04.03.1963
Neðri deild: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Tvö kauptún, Þórshöfn og Grindavík, hafa staðið í því undanfarin 2 ár að eignast nokkur landsvæði, sem þau hafa talið sér nauðsynlegt að eignast vegna bygginga í kauptúninu og í grennd við höfnina sem athafnasvæði. Mörg önnur kauptún og sjávarþorp og raunar kaupstaðir einnig hafa verið í ýmsum athugunum í þessu sambandi á undanförnum árum, þó að ekki sé jafnlangt komið og hjá þessum tveim stöðum, sem ég nefndi. Eignarnámsmat hefur þar farið fram á báðum stöðunum, bæði undirmat og yfirmat, og nemur matsverðið á öðrum staðnum 3.9 millj. kr. rúmum og á hinum 7.2 millj. kr. rúmum.

Nú eru til lög um jarðakaup ríkisins, nr. 64 frá 1941, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður geti hlaupið í skarðið og keypt lönd fyrir hreppsfélög, eða eins og það er þar orðað: fyrir kauptún og sjávarþorp, — en ekki kaupstaði, þeir eru undanskildir, — og afhent sveitarfélögunum síðan á leigu með vægum kjörum eða selt þeim á kostnaðarverði með lágum vöxtum og lánað kaupverðið til langs tíma. En sá galli er á, að þar er aðallega átt við ræktunarlönd, sem gert er ráð fyrir að hægt sé að kaupa lágu verði. Þegar verðið er orðið slíkt sem ég nefndi, er sýnt, að ríkissjóður getur ekki gengið inn í þessi kaup, nema sérstakt fé sé áætlað í þessu skyni í fjárlögum, enda hefur sú orðið raunin á, að þessi lög hafa ekki komið til framkvæmda eða verið notuð nema í örfáum tilfellum, ég ætla í fjórum eða fimm tilfellum.

Þegar þess vegna þessi sveitarfélög, sem ég nefndi, leituðu til félmrn. um aðstoð og fyrirgreiðslu í sambandi við landkaupin, var ljóst, að þessa aðstoð mundi vart hægt að veita á grundvelli þessara laga, enda eru þau samin og hugsuð á allt öðrum forsendum. Varð þetta til þess, að jarðeignamál kaupstaða og kauptúna voru öll tekin upp til athugunar, og er þetta frv. einn þátturinn í þeirri athugun, eða réttara sagt niðurstaðan af athugunum. Komu þar raunar fleiri til en fulltrúar þeirra staða, þar sem skórinn kreppti fastast, og lögðu sitt lið til þess, að lausn, sem viðunandi væri, fengist.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram árlega 2 millj. kr. í 10 ár, á árunum 1963—72, sem stjórninni sé heimilt að lána kaupstöðum og kauptúnum til þess að kaupa lönd og lóðir innan takmarka hlutaðeigandi sveitarfélags. Lán þessi mega nema allt að 60% af kostnaðarverði hins keypta lands, en jafnframt er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast afganginn, eða alít að 40% af kaupverðinu, en ef svo semst á milli sveitarfélags og seljanda, að sveitarfélag megi greiða landið með skuldabréfum, þá er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast allt að 100% af fjárhæð bréfsins.

Lánstíminn skv. lögunum er áætlaður 25 ár, og þá eru vextir, á núgildandi mælikvarða a.m.k., tiltölulega lágir eða 5%. Skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni er, að ríkisábyrgðarlánið sé að dómi ríkisstj. með svo hagstæðum kjörum, að sveitarfélagið fái risið undir því, og yfirleitt er gert ráð fyrir því, að til þessarar aðstoðar ríkisins komi ekki, nema nokkurn veginn sé sýnt eða nokkurn veginn öruggt, að viðkomandi sveitarfélag geti staðið undir þeim skuldbindingum, sem landkaupunum fylgja.

