08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

54. mál, lyfsölulög

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Þetta frv. til lyfsölulaga kemur hér inn á þingið allmikið gallað á ýmsan hátt að mínum dómi. Í hv. Nd. voru gerðar á því nokkrar breytingar, og munu þær breyt. yfirleitt hafa verið til bóta. M.a. var í frv. ákvæði um lyfseðla, ákvæði, sem var mjög óheppilegt. Þessu var breytt í hv. Nd. Enn fremur fengu dýralæknar fram nokkrar breyt. á þessu frv, í hv. Nd. Var þar orðið við þeirra óskum um leyfi til, að þeir mættu selja lyf undir vissum kringumstæðum. Þannig voru gerðar í hv. Nd. nokkrar breyt. á þessu frv., — breytingar, sem ég tel hiklaust hafa verið til bóta. Síðan kemur þetta frv. til hv. Ed. Þar er bent á nokkra augljósa galla á frv., en þá bregður svo við, að ekki fæst ein einasta breyt. gerð hér á, og þá eru ekki rökin þau, að brtt. séu ekki til bóta, heldur eru rökin þau, að einhverjir aðilar séu búnir að koma sér saman um, að svona skuli ákvæðin vera. Þessu lýsti hv. frsm. meiri hl, nú áðan. Ég hygg, að þar sé átt við lyfsala og lyfjafræðinga, máske landlækni þar til viðbótar, þó efast ég um það. Landlæknir segir, að sögn hv. frsm., að hann geti ekki sinnt eða tekið til athugunar neinar brtt. frá hv. Ed., vegna þess að aðilar séu búnir að koma sér saman um þessi ákvæði. Ég veit ekki, hvort allir hv. alþm. vilja taka við slíku samkomulagi þegjandi og hljóðalaust eða láta skipa sér þannig fyrir fyrirfram. Það má ekki breyta frv., af því að einhverjir aðilar eru búnir að koma sér saman um, að svona skuli þetta vera.

Þetta frv. var mjög lítið rætt í hv. heilbr: og félmn. þessarar d. Það var því líkast, sem þetta væri allt ákveðið og hér væri engu við að bæta. Og n. klofnaði. Ég flyt nokkrar brtt. á þskj. 537, og ég hef lýst því yfir í nál., að ef ekki fáist neinar verulegar lagfæringar á frv., eins og það er nú, þá muni ég greiða atkv. gegn því. Nú viðurkenni ég, að það er full þörf á setningu lyfsölulaga, en það er engan veginn sama, hvernig þau lyfsölulög eru úr garði gerð, og það má segja, að það sé betra engin lyfsölulög en ill lyfsölulög.

Ég skal nú gera grein fyrir í stuttu máli helztu brtt., sem ég flyt. Ein till. mín til breytingar er við 1. gr. Frv. hefst á því, að það er skilgreint, hvað séu lyf. Það eru hvers konar efni, „sem ætluð eru til lækninga, fróunar eða varnar gegn sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum í mönnum eða dýrum, svo og efni eða efnasambönd, sem notuð eru til sjúkdómsgreininga.“ En örlitlu síðar í sömu gr. er þessi skilgreining gerð ógild. Þar segir: „Efni teljast þó ekki lyf, ef þau eru notuð til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.“ Áður var sagt, að lyf væru þau efni, sem ætluð eru til varnar gegn sjúkdómum. Hér rekst hvað á annars horn. Hér er átt við sótthreinsunarlyf og fram tekið, að þau skuli ekki teljast til lyfja. Þetta er varhugavert, fyrst og fremst af því, að sóttvarnarlyf eru með þeim lyfjum, sem eru hættulegust í meðferð almennings. Þar af leiðir, að það var sérstök ástæða til að hafa þau undir sömu reglum, hafa þau sömu varúðarreglum háð og önnur lyf. Það kann að vera, að hér hafi önnur sjónarmið verið ráðandi, og það er ég hræddur um, þ.e.a.s. viðskiptaleg og hagsmunaleg sjónarmið, og þess vegna sé þetta haft á þennan veg. En gott er það ekki að mínum dómi frá faglegu sjónarmiði eða frá heilbrigðislegu sjónarmiði eða frá sjónarmiði almennings. Vitanlega eiga sóttvarnarlyf að teljast lyf og þar á engin undantekning að vera gerð að neinu leyti. Þess vegna flyt ég till. um, að þessi undantekning með sóttvarnarlyfin sé niður felld úr frv.

