09.04.1963
Efri deild: 71. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

54. mál, lyfsölulög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það var rétt áðan haldinn fundur í hv. heilbr.- og félmn. um þetta mál. Þar mætti landlæknir og gaf sínar skýringar á þeim brtt., sem fyrir liggja. Að því er snertir mínar brtt., hef ég ekki breytt í neinu um skoðun við þetta fundarhald, og tek ég ekki til máls til þess að tjá mig um það. En áður en gengið er til atkvgr., vildi ég geta þess, að hv. 9. þm. Reykv., sem á allmargar brtt., sem hér liggja fyrir við 3. umr., tjáði, að hann yrði að víkja hér frá, vegna þess að hann þyrfti að sinna sjúklingum, og óskaði eftir því, að málið yrði ekki afgr., nema hann gæti verið við. Ég fyrir mitt leyti sem þm. vil styðja þessa ósk. Mér finnst, að þeim reglum hafi verið fylgt hér á hv. Alþ. að taka til greina forföll manna, þó að ekki séu sérstaklega í því fólgin að sinna málum eins brýnum og hv. 9. þm. Reykv. hefur að sinna sem læknir. Og þess vegna finnst mér, að eigi að taka ósk hans til greina og sé skylt.

Nú ber á það að lita í sambandi við þetta mál, að það er við síðustu umr. í seinni d. og þinglok ber ekki svo brátt að, þó að þau fari að nálgast, að ekki sé tryggt, að hægt sé að afgreiða það sem lög. Við höfum, stjórnarandstæðingar, ekki haft þann hátt við umr. hér að tefja þær með málþófi og ætlum okkur ekki að gera það. En hitt finnst mér sanngjarnt, að ósk eins og þessi frá minnihlutamanni sé tekin til greina, þegar svona standa sakir. Ég skal taka fram, að ég er ekki að tala fyrir till. þeim, sem hv. 9. þm. flytur, og geng ekki út frá því að veita mörgum þeirra mitt atkv., en mér finnst þetta sanngirnismál og vildi láta hv. þdm. um það vita. Ég býst við, að hv. meiri hl. viti vel um það, að hann hefur mál eins og þetta á valdi sínu og honum verði ekki mikið fyrir um það frekar en við önnur mál að fella till, stjórnarandstæðinga og þess vegna þurfi hann ekki að beita valdi sínu til þess að láta afgreiða málið í dag. Ég skil ekki heldur, að þetta mál sé þess eðlis, að jafnvel þó að það dragist fram yfir páska, þá skerði það páskafögnuð nokkurs manns.