Í fjárl. yfirstandandi árs, eða ársins 1963, er gert ráð fyrir fyrstu greiðslu í þessu skyni, 2 millj, kr., sem ætlað er að hefja þessa starfsemi með, og hefur þessi upphæð þegar verið notuð með þeirri heimild, sem fyrir er í 1., sem ég nefndi, nr. 64 frá 1941, til þess að leysa mál eins sveitarfélags, eða annars þeirra sveitarfélaga, sem ég nefndi, þ.e.a.s. Þórshafnar, og hefur sú upphæð nægt til þess, að vandkvæði eða erfiðleikar þess sveitarfélags í sambandi við landkaupin hafa verið í bili, að ég ætla, að fullu leyst. Hins vegar hefur ekki með þessu fjárframlagi verið hægt að leysa vandkvæði Grindavíkurkauptúns, en það bíður næstu fjárúthlutunar eða fjárútvegunar í væntanlegum fjárl. 1964, og ýmsir aðrir, eins og ég mun koma að hér síðar, bíða mjög eftir, að fyrirgreiðsla af þessu tagi fáist.

Í sambandi við þessa endurskoðun hefur í félmrn. verið gert yfirlít yfir, hvernig jarðeignamál og lóðamál kauptúna og kaupstaða standi, með tilliti til þess, hverja muni þurfa að aðstoða á næstunni, öllum er ljós þörfin á því, að sveitarfélögin sjálf eigi landið, sem þau standa á, og næsta nágrenni til þess að geta komið í veg fyrir óhóflegt gróðabrall og ört hækkandi verð fyrir landið, sem víða virðist vera að kollkeyra byggingastarfsemina á staðnum, ef ekki verður úr bætt mjög fljótlega og með einhverjum ráðum reynt að gera viðkomandi sveitarfélagi kleift að eignast landið og ráða landverðinu.

Þessi skýrsla, sem félmrn. hefur gert um þörf kaupstaða og kauptúna fyrir aukið landrými, er það fróðleg, og ég tel, að hv. alþm. mættu gjarnan kynnast niðurstöðum þeirrar athugunar, og skal því leyfa mér að lesa upp a.m.k. nokkra kafla úr þessari athugun, sem gerð hefur verið um málið. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Um kaupstaðina er það að segja, að þeir eiga allir nægilegt eða viðunandi landrými nema Keflavíkurkaupstaður. Þar er ástandið hvergi nærri gott, því að bæjarsjóður á lítið sem ekkert af landi því, sem kaupstaðurinn stendur á. Eigendur bæjarlandsins eru Keflavík h/f, sem á um helming þess lands, sem byggt er, þ.e. fyrir vestan Tjarnargötu, og landeigendur Ytra-Njarðvíkurhverfis og Vatnsness eiga landssvæði þar fyrir austan. Lóðaleigur hafa farið ört vaxandi síðustu áratugi, eða úr 10 aurum á fermetra á íbúðarhúsalóðum árið 1950 í kr. 1.05 á fermetra nú. Leiga fyrir verzlunarhúsalóðir er nú kr. 2.30 á fermetra. Hækkandi lóðaleigur hafa m.a. valdið því, að meiri áhugi er nú en áður hjá bæjarstjórn og bæjarbúum yfirleitt, að bærinn eignist sjálfur mest af landinu. Um aðra kaupstaði hefur ekki verið gert yfirlit, vegna þess að talið er, að þeir muni yfirleitt eiga meginið af landi því, sem þeir eru byggðir á, þó að nokkur frávik séu þar frá, annaðhvort þeir sjálfir eða ríkið, sem ávallt hefur með hagstæðum kjörum hjálpað viðkomandi sveitarfélögum til þess að komast yfir þessa erfiðleika.

