning, sem við höfum hér verið að ræða um og hæstv. ráðh. kallar ríkisábyrgðasjóðinn. Ef hæstv. ráðh. hefði ekki tekið þennan gengishagnað af sjávarútveginum og komið yfir á hann ríkisábyrgðagreiðslum, þá hefði orðið greiðsluhalli á árinu 1961. Þetta stendur fast.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ósanngjarnt að vera að fara fram á áætlanir, því að þær hlytu að verða út í bláinn. En ég svara: Einhver áætlun hlýtur að liggja til grundvallar því, að hæstv. ráðh. fer fram á einmitt 50 millj., en ekki einhverja allt aðra tölu. Einhver áætlun hlýtur að hafa verið gerð.

Hæstv. ráðh. segir, að ríkisábyrgðir komi ekki á almenning, ef það sé tekið lán, en aftur á móti á almenning, ef þær séu greiddar beint út af ríkistekjunum. Þetta er auðvitað alveg rangt. Almenningur verður að greiða lánið, svo framarlega sem ekki koma tekjur upp í það annars staðar frá eða innheimt er af útistandandi gjöldum Alveg sama verður upp á teningnum, þótt þetta sé lagt út af tekjum ríkisins.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri hneykslanlegt, að ég skyldi lýsa því yfir, að ríkisábyrgðir hefðu verið teknar, þótt augljóst væri, að vegna þeirra yrði ríkið að leggja út einhverja fjármuni. Þetta væri hneyksli, sagði hæstv. ráðherra, þetta væri vanskilastefna, og nú væri breytt um og ætti að taka upp nýja stefnu. Ég bað hæstv. ráðh. að athuga um Þorlákshöfn t.d. og þær ábyrgðir, sem yrði að taka vegna hennar, ef hún ætti ekki að stöðvast. Hvað segir svo hæstv. ráðh. um það? Jú, hann segir: Vaxtahallinn á Þorlákshöfn á árinu 1963 verður greiddur af framlagi á fjárlögum og framlagi úr hafnarbótasjóði. Segjum það, á meðan höfnin er í byggingu. En hvað verður um vaxtahallann á höfninni 1964, 1965, 1966 og 1967, sem auðvitað verður stórfelldur. Auðvitað verður hann greiddur úr ríkissjóði. Þetta heitir að svara út úr. Þetta er þó kannske ekkert einkennilegt, þegar þess er gætt, að það er ekki sársaukalaust fyrir hæstv. ráðh. að verða að játa, að stefnuyfirlýsing hans í þessu efni er markleysa, því að hann er þegar farinn að brjóta hana sjálfur.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ósvinna af mér að fara fram á það við sig að nefna dæmi þeirri fullyrðingu sinni til stuðnings, að það hefði verið óreiða á ríkisábyrgðunum og hefði átt að reka allt aðra ríkisábyrgðapólitík. Það er ákaflega auðvelt að kveða upp sleggjudóma, en það getur verið erfiðara að standa

við þá, og ég bað hæstv. ráðh. að svara því, hvort hann ætti við ábyrgðirnar fyrir Þorlákshöfn, fyrir Akraneshöfn, fyrir Sauðárkrókshöfn, fyrir Skagastrandarhöfn, fyrir Skeiðsfossvirkjunina, Andakílsvirkjunina, og þannig mætti lengi telja. Þá kiknaði hæstv. ráðh. og vildi ekki segja, að neitt af þessu hefði verið óreiða eða ófyrirsynju gert. En er það nokkur ósanngirni að fara fram á, að sleggjudómar séu rökstuddir? Það var ekkert annað, sem ég fór fram á.