05.03.1963
Neðri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

54. mál, lyfsölulög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, að sett verði lög um lyfjasölu, úr því að þau eru engin til, því að mikið er selt og keypt af lyfjum hér á landi, og hefur svo verið lengi. Frv., sem hér liggur fyrir, er mikill bálkur. Það eru 70 gr. og brb.-ákvæði að auki.

Ég mun aðeins gera að umtalsefni eitt atriði í þessu frv. Það er í 7. gr. þess. Upphaf hennar er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Leyfi til að reka lyfjabúð (lyfsöluleyfi) verður aðeins veitt einstaklingum.“ Og í 9. gr. frv. eru talin upp skilyrði til að öðlast lyfsöluleyfi. Þar er 4. tölul. þannig: „Umsækjandi skal hafa lokið lyfjafræðiprófi, sem metið er gilt hér á landi.” Samkv. þessu er það stefna frv., að aðeins einstaklingar geti fengið leyfi til að reka lyfjabúð og aðeins þeir einstaklingar, sem lokið hafa lyfjafræðiprófi. Hvernig stendur á þessu? Hvers vegna mega ekki aðrir einstaklingar og félög reka lyfjabúðir? Auðvitað yrðu þeir aðilar að hafa sérmenntaða menn, lyfjafræðinga, i þjónustu sinni til að stjórna rekstrinum. En að uppfylltu því skilyrði er ekki hægt að koma auga á nokkur frambærileg rök gegn því, að félög og einstaklingar aðrir en lyfjafræðingar geti rekið lyfjabúðir. Mikill hluti af verzlun landsmanna er rekinn af félögum, aðallega hlutafélögum og samvinnufélögum, og félög eru athafnasöm á mörgum fleiri sviðum í þjóðfélaginu, og engum hefur komið til hugar mér vitanlega að banna atvinnurekstur þeirra fyrr en nú, að lagt er til í þessu frv. að banna félögum lyfjaverzlun.

Við skulum hugsa okkur, að þessi regla, sem hér er lagt til að verði í lög tekin, væri gerð að aðalreglu við atvinnurekstur í þjóðfélaginu. Þá mætti enginn gera út skip nema einstaklingur, sem lokið hefði skipstjóraprófi. Hvernig litist mönnum á það? Það þarf sérmenntaðamenn til að stjórna skipum, eins og lyfjabúðum, og skipin verða ekki hreyfð, nema slíkur maður sé um borð og annist stjórn þeirra. En mikið af útgerð landsmanna, bæði veiðiskipa og flutningaskipa, er rekið af félögum, og enginn hefur séð ástæðu til þess að amast við slíku. Sama má segja t.d. um rekstur flugvéla. Til að stjórna þeim þarf lærða flugmenn. Þrátt fyrir það er flugvélarekstur landsmanna að langmestu leyti hjá tveimur hlutafélögum. Og enginn hefur gerzt svo frumlegur að bera fram frv. hér á hv. Alþ. um, að leyfi til flugvélarekstrar mætti aðeins veita einstaklingum, sem lokið hefðu flugprófi.

Ég hef nefnt þessi tvö dæmi til samanburðar, útgerð skipa og flugvéla. Að sjálfsögðu mætti nefna til viðbótar mikinn fjölda dæma um það, að atvinnurekstur er í höndum einstaklinga og félaga, sem þurfa að hafa sérmenntaða menn í þjónustu sinni við ákveðin störf Ég hef ekki heyrt færð fram nokkur frambærileg rök til stuðnings því, að rétt sé að setja í lög, að lyfsöluleyfi megi aðeins veita lyfjafræðingum. Séu þau nokkur til, væri æskilegt, að þau kæmu fram. Það hefur verið nefnt, að það væri hægara að koma fram ábyrgð á hendur einstaklingum en fyrirtækjum félaga, ef eitthvað bæri út af. Það mætti kannske alveg segja með sama hætti, að það væri þægilegra að koma fram ábyrgð á hendur einstökum skipstjóra eða einstökum flugmanni, ef eitthvað ber út af við þann rekstur, heldur en á hendur félögum, sem eiga skipin og flugvélarnar? Þetta eru engin rök. Ég lít svo á, að með þessu ákvæði frv. séu sett að nauðsynjalausu alveg óviðunandi höft á athafnafrelsi einstaklinga og félaga.

Hér liggja fyrir tvær brtt. um þetta atriði frá tveimur hv. nm. í heilbr: og félmn. Á þskj. 338 er brtt. frá hv. 4. landsk. um það, að leyfi til að reka lyfjabúð megi veita einstaklingum, sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, samvinnufélögum, svo og Háskóla Íslands. Hin brtt. er á þskj. 341 frá hv. 4. þm. Reykn. Hún er samhljóða till. hv. 4. landsk. að öðru leyti en því, að í staðinn fyrir orðið „samvinnufélögum“ í till. hv. 4. landsk. þm. er orðið „félögum“ í till. hv. 4. þm. Reykn. Hún sem sagt felur það í sér, að það megi veita ekki aðeins samvinnufélögum, heldur einnig öðrum félögum, leyfi til að reka lyfjabúð. Ég felli mig betur við þetta. Mér finnst engin ástæða til að útiloka hlutafélög eða sameignarfélög, svo að tvær tegundir félaga séu nefndar, frá því að reka lyfjaverzlun, — sé enga ástæðu til þess. Þetta eru félög, t.d. hlutafélögin, sem hafa á mörgum sviðum mjög umfangsmikinn rekstur, eins og ég hef þegar vikið að. Hví skyldu ekki hlutafélög fá að reka lyfjaverzlun, ef þau hafa áhuga fyrir því? Hlutafélög og sameignarfélög ættu að sjálfsögðu eins og samvinnufélög að geta hlotið leyfi til að reka lyfjabúðir.

Það má vel vera, og ég býst við því, að ef þessi till. hv. 4. þm. Reykn. yrði samþ., þá væri ástæða til að gera fleiri breytingar á frv., t.d. viðkomandi skipun forstöðumanna fyrir þessar lyfjabúðir, sem reknar væru af öðrum en lyfjafræðingum. Vil ég nefna þetta út af því, sem fram kom í ræðu hæstv. ráðh. áðan um þetta atriði. Og þá er vitanlega hægt og reyndar eðlilegt að gera breyt. á ákvæðum frv. um þetta. Ég fæ raunar ekki séð, hvers vegna það er ekki nóg, að menn hafi lokið lyfjafræðiprófi, sem metið er gilt hér á landi, til þess að þeir megi veita forstöðu lyfjabúð. Mér finnst, að þetta ætti að nægja, slíkir menn væru þar með orðnir fullgildir til þess að veita þessari starfsemi forstöðu, en þyrftu ekki að ganga í gegnum neinn sérstakan hreinsunareld, hvorki hjá hæstv. ráðh, né öðrum. Þetta ætti að nægja þeim sem réttindi til atvinnurekstrar, alveg eins og læknum nægir læknaprófíð og fleiri slíkum sérmenntuðum mönnum nægja þeirra próf.

Ég tel, að þessi lokunarstefna, sem hér birtist í þessu frv., sé alröng. Og allir þeir, sem aðhyllast vilja viðskiptafrelsi, ættu því að samþykkja brtt. hv. 4, þm. Reykn.