En þau kauptún, sem segja má að líklegt sé að þurfi á aðstoð að halda á næstunni, eru þessi:

1) Sandgerði eða Miðneshreppur. Þar eru aðeins um 10 hektarar sunnan hafnarinnar og 2–3 hektarar annars staðar í eigu hreppsins. Allt annað land í hreppnum er eign einstaklinga, aðallega Miðness h/f og Garðs h/f. Um það bil í miðju kauptúninu eru jarðirnar Krókskot og Landakot, en sunnar svonefndar Bæjarskersjarðir. Fyrir um það bil 2–3 árum var samþ. í hreppsnefnd Miðneshrepps, að hreppurinn skyldi reyna að ná eignarhaldi á sem mestu af lóðum þar í hreppi, byggðum og óbyggðum, bæði innan og utan hins skipulagða svæðis. Skipulagsstjóri ríkisins vinnur nú að kortlagningu þessa svæðis, sem hreppsnefndin hyggst eignast, og má áætla stærð þess a.m.k. 1160 hektara. Þegar kortlagningu landsins er lokið, má búast við, að hreppsnefndin hefjist þegar handa um að tryggja sér land þetta, og hafa hreppsnefndarmenn í viðræðum við ráðuneytið tjáð, að leitað verði aðstoðar ríkisins um það, að svo megi verða.

2) Patreksfjörður. Patreksfjarðarhreppur á aðeins 1/10 af lóðum og landi þar í hreppi, þ. á m. hafnarsvæðið. Ólafur Jóhannesson h/f á Vatneyrarland, en dánarbú Sigurðar Andrésar Guðmundssonar Geirseyrarland. Hreppsnefnd Patrekshrepps vill, að hreppurinn eignist Geirseyrarland, og hefur ekkjan, sem situr í óskiptu búi, sem á Geirseyrina, óskað eftir, að hreppsnefndin geri dánarbúinu tilboð, og má búast við, að það verði gert. Talað hefur verið um 2 millj. kr. sem hugsanlegt kaupverð þess lands.

3) Súðavík. Þorpið stendur í landi jarðanna Súðavíkur, Traðar, Saura og Eyrardals, en þær eru í einkaeign nokkurra manna. Hreppurinn á aðeins litla lóðarspildu við höfnina. Eigandi Súðavíkurjarðar, en aðalbyggðin er í landi þeirrar jarðar, mun tilleiðanlegur að selja hreppnum jörðina, og hefur verið talað um 700–500 þús. kr. kaupverð. Líklegt er, að hreppsnefnd Súðavíkurhrepps biðji bráðlega um aðstoð ríkisins í sambandi við þau kaup.

4) Eskifjörður. Lóðir hreppsins eru að miklu leyti í einkaeign, en ríkissjóður á Mjóeyri. Næst Mjóeyrinni er land jarðarinnar Svínaskála. Hreppsnefnd Eskifjarðar hefur reynt að ná eignarhaldi á þessari jörð og boðið í hana 150 þús. kr., en því tilboði hefur eigandinn hafnað og talið, að hún sé ekki föl fyrir minna en 300—350 þús. kr. Þess skal getið, að Mjóeyrarland er leigt nokkrum einstaklingum og leigutíminn er ekki útrunninn fyrr en árið 1998.

5) Búðakauptún eða Fáskrúðsfjörður. Þar eru lóðir í kauptúninu nálega allar í einkaeign. Byggðin er i landi jarðarinnar Búða. Jörðin mun föl, en ætlað, að kaupverð hennar verði nokkuð hátt. Áhugi er á því ríkjandi hjá sveitarstjórninni að eignast jörðina með aðstoð ríkisins.

Þá er rétt að geta nokkurra kauptúna, sem ekki er ólíklegt að þurfi einhvern tíma á næstu árum aðstoðar ríkisins til þess að eignast lóðir og lönd, þó að þess þurfi ekki að sinni.

Þar er í fyrstu röð Flatey á Breiðafirði. En lóðir og lönd í Flatey eru aðeins að 1/8 eign Flateyjarhrepps. Hinir 7/8 hlutarnir eru í einkaeign. Eigendur eru allmargir og nær allir búsettir utan Flateyjar. Ef þessi staður á yfirleitt einhverja framtíð fyrir sér, verður varla hjá því komizt að aðstoða hreppinn til að eignast alla Flateyjarjörðina.

Þá er Hólmavík. Allar lóðir og lönd í Hólmavíkurkauptúni eru í einkaeign. Hreppurinn á aðeins 1/5 hluta jarðarinnar Kálfaness, en það mun vera rétt utan við kauptúnið. Augljóst virðist, að nauðsynlegt er fyrir Hólmavík að eignast lóðirnar, sem kauptúnið stendur á, en hreppsnefndin hefur þó enn sem komið er enga samþykkt gert í þá átt.

