04.03.1963
Neðri deild: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. félmrh., að ég tel mikla þörf á framkomu þessa frv., því að mér er kunnugt um, að mörg sveitarfélög á landinu, einkanlega kauptúnahreppar, hafa verið í miklum vanda stödd vegna landþrengsla. Það er að vísu svo, að lögin frá 1941 um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa áttu vafalaust að bæta þarna nokkuð úr og hafa í einstökum tilfellum gert það, einkanlega þegar þorpin hafa verið í mikilli landkreppu í sambandi við ræktunarþörf. En að því er snertir að bæta úr byggingarlóðaþörf á hinu skipulagða svæði kauptúnanna, hafa þessi lög frá 1941 lítið bætt úr skák í flestum tilfellum og þessi landskortur sveitarfélagsins orðið til þess að setja byggingarframkvæmdir, jafnvel nauðsynlegustu opinberra bygginga, í spennitreyju og stöðva þær um lengri eða skemmri tíma.

Það er mönnum löngu kunnugt, að það er fátt eins óþægilegt bæjarfélagi eða yfirleitt skipulagðri byggð eins og það að reka sig hvarvetna á einkaeignarrétt á landi og verða að láta það ráða staðsetningu húsa og í mörgum tilfellum helztu grundvallarreglum skipulags, því að þá verður skipulag með engu heildarfyrirkomulagi framkvæmt. Bæjarfélögin flest hafa fyrir svo löngu rekið sig á þetta, að þau hafa leitazt við að bæta úr þessu og útvega sér meginhluta þess lands, sem kaupstaðirnir eru byggðir á, og kom það einmitt fram í ræðu hæstv. ráðh., að flest bæjarfélögin væru þannig stödd, að þau hefðu leyst þessi mál í aðalatriðum og væru ekki eins illa á vegi stödd og kauptúnin. En samt er það svo, að einstöku kaupstaðir eiga allan eða meginhluta síns skipulagða bæjarsvæðis í einkaeign og eiga þar gegn eignarréttinum að sækja.

Þetta hefur, eins og hæstv. ráðh. upplýsti, í Keflavíkurkaupstað leitt til óheyrilega hárrar lóðaleigu, sem vitanlega verður til þess að hækka húsaleiguna í þeim kaupstað, en þarna er svo komið, að kr. 1.15 verður að greiða í leigu á ári á hvern fermetra lands undir íbúðarhúsnæði og á 3. kr. á fermetra lands i leigu, þegar um verzlunarlóð er að ræða. Þarna er vitanlega um verðhækkanir að ræða vegna almennrar þjóðfélagsþróunar, vaxtar og viðgangs bæjarfélags, en ekki af því, að nokkur einstaklingur hafi lagt neitt af mörkum í erfiði, vinnu eða neinum öðrum verðmætum frá honum sjálfum til þess að hækka landið í verði. En svo er komið einmitt, að vegna þess að kauptúnin eiga nú ekki annars kost en að afla sér hins nauðsynlegasta lands, þá reka þau sig á það, að landið hefur hækkað gífurlega í verði. Og þó að leitað sé mats og yfirmats, þá verður niðurstaðan sú, að landið er orðið svo verðmætt vegna almennra aðgerða, að sveitarfélögin rísa naumast undir því að útvega slíkt fé, og ef ráðizt væri í kaupin samkv. niðurstöðu slíks mats, þá færi oft svo, að þetta legðist sem lítt bærilegur skattur á notendur þess húsnæðis, sem þar væri reist.

Málið er því orðið mikið vandamál, og hefði þurft að leysa það með einhverjum hætti fyrir löngu. Það hefði t.d. mátt gera ófýsilegra fyrir menn að eiga slík lönd og lóðir á skipulögðu svæði með því að setja á það verðhækkunarskatt, sem væri ákveðinn af hinu opinbera og tæki í burt megingróðamöguleikann af því að eiga land á slíkum stöðum, þannig að það væri auðveldara að koma því í það eðlilega horf, að hið skipulagða landssvæði í fjölbýli væri eign hins opinbera. Og mér er nær að halda, að þess sé full þörf enn, þótt þessi löggjöf komi, að setja verðhækkunarskatta á slík lönd og lendur, til þess að verðhækkunin haldi ekki áfram og sveitarfélögin rísi ekki, þegar fram liða stundir, undir því að taka landið til sín þrátt fyrir heimildir til þess. Ég er afar hræddur um, að verðhækkunin haldi áfram á slíkum löndum, ef ekki kemur til verðhækkunarskattur, sem greiðir fyrir því, að kaup og sala fari fram á þessum löndum og hið opinbera verði eigandinn.

