02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

231. mál, Iðnaðarbanki Íslands h/f

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem menn muna, var á síðasta þingi samþ. heimild til þess að hækka hlutafé Iðnaðarbanka Íslands, og var hlutafjáraukningin síðan ákveðin á aðalfundi og skorað á menn eða þeim veitt heimild til þess að skrifa sig fyrir hinu aukna hlutafé, og hefur komið í ljós, að meiri eftirspurn er eftir hlutafjáreign i bankanum en rúmast innan þeirrar heimildar, sem veitt var á síðasta þingi. Þeir hluthafar í Iðnaðarbankanum, sem þar eru, aðrir en ríkissjóður, hafa raunar áður óskað eftir því flestir, að ekki væru sett takmörk á hlutaféð, eins og frá upphafi var gert, og endurnýjað, þótt með rýmkuðum hætti væri, frá síðasta þingi. Það, sem nú hefur borið að, að komið hefur í ljós, að meiri eftirspurn er eftir hlutafé en rúmast innan hinna lögskyldu takmarka, hefur ýtt undir þessa ósk einkahluthafanna, og hefur bankaráðið því endurnýjað hana nú nýlega við iðnmrn., auk þess sem aðalfundur hlutafélagsins á s.l. ári hafði þessa ósk uppi, og var þó enn ekki sýnt, hversu mikil eftirspurnin mundi reynast.

Það hefur verið vitnað til þess, að bæði Verzlunarbankinn og Samvinnubankinn hefðu heimild til þess sjálfir, eða þau hlutafélög, sem þær stofnanir eiga, til þess að ákveða sitt hlutafé og væri ekki sett nein takmörkun af hálfu ríkisins. Nú stendur að vísu nokkuð öðruvísi á með Iðnaðarbankann, vegna þess að hann var stofnaður upphaflega með þátttöku ríkissjóðs, og er efasamt, að bankinn á sínum tíma hefði orðið til, ef ríkið hefði ekki á þennan veg stuðlað að stofnun hans. Og í fyrra var einnig ákveðið, að ríkið skyldi að nokkru taka þátt í hlutafjáraukningunni, og var þá miðað við það, að ríkið héldi þeim möguleika, sem það hefur notað sér frá upphafi, að geta tilnefnt tvo menn af fimm í stjórn bankans. Að vísu hefði ríkið til að byrja með auðveldlega getað fengið þrjá menn kosna, en hefur aldrei neytt heimildar til þess að hafa fleiri en tvo.

Þar sem ríkið á svo mikinn þátt í stofnun bankans og lagði enn í fyrra fram aukið hlutafé honum til eflingar, þykir eðlilegt að samræma þetta tvennt, að verða við óskum einkahluthafanna um, að þeir geti sjálfir eða hlutafélagið geti sjálft ákveðið, hversu hátt hlutaféð skuli verða, og eins hitt, að ríkið haldi sínum íhlutunarrétti í stjórn bankans. Og er það gert í þessu frv. með því að afnema hömlurnar á hlutafjármagninu og áskilja berum orðum, að ríkisstj., þ.e.a.s. iðnmrh., tilnefni tvo af fimm bankaráðsmönnum. Stjórn Iðnaðarbankans er þessari lausn samþykk fyrir sitt leyti, enda hygg ég, að þátttaka ríkísins hafi hingað til átt hlut að því að halda þar jafnvægi á milli aðila og síður en svo verið þorra þeirra óvelkomin. Þetta er aðalefni þessa frv.

Til viðbótar er tekið upp samkv. áskorun aðalfundar bankans í fyrra, sem er endurnýjuð af stjórn bankans nú, að heimilt sé að ráða fleiri en einn bankastjóra við bankann. Það verður að skilja núgildandi lög svo, að þar sé ráðgert, að einungis sé einn bankastjóri. Það hefur verið óskað eftir því að fá samþykktunum breytt, þannig að þeir gætu orðið fleiri, en rn. taldi á s.l. ári, að slík fjölgun bankastjóra rúmaðist ekki innan ramma l. eins og þau eru. En úr því að lagabreytingu þarf að gera á annað borð og bankaráðið eindregið óskar eftir þessari heimild, sem aðalfundurinn í fyrra hafði uppi, þá sýnist eðlilegt að verða einnig við þeim tilmælum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.