16.04.1963
Efri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er augljóst mál, að kaupstöðum og kauptúnum er mikil nauðsyn á því að eiga lönd og lóðir innan sinna lögsagnarumdæma, enda hefur víðast hvar verið að þessu stefnt. Þó eru ýmis sveitarfélög, sem eru miður vel á vegi stödd í þessum efnum, og er það sjálfsagt nauðsynlegt, að ríkisvaldið hlaupi þar undir bagga og aðstoði þau við að eignast lönd og lóðir, hvert innan síns lögsagnarumdæmis. Það er um þetta efni, sem frv. þetta, sem hér er til umr., fjallar. Og frv. þetta, ef að lögum verður, á að koma í stað l. nr. 64 frá 27. júní 1941, um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa. Í þessu frv. eru gerðar ýmsar veigamiklar breyt. á þeim l., en þær breyt. eru allar raktar í aths. við lagafrv. þetta, og sé ég ekki ástæðu til þess að endurtaka þær hér.

Heilbr.- og félmn, hefur athugað þetta frv. og mælir með því, að frv. verði samþykkt.