Þá er Dalvík. Kauptúnið er í landi Böggvisstaða og Brimness. Hreppurinn á Böggvisstaði, en Brimnes er eign dánarbús Stefáns Jónssonar. Sveitarstjóri Dalvíkurhrepps telur, að samningar um kaup jarðarinnar muni líklegir, en verið geti, að hreppurinn verði að fá aðstoð, og ég ætla, að það sé komið nokkuð á veg að semja við eiganda þessarar jarðar hjá sveitarstjórn Dalvíkur.

Um Höfn í Bakkafirði segir, að þorpið stendur í landi jarðarinnar Hafnar í Skeggjastaðahreppi, og á Skeggjastaðahreppur hana að 1/3, en 2/3 hlutar hennar eru í einkaeign. Þann hluta þyrfti hreppurinn að eignast eða fá leigðan fyrir þorpsbúa til afnota fyrir þá. Engin alvarleg hreyfing er enn þá hjá hreppsnefndinni varðandi kaup á nefndum jarðarhluta.

Þá er Reyðarfjörður. Lóðirnar í kauptúninu eru að mestu í einkaeign. Hreppurinn hefur á leigu jörðina Kollaleiru, sem er ríkiseign. Hreppsnefndin hefur athugað um kaup á jörðinni Bakkagerði, en hún mun dýrseld. Hins vegar hefur leigu eftir lóðir og lönd á jörðinni verið í hóf stillt, þannig að ekki þarf að óbreyttu ástandi í þeim málum að búast við, að hreppsnefndin verði alvarlega í kaupaþörf.

Um Breiðdalsvík er það að segja, að lóðir og lönd eru eign nokkurra þorpsbúa.

Um Vík í Mýrdal segir, að kauptúnið er í landi jarðanna Suðurvikur og Norðurvíkur. Þær eru í einkaeign og nytjaðar sem bújarðir, en hreppurinn á jörðina Engigarð, sem er um 3—4 km utan við kauptúnið. Leigugjöld eftir byggingarlóðir og ræktunarlönd eru svo lág í Vík, að enginn áhugi er fyrir því, að hreppurinn leggi út í að kaupa nefndar jarðir eða hluta af þeim.

Um Stokkseyri segir, að lóðir og land hreppsins eru að ca. 80% eign ríkissjóðs, en að nokkru í einkaeign. Hreppsnefndin vill kaupa ríkislandið, og má búast við, að úr þeim kaupum verði. Hins vegar mun áformað, að ríkið kaupi 2 smábýli fyrst, sem eru í hreppslandinu, og selji síðan Stokkseyrarhreppi allt landið.

Um önnur sveitarfélög má segja eftirfarandi:

Borgarnes. Lóðir og land í kauptúninu eru eign hreppsins, einnig jörðin Hamar ofan við kauptúnið.

Hellissandur. Lóðir og land eru eign ríkisins.

Ólafsvík. Hreppurinn á Ólafsvíkurjörð, sem kauptúnið stendur á, einnig jörðina Fossárdal innan við kauptúnið.

Grafarnes. Mestur hluti lóðanna í þorpinu er i ríkiseign. Aðrar lóðir og land umhverfis þorpið eru í einkaeign.

Stykkishólmur. Lóðir og land eru að langmestu leyti eign hreppsins.

Bíldudalur. Lóðir og land kauptúnsins að mestu leyti eign hreppsins.

Suðureyri. Kauptúnið stendur í landi jarðarinnar Suðureyrar, sem Suðureyrarhreppur eignaðist á s.l. ári með aðstoð ríkisins.

Bolungarvík. Hreppurinn á mestan hluta byggingarlóðanna, hinn hlutinn er í einkaeign.

Hnífsdalur. Hreppurinn á meiri hluta af landi því og lóðum, sem kauptúnið stendur á.

Drangsnes. Lóðir allar og land eru opinber eign.