Í 7. gr. er fjallað um, hvernig fara skuli með umsóknir þeirra, sem sækja um leyfi til að reka lyfjabúð. Þar er ákveðið, að tveggja manna nefnd, skipuð af Lyfjafræðingafélagi Íslands og af Apótekarafélagi Íslands, skuli fjalla um umsóknirnar í fyrstu lotu. Nú er það út af fyrir sig galli að láta aðeins tvo menn fjalla um slíkar umsóknir, og það er enn meiri galli, hvernig þessi nefnd er skipuð, að hún er skipuð af þeim aðilum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við veitingu þessara leyfa. Það er mjög óheppilegt og hlýtur að reynast oft óþægilegt þeim, sem það verk eiga að vinna, þeirri tveggja manna nefnd. Þessi tveggja manna nefnd þannig skipuð á að láta landlækni í té rökstudda umsókn um umsækjendur, og ekki nóg með það, heldur á hún að skipa þeim í töluröð, 1., 2. og 3., eftir hæfni að dómi n., og ekki nóg með það, heldur hefur hún líka rétt til þess að dæma þann, sem hún vill, óhæfan sem umsækjanda. Þetta síðasta er mjög leiðinlegt ákvæði og um leið mjög hættulegt ákvæði. Þetta hefur tíðkazt víða, að eins konar nefnd hafi leyfi til að dæma einn umsækjanda óhæfan, og mér er kunnugt um, að freklegt ranglæti hefur verið framið undir því yfirskini, að umsækjandi væri óhæfur. Þetta er engan veginn gott með þetta ákvæði um þessa tveggja manna nefnd. Hún á að raða umsækjendum, hversu margir sem þeir eru, en má ekki raða nema þrem þeim hæfustu. Hinir eiga að fara í eins konar úrkast og verða eins og utanflokka, þegar umsóknirnar berast landlækni og ráðh., svo að það verður ekki auðvelt fyrir ráðh. að skipa þann mann, sem í úrkastinu er, jafnvel þó að hann sé að dómi landlæknis og ráðh. sá hæfasti, að ég nú ekki tali um þá eða þann umsækjanda, sem þessi tveggja manna fornefnd hefur dæmt óhæfa.

Ég geri till. um, að þessu sé breytt, og það er afar einfalt mál að breyta þessu, breyta þessu í horf, sem er miklu eðlilegra og heppilegra á allan hátt, og það er að fela lyfjaskránefnd þetta verk. Lyfjaskrárnefnd er skipuð sex mönnum úr hópi lækna og lyfjafræðinga, og lyfjaskrárnefnd sinnir ýmsum störfum í sambandi við framkvæmd þessara laga hvort eð er. M.a. á lyfjaskrárnefnd að fjalla um umsóknir um leyfi til að kalla sig lyfjafræðing, — og hvað er þá eðlilegra en að fela þeirri nefnd að fara yfir og gefa umsögn um umsóknir um lyfsöluleyfi? Í þessu frv. eru ákvæði um einar fjórar, fimm nefndir, og það er ekki út af fyrir sig galli að geta fækkað hér um eina nefnd.

