05.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

54. mál, lyfsölulög

Frsm. (Gísli Jónsson) [frh.]:

Herra forseti. Eg hafði í gær, er ég hætti ræðu minni og fundartíma var lokið, lokið við að skýra frá öllu því, er hafði verið rætt um frv. í n. allt að 54. gr. frv., og tekið þar fram þau atriði, er ég taldi nokkru máli varða af því, sem kom fram í umsögnum og viðræðum um málið, og eins þótt n. teldi ekki ástæðu til þess að taka upp þær till., sem fram voru bornar, og vænti, að hv. alþm. vilji fallast á, að ég hafi þar engu skotið undan, enda taldi það skyldu mína að skýra frá því, hvort sem n. féllst á þær till, eða ekki.

Ég vil þá byrja með því að ræða um 1. og 2. till. á þskj. 263, en eins og ég gat um í gær, höfðu komið mótmæli frá Apótekarafélagi Íslands um orðalag á brtt, á fyrrnefndu þskj. Ég óskaði þá eftir því, að hæstv. forseti léti þetta ekki ganga til atkv. við þessa umr., og tók till. báðar aftur til 3. umr., og var það gert vegna þess, að ég bjóst jafnvel við því, að atkvgr. færi fram um málið á deildarfundi í gær, en eins og kunnugt er, var umr. frestað. En hv. heilbr.- og félmn. hefur í dag haldið fund um þetta og önnur mál, og var þar lagt fram bréf það frá Apótekarafélagi Íslands, er ég minntist á hér í gær, og þar færð fram þau rök, sem þeir taka fram í bréfi sínu. Eftir að n. hafði athugað þetta nákvæmlega, féllst hún á það einróma að halda við sínar fyrri tvær till., 1. og 2. till., og vildi ég óska þess af hæstv. forseta, a,ð þær væru einnig látnar ganga til atkv. við þessa umr., nema því aðeins að um það komi einhverjar aðrar óskir en frá n. N. sér ekki ástæðu til þess að fresta afgreiðslu málsins af þessum sökum og getur ekki fallizt á þau rök, sem koma fram í bréfinu, og telur, að frv. sé betur sett með því að afgreiða það með þeim till., sem hún færir þar fram.

Það kom til n. umsögn frá Læknafélagi Reykjavikur um 54. gr. frv. Leggur félagið til, að gr. falli niður, þessi till. er einnig studd af Læknafélagi Íslands, en um þetta segir landlæknir, — mér þykir rétt að lesa fyrst umsögn eða ábendingu frá stjórn Læknafélagsins:

„Læknafélagið telur mjög varhugavert að setja hömlur á sölu lyfja, þótt þau séu ekki skráð á lyfjaskrá. Má fullvíst telja, að slíkar hömlur mundu í einstökum tilfellum valda afdrifaríkum töfum, að sjúklingar fengju þá meðferð, sem bezt yrði talin hverju sinni. Lagt er því til, að 54. gr. falli niður.“

En um það segir landlæknir: „Heimild til innflutnings sérstakra sérlyfja er hér fyrir hendi. Aths. er því óþörf,“ og vísar í grg. Auk þess upplýsti landlæknir, að þetta væri á misskilningi byggt hjá Læknafélaginu, og var því ekki fallizt á að leggja til, að ábendingin yrði tekin upp sem brtt. við frv.