Hvammstangi. Hreppurinn á meiri hluta lóðanna í kauptúninu og nóg ræktunarland.

Blönduós. Lóðir og land eru eign hreppsins.

Skagaströnd. Lóðir og land jarðanna Höfðahóla, Spákonufells og Finnsstaða eru eign ríkisins og hreppsins og ræktanlegt land geysimikið.

Hofsós. Lóðir og land eru eign Hofsóshrepps. Landrými er mikið. Landið eignaðist hreppurinn með aðstoð ríkisins, einmitt skv. l. nr. 64 1941 á árinu 1951.

Hrísey. Lóðir og land eru eign Hríseyjarhrepps.

Raufarhöfn. Lóðir og land eru eign hreppsins, síðan hann keypti Raufarhöfn af ríkinu á s.l. ári.

Vopnafjörður. Lóðir og land eru eign hreppsins, þar með talið allmikið ræktanlegt land í grennd við kauptúnið.

Bakkagerði í Borgarfirði eystra. Lóðir og land eru að mestu í eign hreppsins. Hinn hlutinn er í einkaeign. Landrými er mikið og ræktunarskilyrði góð.

Stöðvarfjörður. Síðan hreppurinn eignaðist jörðina Einarsstaði á árinu 1959 með aðstoð ríkisins, á hreppurinn nægilegt land.

Djúpivogur. Kauptúnið er byggt í landi jarðarinnar Búlandsness, sem er kristfjárjörð, og hefur kauptúnið jörðina alla til afnota með góðum kjörum.

Höfn í Hornafirði. Allar lóðir og land eru ríkiseign.

Eyrarbakki. Allar lóðir og land eru eign hreppsins, síðan hreppurinn keypti landið af ríkinu árið 1957.

Selfoss. Árið 1938 keypti hreppurinn allar lóðir innan skipulagða svæðisins. Enn keypti hreppurinn lönd til viðbótar á árinu 1943 og loks alla jörðina Helli í Ölfusi 1957.

Hveragerði. Lóðir og land í Hveragerðishreppi eru að mestu leyti í ríkiseign. Þorlákshöfn. Árnessýsla og Rangárvallasýsla eiga allt land Þorlákshafnar.

Ég hygg, að af þessari upptalningu megi sjá tvennt:

1) Að þessi vandamál sveitarfélaganna, kauptúnanna og kaupstaðanna eru að verulegu leyti í sæmilegu horfi, þannig að þessi kauptún og þessir kaupstaðir eiga margir hverjir mikið af því landi, sem þeir þurfa til íbúðarhúsabygginga og til atvinnurekstrar, en þó er þarna verulegur hluti, sérstaklega af kauptúnunum, þar sem eru Sandgerði, Patreksfjörður, Súðavík, Eskifjörður, Búðakauptún, þessi 5 og Keflavíkurkaupstaður kalla áreiðanlega mjög bráðlega á aðstoð ríkisins við lausn landa- og lóðamála sinna. Með þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram, er leitazt við að verða við þessum óskum á þann hátt, sem viðráðanlegt er talið fyrir ríkissjóð. Það er alveg greinilegt, að þarna getur verið um svo stórar upphæðir að ræða, að ekki sé unnt fyrir fjmrh. eða ríkisstj. að takast á hendur þær greiðslur, sem þörf er á, nema því aðeins að heimild komi til í sérstökum lögum, eins og hér er gert ráð fyrir, og þá síðar ætlað fé í fjárlögum. Sem sagt, þetta frv. er tilraun til að leysa úr allmiklum vanda, vil ég segja, og ég tel, að þó að upphæðirnar séu ekki mjög stórar, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði og í ýmsum tilfellum geta verið ónógar, ég skal viðurkenna það, þá sé þó hafizt handa um viðfangsefnið, og ég vona, að með þessu frv. náist nokkur lausn.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til heilbr.- og félmn. — væntanlega — eða fjhn., ég læt það alveg á vald forseta, hvort hann vill. En ég held, að það sé meira félagsmál og kaupstaðamál, þó að það kosti nokkurt fé, þannig að það megi þangað fara. Það er till. mín.