Í 54. gr. frv. er fjallað um sérlyf og hvernig þau skuli skráð í sérstaka sérlyfjaskrá, en sérlyf er einungis heimilt að selja hér á landi, ef þau hafa komizt á sérlyfjaskrá, annars ekki. Þó er heimildarákvæði í þessari 54. gr., þar sem segir, að heimilt sé þó framleiðendum að láta sjúkrahúsum og hliðstæðum heilbrigðisstofnunum í té endurgjaldslaust takmarkað magn af óskráðum sérlyfjum í reynsluskyni. Hér er hugsað fyrir því, að vísindalega þenkjandi læknar kunna að hafa áhuga á því að fá ný sérlyf í reynsluskyni, enda þótt sérlyfin séu ekki komin á viðurkennda skrá. Heimildarákvæðið er í sjálfu sér heppilegt og raunar sjálfsagt. Hér er verið að gera undantekningu til þess að auðvelda fræðilega og vísindalega starfsemi. Gallinn er aðeins sá, að þetta heimildarákvæði er ekki nógu víðtækt. Það er talað um, að framleiðendum sérlyfja sé heimilt að láta sjúkrahúsum og hliðstæðum heilbrigðisstofnunum í té sérlyf. Auðvitað íláta framleiðendur ekki þessum stofnunum neitt í té, heldur læknum þessara stofnana, fræðimönnum þessara stofnana, vísindamönnum. En þá er komið á daginn, að það er gert upp á milli lækna eftir því, hvort þeir vinna í stofnunum eða utan stofnana, en það er rangiátt. Héraðslæknir eða starfandi læknir getur óskað þess að fá sérlyf í reynsluskyni, takmarkað magn og endurgjaldslaust frá framleiðendum. Samkv. þessu ákvarði getur slíkur læknir ekki fengið leyfi til þess að taka við slíku lyfi. Þetta er ekki rétt. Að vísu er það algengast, að fræðimennskan og vísindastörfin fari fram hjá stofnunum og séu í höndum lækna, sem þar starfa. En hitt er líka til, sem betur fer, að læknar utan stofnana vinni einnig vísindastörf, og sumar af merkustu uppgötvunum í læknisfræði yfirleitt eru gerðar af starfandi læknum eða fátækum félagslæknum, sem hafa helgað sig vísindastörfum við hliðina á daglega stritinu. Þess vegna legg ég til, að þessu heimildarákvæði sé breytt í það horf, að framleiðendum sérlyfja sé heimilt að láta þau læknum í té og þar engin undantekning gerð.

Í næstu grein á eftir, 55. gr., er rætt um, hvenær og með hvaða skilyrðum sérlyf má setja á sérlyfjaskrá. Það má setja lyf á sérlyfjaskrá, ef það að dómi lyfjaskrárnefndar fullnægir eftirfarandi skilyrðum: 1) Er framleitt af fyrirtæki, sem fullnægir skilyrðum 58. gr. 2) Rannsóknum á tæknilegum atriðum varðandi framreiðslu, gerð, útlit og sendingu lyfsins er lokið, og upplýsingar um verkanir þess gefa til kynna, að það sé gagnlegt við þeim sjúkdómum eða sjúkdómseinkennum, sem það skal nota við.

Hér vantar eitt skilyrði enn, sem á að vera ófrávíkjanlegt, og það skilyrði er, að lyfið hafi ekki reynzt í venjulegum skömmtum gefið hafa heilsuspillandi verkanir. Þetta skilyrði er nauðsynlegt á þessum stað. Síðustu missirin hafa miklar fregnir borizt af slysum í sambandi við lyf, sem farið var að nota í stórum stíl, án þess að reynsla væri fengin fyrir því, hvort þau í venjulegum skömmtum reyndust skaðleg eða ekki. Hafa af þessu hlotizt víðs vegar um heim hörmuleg slys, og nægir í því sambandi að minna á það, sem allir hv. þdm, munu kannast við, thalidomid-hneykslið, sem varð heiminum kunnugt á síðasta ári. Þar kom í ljós, að heilbrigðisyfirvöld í ýmsum löndum höfðu verið of fljót á sér að leyfa ótakmarkaða sölu á þessu lyfi. Auðvitað var þetta vegna þess, að ekki var nógu varlega farið, reynslan var of lítil. Ég legg þess vegna til, að hér verði bætt inn einu skilyrðinu enn og það verði orðað á þessa leið: „Reynsla er fengin um, að hættulegar aukaverkanir lyfsins í tilgreindum skömmtum komi ekki til greina.“

