08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

54. mál, lyfsölulög

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykv, ræddi um breytingar, sem gerðar voru í Nd. á frv. Ég vil aðeins geta þess, að um þær var samkomulag við n., sem vann að samningu frv. Að hv. d. geti ekki sýnt eða gert breyt., er mesti misskilningur. En ég vil líka geta þess, að ég ræddi þetta, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, við landlækni og prófessorinn í lyfjafræði, og þeir töldu brtt. hv. 9. þm. Reykv. ekki til bóta, og ég er þeim sammála um það.

Þá fann hv. þm. að skilgreiningu lyfja, en um það er það að segja, að hún mun vera mjög samhljóða því, sem er í dönsku 1., og er af hagkvæmniástæðum haft svona og hefur gefizt vel þar, en hitt er alger misskilningur hjá honum, að ekki sé hugsað um hættu af sóttvarnarlyfjum, því að það er einmitt skýrt tekið fram, að ákvæðin um eftirlit nái einnig til þessara efna, eins og hv. þm. hlýtur að sjá, ef hann les mgr.

Hv. þm. var hneykslaður á því, að ég tel það kost á frv., að þeir, sem eiga að starfa eftir því, telji það vera til bóta, en ég tel það nú vera kost samt. Hann gat þess, að nokkrar breyt. hefðu verið gerðar á till. n., m.a. um lyfseðla. Þetta er alveg rétt, og þær breyt. voru gerðar að ósk lækna og í samráði við þá, og ég tel þær til bóta þrátt fyrir það.

Þá talaði hann um heimildarákvæði 54. gr., að þau væru of þröng. En ég tel þau alveg nógu rúm. Þau eru höfð svona til þess að auðvelda eftirlit með tilraunum um ný lyf. En í seinni mgr. þessarar gr. er heimild fyrir ráðh. til þess að veita leyfi með ráði landlæknis, og ég er alveg viss um það, að læknar, er vildu vinna vísindastörf, mundu fá slíkt leyfi, jafnt héraðslæknar og aðrir, ef þeir gætu sýnt landlækni fram á, að þeir hefðu viðhlítandi aðstöðu til þess.

Um 55. gr. tel ég, að brtt. hv. þm. sé of þröng. Það er í vissum tilfellum nú, t.d. við vissar tegundir krabbameins, rétt og skylt að nota lyf, sem hafa þó kunnar skaðlegar verkanir. En það stendur svo á, að þær skipta ekki máli, af því að þær eru litilvægar, þessar aukaverkanir, miðað við það gagn, sem getur verið af lyfjunum. Sama máli gegnir líka undir vissum kringumstæðum um sum fúkalyfin. Þau geta verið hættuleg, en þar er stundum ekki í annað hús að venda til þess að bjarga lífi sjúklinga. Það verður að taka þar vissa áhættu. Og ef gr. væri orðuð svo einstrengingslega eins og hv. þm. lagði til, þá væri það raunar bannað. Og það er enginn vafi á því, að í framkvæmd verður þess gætt að löggilda ekki lyf, fyrr en þau hafa verið prófuð eins vel og auðið er. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm., að það hafa komið fyrir slys, eins og hann talaði um, af því að menn höfðu ekki nógu lengi prófað lyf, sem gerðu visst gagn undir vissum kringumstæðum. En menn höfðu ekki áttað sig á, að við sérstakar aðstæður gátu þau verið hættulegri en menn höfðu haft vit á að prófa nógu lengi, áður en farið var að nota þau. En einmitt eftir að þetta hefur komið fyrir, hygg ég, að menn séu og verði miklu varasamari um að löggilda ný lyf en verið hefur um hríð.

Hv. þm. sagði, að kaflinn- um kjarasamninga væri launþegum í óhag. Það held ég að sé misskilningur hjá honum. En hitt er rétt, að það er enginn vafi á, að sá kafli stuðlar að heill almennings. Hann stuðlar að því, að afgreiðslu lífsnauðsynlegra lyfja sé ekki hætt, þótt lyfjasveinar og lyfsalar deili um kjör.

Hv. þm. talaði um væntanlegan ágóða af

Lyfjaverzlun ríkisins, en við höfum Lyfjaverzlun ríkisins, og eins og er berst hún í bökkum. Álagningin er höfð svo lág, að rétt dugir fyrir allra nauðsynlegasta kostnaði.

Hv. þm. sagði, að það ætti að leyfa mörgum aðilum að reka lyfjabúðir. Ég er nú viss um, að það er bezt, að lyfjabúðir séu hæfilega margar. En á einu atriði lyfsölulaganna, sem þó er ekki nýtt, tel ég rétt að vekja athygli, af því að Íslendingar megi vera stoltir af því. Það er bannið við auglýsingum lyfja fyrir almenning. Erlendis hafa auglýsingar sums staðar valdið óhóflegri og skaðlegri — og það stórskaðlegri ofnotkun lyfja, en þessi ákvæði eru mikil vörn almennings gegn skaðlegum áróðri um mál, sem almenningur á erfitt með að dæma um og er því varnarlítill gegn.

Um ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. get ég verið fáorður. En ég get fullvissað hann um það, að það er ekki heppilegt, að lyf séu seld í smáverslunum í fámennum héruðum, jafnvel þótt kaupfélagið vildi vera svo vænt að taka á sig tap af rekstrinum. Ég tel miklu eðlilegra á slíkum stöðum það, sem nú er, að héraðslæknir annist lyfjasöluna ásamt starfi sínu, því að þar er starf hans venjulega ekki meira en svo, að hann getur annað þessu ásamt sínu starfí, þó að ég viti, að þetta starf hans er þjónustustarf, en ekki hagnaðarvon af því.