Þá sendi Læknafélag Reykjavíkur einnig umsögn um 55. gr. frv., og hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í mörgum tilvikum eiga sérlyf fullan rétt á sér, og verður ekki án þeirra verið, þótt samsvarandi efni séu fáanleg á frjálsum markaði. Enda þótt krafizt sé vottorða, er ekki þar með alveg tryggt, að það efni, sem selt er á frjálsum markaði, sé eins hreint og jafnist fyllilega að gæðum á við efni sérlyfja. Eðlilegt er, að sérlyfjaframleiðendur vandi sem bezt þá vöru, sem þeir tengja nafn sitt við, og svo er um sérlyfin. Það mun einungis vera á færi hinna stærri lyfjagerða erlendis að búa ýmis virk efni þannig úr garði í lyfjaformi, að eiginleikar hins virka efnis haldist sem bezt og nýtist svo sem til er ætlazt eftir lyfjagjöf. Af eðlilegum ástæðum er augljóst, að lyfjagerð hér á landi mun seint komast í það form, að hún geti tekið eið sér hlutverk hinna stóru og reyndu erlendu lyfjaverksmiðja, og er því sérstaklega varhugavert að skapa með löggjöf hinni innlendu lyfjaframleiðslu einokunaraðstöðu. Samkeppni er hollt aðhald í þessum iðnaði sem öðrum. Of strangar hömlur á notkun sérlyfja geta því komið í veg fyrir, að sjúklingar fái ætíð hin beztu lyf, sem annars er völ á. Einnig er varhugavert og óviðeigandi, að það sé sett á vald annarra en starfandi tækna að hafa áhrif á lyfjameðferð og lækningu sjúkra, taka þannig óbeint fram fyrir hendurnar á læknum og rýra með því gildi hinna almennu lækningaleyfa, sem læknir hefur öðlazt fyrir þekkingu sína og reynslu. Verður að gera þá kröfu, að læknum sé að jafnaði í sjálfsvald sett að nota þau lyf, sem þeir telja bezt henta. Stjórn Læknafélags Reykjavíkur leggur því til, að 55. gr., ef ekki verður niður felld, verði breytt með tilliti til framangreindra sjónarmiða.“

Hér segir landlæknir, að ekki sé ástæða til að óttast neitun á skráningu sérlyfja, sem betri eru talin en skráð lyf, enda gert ráð fyrir slíku, sbr. 55. gr., c- og e-liði. Auk þess var þetta atriði sérstaklega rætt við þá sérfræðinga, sem mættu hjá n., m.a. forstjóra fyrir Lyfjagerð ríkisins, og voru þeir á þeirri skoðun, að það bæri ekki að breyta frv. í þá átt, sem hér er farið fram á. Vildi því n. ekki leggja hér til um breyt. á gr. eða að greinin yrði niður felld.

Enn sendi sama félag umsögn um 63. gr. og 66. gr. Vildi n. eigi heldur leggja til, að þær breyt. yrðu teknar upp í frv., en þær brtt., sem talað er um þar, eru raunverulega afleiðingar af brtt., sem áður hafði verið gerð og hefur ekki verið tekin til greina, svo að þær eiga sjálfsagt ekki við, ef ekki eru teknar upp þær breyt., sem þá var farið fram á.

Um síðustu brtt., sem er 14. brtt., en hún er við bráðabirgðaákvæði, skal hér fara nokkrum orðum.

Hvað snertir a-liðinn urðu allmiklar umr. um þetta atriði. Ef frv. verður að lögum óbreytt, er hér fylgt þeim ákvæðum í l., að embættismenn skuli láta af störfum, er þeir eru 70 ára að aldri, en í 1. lið í ákvæði til bráðabirgða í frv, segir:

„Lyfsali, sem er 67 ára eða eldri, er lög þessi öðlast gildi, heldur leyfi sínu í full 3 ár, en þó eigi lengur en til loka þess árs, er hann verður 75 ára.“

Þá er ákveðið, að lyfsali, sem er 67 ára eða eldri, er lög þessi öðlast gildi, haldi leyfinu í full 3 ár, þó ekki lengur en til 75 ára aldurs. Ef þessi ákvæði kæmu til með að verða samþ. óbreytt, mundu þau valda margvíslegri óánægju og vanda. Yrði þá maður, sem yrði 66 ára, er lögin öðlast gildi, að hætta 70 ára. En maður, sem er 67 ára eða eldri, mætti hins vegar halda leyfi sínu til 75 ára aldurs. Með því að hér er ekki um að ræða embættismenn, sem eiga kröfu á eftirlaunum úr lífeyrissjóðum auk möguleika um uppbót á 18. gr. fjári., ef lifeyrissjóðsgjaldið reynist ekki nægilega hátt til sæmilegrar framfærslu, má ekki láta sömu reglu gilda og um embættismenn almennt. Og með því að lyfsalar hafa þegar komið sér upp lífeyrissjóði, sem þó er enn svo ungur að aldri, að eldri lyfsalar öðlast ekki þar viðunandi lífeyri, þótti n. rétt að leggja til, að 1. tölul. bráðabirgðaákvæðanna yrði breytt svo sem hér segir:

„Þeir lyfsalar, sem hafa lyfsöluleyfi, er lög þessi öðlast gildi, og fullnægja ákvæðum l., eiga rétt á að halda leyfinu til 75 ára aldurs.“

Verði till. samþ., eiga allir þeir lyfsalar, sem leyfi hafa fengið, þegar l. öðlast gildi, rétt til að halda þeim til 75 ára aldurs, enda uppfylli þeir ákvæði l. Má fyllilega gera ráð fyrir því, að ýmsir þeirra láti af störfum fyrr fyrir ýmsar aðrar ástæður, eins í þessari stétt og í öllum öðrum stéttum i landinu.

Þá þótti og rétt að heimila ráðh. að veita einstaklingi, sem haft hefur innflutningsleyfi sem aðalatvinnu a.m.k. 10 s.l. ár, leyfi til þess að halda þeirri atvinnu áfram um eitt ár í senn, en þannig hljóðar b-liður 14. brtt.:

„Við 2. tölul. bætist: Ráðherra má einnig veita einstaklingi, sem haft hefur innflutning lyfja sem aðalstarf a.m.k. síðastliðin 10 ár, leyfi til þess að halda þeirri starfsemi áfram um eitt ár í senn.“

N. hafði fengið erindi um þetta frá einum slíkum manni, sem hefur haft þessa atvinnu hér í fjöldamörg ár, eitthvað um 30 ára skeið, er nú að nálgast 70 ára aldur. Það er eini aðilinn, sem hefur snúið sér til n., en það kunna að vera einhverjir aðrir, sem hafa slíka atvinnu, sem n. er ekki kunnugt um. En n. þótti eðlilegast, að ráðh. hefði vald til þess að leyfa slíkt eitt ár í senn, eftir að l. öðlast gildi, og væntir því n., að Alþ. fallist á þessa breytingu.

Rætt var um það í n., hvort rétt væri að taka upp ákvæði í þessu frv. um að ákveða gjald fyrir lyfsöluleyfi. Var talið, að slíkt ákvæði ætti heima í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. N. var hins vegar þeirrar skoðunar, að rétt væri að setja þar slíkt ákvæði og eðlilegt væri, að gjaldið væri miðað við viðskiptamöguleika á því svæði, sem það er veitt, og væri ekki minna að upphæð en heildsöluleyfi og smásöluleyfi eftir því, hve viðskiptamöguleikar væru á hverjum stað. Út af þessu þykir mér rétt að upplýsa hér, að í fyrrnefndu bréfi frá Apótekarafélaginu er ákvæði, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Um hugleiðingar n. varðandi sérstakt gjald fyrir lyfsöluleyfi, að því er virðist sem tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð, viljum við taka fram, að háttur sá, er frv. gerir ráð fyrir um tilhögun við verðlagningu lyfja, gefur ekki tilefni til slíks.“

Ég verð að segja, að það hryggir mig, að jafnvirðulegt félag og Apótekarafélag Íslands skuli láta slíkt frá sér fara eins og þessa grg. N. gefur ekkert tilefni til þess, að slíkt sé ritað til ráðh. Hún hefur aðeins bent á, að að hennar áliti sé sjálfsagt að taka upp í allt önnur lög ákvæði um gjald fyrir lyfsöluleyfi, setja ekkert um það inn í þetta lagafrv., sem hér er til umræðu. En úr því að Apótekarafélag Íslands óskar eftir umr. um þetta atriði, þá þykir mér rétt að taka hér fram, að ég tel það alveg fráleitt, að lyfsöluleyfi sé veitt án gjalds. Það er tekið gjald fyrir leyfi til að selja hvaða vöru sem er í landinu. Það fær enginn leyfi til þess að selja neina aðra vöru í landinu, nema greiða fyrir það allmikið fé, hvort heldur er um heildsölu eða smásölu að ræða, og lyfsala á Íslandi hefur sannarlega ekki þótt svo léleg atvinna, að það sé ástæða fyrir slíka menn að kvarta undan því, þótt þeir þurfi í eitt skipti fyrir öll að greiða eðlilegt gjald fyrir að selja þá vöru, eins og aðrir menn verða að gera um aðrar vörur. Ég tel, að Apótekarafélag Íslands hafi smækkað sig stórkostlega við að senda slíka aths. inn til hæstv. ráðh.