Ósk um að fá þessa breyt. fram skyldi maður ætla að hefði ekki mætt mikilli mótstöðu. Jú, hún mætti mótstöðu. Þeir aðilar, sem að frv. virðast standa, voru búnir að koma sér saman um, að þess arna þurfi ekki með. Ég skal í þessu sambandi benda á, að ráðh. er undir vissum kringumstæðum heimilt að taka lyf af sérlyfjaskrá. Honum er t.d. leyft að taka lyf af sérlyfjaskrá, ef lyfið telst ekki hafa þær verkanir, sem því voru eignaðar. Ef það telst hafa heilsuspillandi verkanir, má taka lyfið út af sérlyfjaskránni. En það má ekki hafa þann fyrirvara, að reynsla sé fengin fyrir því, að lyfið sé ekki heilsuspillandi, áður en það er tekið á sérlyfjaskrána. Ég hefði þó haldið, að það væri betra að byrgja brunninn, áður en barnið fellur niður í hann.

Þetta eru helztu brtt., sem ég hef fram að færa í sambandi við efni þessa frv., þ.e.a.s. faglegu hlið þessa frv. En það stendur til að fella þær allar.

En það eru einnig aðrir gallar á þessu frv. en faglegir ágallar. Það má segja, að í þessu frv. sé bæði of og van. Ég tók það fram við 1. umr. málsins, að IV. kaflinn, um vinnudeilur og kjarasamninga, ætti ekki heima í þessu frv. Ég skal ekki orðlengja það frekar nú, en það ætti að vera hverjum manni ljóst, að ákvæði um vinnudeilur og kjarasamninga eiga alls ekki heima í frv. til lyfsölulaga. Slík lagaákvæði eiga heima á allt öðrum stöðum og í öðrum lögum. Ég ræði ekki efnislega þennan kafla. En ég skal aðeins drepa á það, að ákvæði hans eru greinilega launþegum í óhag að sama skapi og þau eru atvinnurekendum í hag. Þetta er mál út af fyrir sig, en sýnir þó hug hæstv. ríkisstj., sem flytur þetta frv., til þessara aðila, annars vegar til atvinnurekendanna og hins vegar til launþeganna. Ákvæðin í þessum kafla eru á þann veg að torvelda kjarabaráttu launþeganna, sem hér koma við mál, torvelda kjarabaráttu þeirra frá því, sem nú er. Það er sama tilhneigingin og komið hefur fram á öðrum sviðum gagnvart launþegum og birzt hefur m.a. í ýmsum þáltill. frá stjórnarliðum hér í vetur, — till., sem sýna greinilega, að stjórnarflokkarnir hafa mikinn hug á því að skerða rétt launþeganna til kjarabaráttunnar. En hvað sem þessu liður, er það víst, að IV. kaflinn, um vinnudeilur og kjarasamninga, á ekki heima í þessu frv. til lyfsölulaga, og þess vegna legg ég heils hugar það til, að þeim kafla verði sleppt úr frv.

En eins og mér þannig finnst hér ofgert með þessum kafla, eins finnst mér á öðrum sviðum vangert í þessu frv. Á undanförnum árum hafa verið flutt alloft frv. til lyfsölulaga, og eins og ég tók fram við 1. umr., var í sumum þessara laga kafli um lyfjaheildverzlun ríkisins, — kafli, sem fól í sér ákvæði um, að sérstök ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki skyldi hafa með höndum allan innflutning og heildsölu lyfja. Þessi frv. voru flutt á nokkrum þingum og ég ætla alltaf af Alþfl.-mönnum. Haraldur Guðmundsson, fyrrv. alþm., flutti þetta frv, a.m.k. árið 1950. Þar var gert ráð fyrir því, að komið yrði á stofn ríkisfyrirtæki, sem hefði einkarétt til þess að flytja inn og selja lyf í heildsölu. Þar var nánar fram tekið, hvernig tilhögun skyldi vera í þessu ríkisfyrirtæki og hvernig það skyldi rekið, sömuleiðis um það, hvernig hagnaðinum skyldi varið.