Mér er alveg sérstaklega kunnugt um eitt þorp á Vestfjörðum, Súðavík, sem hér var nefnd í skýrslu hæstv. ráðh., í hvaða úlfakreppu það er búið að vera lengi vegna skorts á landi, vegna þess að allt landið, sem kauptúnið stendur á, er eign jarðanna Súðavíkur, Traðar og Eyrardals. Það eru meira en 30 ár síðan þetta þorp var þannig statt, að þar var skólahúsið komið að falli, þar var lítið samkomuhús, sem verið hafði í þorpinu, komið að falli, og hvort tveggja talið ónothæft af heilbrigðisyfirvöldum. Þá vildu þrjú félagasamtök í kauptúninu koma upp félagsheimili, og í þessum félögum var sennilega meiri hluti íbúanna í þorpinu. En þegar þetta fólk í félögunum leitaði til jarðeigendanna þriggja til þess að fá lóð, bara nauðsynlegustu lóð til þess að setja hið nýja félagsheimili á, fékkst ekkert slíkt land. Það tók á annað ár, þangað til einn maður, sem átti þarna jarðarskika auk þessara þriggja jarðeigenda, fékkst til þess að selja félögunum 500–600 fermetra skika undir húsið. En slík var þörfin fyrir þetta hús, að undireins og það var komið upp, varð að taka það til notkunar sem ekki aðeins samkomuhús, eins og það var ætlað til, og fyrir félagastarfsemina, heldur einnig sem skólahús og kirkju, og gegndi það því hlutverki milli 25 og 30 ár. En það ætlaði sem sagt að ganga erfiðast af öllu fyrir þessi félög að komast af stað með bygginguna fyrir allar þessar þarfir fólksins í sveitarfélaginu vegna jarðeigendanna, sem höfðu ekki skilning á að láta þetta land af hendi.

Þó hefur Súðavíkurhreppur komizt í hann enn þá krappari núna á seinustu árum, þegar um það var að ræða, að sveitarfélagið ætti að sjá fyrir landi undir verkamannabústaði, en samkv. l. á bæjarfélag eða sveitarfélag, sem vill verða aðnjótandi hlunnindanna, sem felast í l. um verkamannabústaði, að leggja fram slíkar lóðir undir verkamannabústaðina, og það verður að liggja fyrir, til þess að byggingarfélag geti þar starfað og fengið lánveitingu samkv. lögum. En á s.1. tveim árum hefur staðið í stappi um það að fá land undir verkamannabústaði í Súðavíkurþorpi, en Súðavíkurþorp mun vera einna verst statt allra sjóþorpa á Vestfjörðum í húsnæðismálum, og þar er vafalaust höfuðorsökin sú, að ekki var auðfengið fyrir einstaklinga land undir íbúðarhús.

Mér er kunnugt um það, að forráðamenn sveitarfélagsins leituðu á liðnu ári til félmrn. um það að reyna að fá þessi mál leyst, voru búnir að leitast við að fá eina af þessum jörðum keypta. Gekk erfiðlega að ná samkomulagi um verðið, og sýnt þótti, að þó að jörðin væri sett undir mat og yfirmat, þá yrði þarna um jafnvel stærri upphæðir að ræða en svo, að þetta fámenna sveitarfélag risi undir. Með svona bráðabirgðaúrlausn var herjað út land undir verkamannabústaði þar á s.l. ári og byrjað á byggingunum, án þess þó að fullnægt væri l. um verkamannabústaði að því leyti, að sveitarfélagið væri öruggt um að geta lagt þessar lóðir undir verkamannabústaðina fram. Af þessu mega menn sjá, að það er a.m.k. fyrir þetta kauptún ákaflega brýn nauðsyn, eins og þau tvö, sem hæstv. ráðh. nefndi, að fá aðstoð ríkisins til þess að hið nauðsynlegasta byggingarland í kauptúninu verði eign sveitarfélagsins, og þar má áreiðanlega ekki lengi draga aðgerðir, ef í raun og veru á ekki að verða óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir íbúa Súðavíkurþorps að geta byggt sér bráðnauðsynlegasta íbúðarhúsnæði. Og þannig mun ástandið raunar vera víðar.

Vitanlega ber að leita allra ráða til að fá samkomulag við landeigendur un: að kaupa slík lönd og slíkar lóðir, og það munu sveitarstjórnirnar vafalaust gera á hverjum stað. En jarðeigendurnir eru sér þess meðvitandi, að almenna þróunin hafi margfaldað verðmæti þessa lands, og þess vegna ganga þeir eftir því og vita, að ekki er í önnur hús að venda með það að bæta úr landsskortinum.