N. leggur einróma til, að breyt. allar á þskj. 263 verði samþ. og frv. þannig samþ. í þessari hv. d. Að vísu geyma allir nm. sér rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. En n. er öll sammála um, að nauðsyn beri til þess, að frv. þetta verði að lögum á þessu þingi.

Ég sé, að hv. 4. þm. Reykn. hefur borið hér fram brtt., sem útbýtt hefur verið í dag. Mér sýnist í fljótu bragði, að það sé nákvæmlega sams konar brtt. og hv. 4. landsk. hefur borið fram, að öðru leyti en því, að þar er ekki lagt til að fella niður IV. kaflann, en að öðru leyti séu brtt. nákvæmlega eins, og verður það að sjálfsögðu verkefni hæstv. forseta að skera úr því, hvor þeirra komi fyrr til atkv., þegar enginn er eðlismunur á brtt. (JSk: Þær eru ekki eins.) Mér sýnist þær vera alveg eins, nema bara ákvæðið um kafla, annars eru þær bornar saman í flýti. (Gripið fram í.) Nú já, en það er ekki ástæða til þess að ræða mjög um það. En það er alveg samhljóða því, sem hv. þm. skýrði frá í n., og er ekkert við það að athuga af minni hálfu. Ég hef ekki ástæðu til þess að ræða um hana neitt frekar. Aðrar brtt. sýnist mér ekki hafa komið hér fram enn sem komið er.

Með því að ekki þótti neinn vinningur að því að birta allar umsagnir um málið, hef ég valið þann kostinn að skýra frá þeim atriðum, sem þar koma fram og einhverju máli skipta. Að sjálfsögðu liggja allar umsagnir frammi fyrir hvern þann hv. þm., sem vill kynna sér þær, og eins hv. Ed., þegar hún fær þetta mál til meðferðar. Ég held, að það hefði ekki heldur orðið neinn meiri vinningur fyrir hv. þm., þótt þetta hefði allt verið birt, vegna þess að það þarf að leggja mjög mikla vinnu í það að einangra hin einstöku atriði og bera þau saman, og hygg, að það hefði ekki orðið til bóta frekar en að hafa þann hátt á, sem hér hefur verið hafður á. En ég vil taka þetta fram til þess að fyrirbyggja það, að verið sé að álasa n. fyrir að birta ekki umsagnirnar sem fskj.

Ég vil að lokum leyfa mér að færa landlækni, rektor háskólans og sérfræðingum þeim, sem mætt hafa hjá n., þakkir fyrir ómetanlega aðstoð þeirra við athugun á frv. og breyt. þeim, sem lagt er til að samþ. verði, og fyrir þann vilja, sem þeir hafa sýnt í máli þessu til að sætta alla viðkomandi aðila, að svo miklu leyti sem unnt var, án þess þó að rýra öryggi almennings með löggjöfinni. Það er engin launung, að lyfjanotkun fer alls staðar óðum vaxandi, og full nauðsyn er á því að hefta þá þróun. Verði frv, það, sem hér er til umr., samþ. með þeim breyt., sem n. ber fram á þskj. 263, er þess vænzt, að þau lög verði veigamikill þáttur i því að draga úr óþarfri og óhollri lyfjaneyzlu. N. hefur haft fullt samstarf við hæstv. heilbrmrh. um allar breyt., sem fram eru bornar á þskj. 263, og hefur hann tjáð mér sem formanni n., að hann væri þeim samþykkur.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að allar brtt. n. á þskj. 263 verði samþ., og vænti, að á það fallist hv. n. og frv. verði þannig sent til 3. umræðu.