Ég braut upp á þessu í hv. heilbr.- og félmn., að þessi ákvæði yrðu tekin upp í frv., en það hlaut ekki góðar undirtektir, og það, sem vakti mér mesta furðu, var, að fulltrúi Alþfl. í hv. n. virtist algerlega andvígur þeirri hugmynd að taka þessi ákvæði upp í frv. En ég hef tekið þetta ákvæði um lyfjaverzlun ríkisins, Lyfjaverzlun Íslands, upp í mínar till. og legg til, að slíku fyrirtæki verði komið á fót, og styðst þar að verulegu leyti við eldri frv. um sama efni. En ég legg sérstaklega til í sambandi við þetta fyrirtæki, að ágóðanum verði varið til þess að lækka nauðsynlegustu lyf í verði.

Í 7. gr. er svo ákveðið, að leyfi til að reka lyfjabúð verði aðeins veitt einstaklingum. Eins og sakir standa nú, eru lyfjabúðir í landinu ýmist reknar af einstaklingum eða félögum. Nú skal brotið blað í þessu efni, og hér eftir skal eingöngu einstaklingum gefinn kostur á að reka lyfjabúð. Þetta tel ég mjög óheppilegt ákvæði og legg til, að það verði ekki aðeins heimilt að veita einstaklingum leyfi til að reka lyfjabúð, heldur einnig sveitarfélögum, sjúkrasamlögum og öðrum opinberum félögum, sem ætla má að gæti hagsmuna almennings. A.m.k. tvær lyfjabúðir í landinu eru nú reknar af samvinnufélögum og hefur verið svo í mörg ár. Ég hef aldrei heyrt kvartanir í sambandi við þann rekstur, og ég held, að það sé óhætt að segja, að reynslan hafi ekki sýnt neina þörf á þeirri breyt., sem nú er fyrirætluð í þessu frv. Ég held þvert á móti, að það sé til bóta að hafa heimild í l. þess efnis, að ýmiss konar félög almennings eigi þess kost að reka lyfjabúð, ef þeim býður svo við að horfa. Það er t.d. enginn vafi á því, að það væri mikill hagur fyrir Reykvíkinga, að Sjúkrasamlag Reykjavíkur ræki sína eigin lyfjabúð í Reykjavík. Rekstur lyfjabúða hefur reynzt mjög arðvænlegur atvinnurekstur hér í þessu landi, og það væri mikil búbót fyrir almenning í Reykjavík að hafa slíkan rekstur með höndum. Hagnaðurinn gæti komið almenningi til gáða á ýmsan hátt, t.d. gæti hann komið almenningi til góða í hækkuðum iðgjöldum til sjúkrasamlagsins eða þá í lækkuðum lyfjakostnaði. Frá sjónarmiði almennings er það mikið hagsmunamál, sem hér um ræðir, en hæstv. ríkisstj. metur sýnilega hagsmuni annarra meira á þessu sviði eins og öðrum. Það eru sérhagsmunir einkaframtaksins, sem skulu ráða um sölu lyfja, eins og um sölu á öðrum varingi.