Ég sé það, að í 6. gr. þessa frv. er heimild að taka löndin og lóðirnar eignarnámi. En það verður vitanlega að gera samkv. l. nr. 61 frá 14. nóv. 1917, og er ég hræddur um, að verðið geti, verði ekki neinar sérstakar ráðstafanir gerðar, orðið æðihátt í ýmsum tilfellum, því að þarna er maður kominn að ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, og er víst ekkert, sem þar getur úr skorið um réttmætt verð, nema opinbert mat. En opinberar virðingargerðir, þegar hefur staðið á líkt þessu, hafa yfirleitt lent í mjög háum upphæðum, eins og ráðh. raunar minntist á. En á því sé ég ekki að verði breyting með þessu frv., sem hér er lagt fram, og er þar vafalaust ekki gott við að gera. Almannaþörf heimtar þarna, að landið sé tekið eignarnámi, og það eitt er heimilt samkv. stjórnarskrá, en verðið verður ákveðið af opinberum, dómkvöddum matsmönnum. Og ég er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, ákaflega hræddur um það, að verðhækkanirnar á slíkum löndum, meðan þau eru í einstaklingseign í námunda við hafnarstæði eða i hjarta kauptúns, sem er í vexti, haldi áfram að aukast, þangað til óviðráðanlegt er fyrir fólkið, sem við á að búa, að borga af því skatta og skyldur, nema því aðeins að verðhækkunarskattar verði látnir koma til, svo að það verði ekki fýsilegt fyrir einkaeigendur að halda þessu landi í von, jafnvel vissu um áframhaldandi verðhækkanir, sem þeir þurfa ekkert annað en bíða eftir.

Það verður áreiðanlega ekki um það deilt, að einkaeign á landi er samfélaginu óhollt fyrirbæri í slíkum tilfellum sem þessum, og kauptúnin hafa líka borið upp raunir sínar við ríkisstj. og óskað úrræða til þess að geta orðið eigendur að því landi, sem þau eru byggð á, og sú þörf er nú í raun og veru af flestöllum viðurkennd.

Ég held, að frv. þetta sé að flestu til bóta frá löggjöfinni frá 1941, og fagna þessu frv. og mun af alhug fylgja því. Ég held þó, að ein breyt., sem gerð er hér og nefnd í grg., sé ekki til bóta. Það er í l. frá 1941 ákveðið, að land, sem sveitarfélögin hafa fengið aðstoð ríkisins til þess að kaupa, megi ekki selja aftur nema með samþykki ríkissjóðs. Það ákvæði virðist mér vera verndarákvæði gagnvart því, að slík lönd geti aftur farið að ganga kaupum og sölum og haldið áfram á verðhækkunarbrautinni. Hér segir í grg., að þessari kvöð sé ekki haldið í þessu frv. og að sveitarfélögunum sé þannig heimilt að selja aftur lönd, sem þau þó hafa tryggt sér eignarhald á með aðstoð ríkisins til þess að koma í veg fyrir verðhækkanir á landinu. Ég held, að þó að þetta sé vafalaust gert til þess að auka sveitarfélögunum frjálsræði, þá eigi þessi kvöð fremur, sem nú er í 1., að haldast og eigi ekki að nema hana í burtu. Hún er eitt af sjálfsögðum verndarákvæðum gegn áframhaldandi verðhækkun lands, sem þannig liggur, að nota þurfi í almannaþarfir, og almannaþarfirnar beri að setja ofar einkaþörfinni í þessu tilfelli, enda frv. allt saman við það miðað að koma almannaþörfinni til hjálpar.

Það er mjög til bóta, að ríkið ætli ákveðna upphæð á ári, í þessu tilfelli 2 millj. kr., til þessarar aðstoðar við sveitarfélögin til landakaupa. En þó er ég afskaplega hræddur um, að þessi upphæð reynist allt of lág og það gangi mjög seint með þessu móti að koma hinum allmörgu kauptúnum, sem hér eru í vanda stödd, til hjálpar. Og það gæti svo farið, að verðhækkunarflóðaldan héldi áfram og þessi nauðsynlegustu landakaup heimtuðu að nokkrum árum liðnum enn þá miklu hærri fjárhæðir heldur en ef hægt væri að ganga að þessu verkefni tiltölulega fljótt og hjálpa þeim kauptúnum, sem verst eru sett um landþrengsli, nú á þessu og næstu árum á tiltölulega skömmum tíma.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég fagna framkomu þess, en ég óttast, að verðhækkunarskriðan haldi áfram og að frv. bæti ekki á nógu skömmum tíma úr þeim vanda, sem hér er við að glíma, og held, að óhjákvæmilegt væri, að verðhækkunarskattur væri settur á til þess að flýta fyrir því, að landeigendur á slíkum stöðum fengjust til að selja land sitt með hófsamlegu verði, þegar þeir sæju ekki fram á að geta tekið til sín áframhaldandi gróða af verðhækkun vegna almannaþróunar með því að halda landinu enn um sinn, kannske sem allra lengst í einkaeign.