16.11.1962
Efri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

98. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. á síðasta Alþingi voru sett lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í 29. gr. þeirra segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,.Kjarasamningur eða kjaradómur gildir frá 1. júlí 1963 til ársloka 1965.“

Með þessum lögum var því gert ráð fyrir, og þau lög voru byggð á samkomulagi milli ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að fyrst yrðu reyndir samningar milli aðila. Ef þeir leiddu ekki til niðurstöðu, gengi málið fyrst til sáttasemjara og síðan til kjaradóms, sem kvæði upp endanlegan úrskurð í kjaradeilunni. Og hvort sem um yrði að ræða kjarasamninga eða kjaradóm, skyldu þau ákvæði taka gildi frá 1. júlí næsta ár. Með þessu var því gert ráð fyrir, að opinberir starfsmenn, einstakar stéttir eða hópar, fengju ekki kjarabætur eða breytingar yrðu á þeirra kjörum fram til þess tíma. Þó var sett ákvæði til bráðabirgða í lögin, sem hljóðar svo:

„Nú verða almennar og verulegar kauphækkanir, þar til kjaraákvæði samkv. lögum þessum koma til framkvæmda, og getur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þá krafizt launahækkunar ríkisstarfsmanna í heild.“

Þetta ákvæði var notað í sumar, eftir að verulegar og almennar kauphækkanir urðu, og náðist samkomulag milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisstj. um, að ríkisstarfsmenn fengju 7 % kauphækkun frá 1. júní s.l. að telja.

Nokkuð er um liðið síðan sjúkrahúslæknar gerðu kröfur um verulegar kjarabætur sér til handa. Og það varð ljóst nú ekki alls fyrir löngu, að þeir mundu ekki vilja una þeirri skipan, sem lögin um kjarasamninga gerðu ráð fyrir, þ.e. að bíða eins og aðrir opinberir starfsmenn til 1. júlí 1963, né heldur láta sér nægja þá 7% kauphækkun, sem samið var um frá 1. júní s.l. Ég skal ekki rekja gang þeirrar deilu eða þess ágreinings. En að lokum var fundin sú leið til lausnar á þessari deilu, að þau ákvæði, sem kæmu til greina um kjör lækna, ýmist með kjarasamningi eða kjaradómi, skyldu gilda aftur fyrir sig frá 1. ágúst 1962. Hæstv. heilbrmrh. lagði ákveðnar till. til lausnar deilunni fyrir læknana og hafði um það samráð við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og þegar bandalagið eða stjórn þess hafði lýst því yfir, að það mundi ekki gera kröfur fyrir hönd annarra starfsmanna, þótt ríkisstj. samþykkti að greiða sjúkrahúslæknum fyrr en öðrum laun samkv. væntanlegum kjarasamningi eða dómi, tókst samkomulag um þetta efni.

Frv., sem hér liggur fyrir, fer fram á, að í lögin um kjarasamninga sé sett viðaukaákvæði, sem heimili þessa lausn og staðfesti hana, þannig að á eftir 4. tölul. 29. gr. l. þar sem segir: „Kjarasamningur eða kjaradómur gildir frá 1. júní 1963“ — komi: „þó skulu ákvæði um kjör sjúkrahúslækna gilda frá 1. ágúst 1962.“

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vil bera fram þá ósk, að málið hljóti greiða afgreiðslu í gegnum þingið.