Loks legg ég til, að l. taki ekki gildi 1. júlí 1963, heldur 1. jan. 1964. Þessi brtt, er gerð í samræmi við —till., sem ég hef gert grein fyrir, till. um stofnun ríkisfyrirtækis, er hafi lyfjaheildsöluna á hendi. Með tilliti til þess þótti mér rétt, að l. kæmu síðar til framkvæmda, því að að sjálfsögðu þyrfti undirbúning til þess að koma slíku fyrirtæki fullkomlega á laggirnar.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. flytur brtt. við 7. gr. um, að veita megi félagasamtökum almennings leyfi til að reka lyfjabúð, og er hún mjög svipuð minni brtt. um það efni, og er ég till. hans að sjálfsögðu algerlega samþykkur.

Ég skal að lokum láta í ljós, að ég harma það, að ekki skuli hafa náðst meiri samstaða en orðið hefur um þetta mikilsverða mál, og ég verð að segja, að það hefur gætt nokkurrar og ekki lítillar óbilgirni af hendi hv. meiri hl. í þessu máli. Það hefur verið barið niður, að nokkur lagfæring fengist á nokkru því atriði, sem ég hef nú gert að umtalsefni, og það rökstutt, eins og hv. þdm. heyrðu, á harla einkennilegan hátt. Það eru einhverjir aðilar úti í bæ, sem hafa þegar ákveðið hlutina, og þess vegna er ekki hægt að fá neinu breytt, jafnvel þótt til bóta væri.

Hv. frsm. meiri hl. tók það fram, að þetta hefði verið borið undir aðila, sem við þessi mál eiga að búa, framkvæmd 1., en ég efast um, að það sé rétt. Við hvaða aðila hefur verið talað? E.t.v. hefur verið talað við fulltrúa frá Apótekarafélaginu og jafnvel við fulltrúa frá Lyfjafræðingafélaginu. Það hefur verið talað við landlækni. En það er einn, aðili enn, stærsti aðilinn. Það er almenningur í landinu. Það eru neytendur lyfjanna, sjúklingarnir og allur almenningur. Hefur verið talað við þá nú, síðan málið kom til hv. Ed., eða fulltrúa þeirra? Ég er viss um, að svo er ekki. Þess vegna er ekki hægt að segja, að talað hafi verið við aðila, sem við þetta eiga að búa, því að það er almenningur í landinu, sem fyrst og fremst á við þetta að búa. Og ég tel hann, ekki sízt þegar ég lít yfir eldri frv., sem hér hafa verið og ekki náð samþykki, þá tel ég almenning í landinu hlunnfarinn með þessu frv.

Árið 1950 komu tvö frv. til lyfsölulaga fram, það komu fram tvö frv, um sama efni á sama tíma hér á þingi. Annað var flutt af Haraldi Guðmundssyni og Páli Zóphóníassyni. Hitt var flutt af Bernharð Stefánssyni og Lárusi Jóhannessyni. Hvorugt þessara frv. gerði ráð fyrir því, að ekki mætti veita öðrum en einstaklingum leyfi til að reka lyfjabúð. Ekki einu sinni frv., sem Lárus Jóhannesson flutti á því þingi, gerði ráð fyrir þessu, heldur þvert á móti. Það var gert ráð fyrir eins og í hinu frv., að félagasamtök almennings gætu átt þess kost að öðlast lyfsöluleyfi. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er þrengra í sniðum en nokkurt þeirra frv., sem áður hafa komið fram á þingi og þó ekki náð fram að ganga. Hér eru hagsmunir almennings í stærri stíl sniðgengnir en í nokkru hinna gömlu frv. Hér eru hagsmunir lyfsalanna, kaupmannanna betur tryggðir en í nokkru hinna eldri frv. Þetta er sannleikurinn um þetta frv. Sé litið á hagsmuni almennings, hefur ekkert frv. síðustu 20 árin komið fram á Alþ. jafneinhæft, jafnandstætt hagsmunum almennings í landinu eins og þetta frv. Ég hika þess vegna ekki við, þó að ég viðurkenni þörf nýrrar löggjafar á þessu sviði, — þá hika ég ekki við, að felldum mínum brtt., að greiða atkv. gegn þessu frumvarpi.