19.11.1962
Efri deild: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

98. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt, eins og hv. dm. er kunnugt, til lausnar hinni svonefndu læknadeilu. Deilan um kjör læknanna er hins vegar angi af því þjóðfélagslega vandamáli, sem við Íslendingar höfum í rauninni átt við að etja síðan við fengum fjárforræði og sprottið er af því, að íslenzk stjórnarvöld hafa ekki séð sér fært að greiða sérmenntuðum mönnum í þjónustu ríkisins laun, sem sambærileg eru við það, sem gerist í nágrannalöndum okkar. Eins og að líkum lætur, hefur þetta vakið allmikla óánægju meðal þeirra, sem í hlut eiga, og hefur sú óánægja farið vaxandi á síðustu árum.

Eins og hv. dm. er kunnugt, voru á síðasta Alþingi. sett lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Komu hæstv. ríkisstj. og BSRB sér saman um setningu þessarar löggjafar í von um það, að með því móti fyndust leiðir til lausnar því vandamáli, sem hér er um að ræða, og öðrum kjaramálum opinberra starfsmanna, sem leitt gætu til niðurstöðu, sem báðir aðilar gætu unað við. Þegar umrædd lög voru sett, hefur það án efa verið tilgangur hæstv. ríkisstj. og Alþingis, sem samþ. þessi lög, að eftir þeim lögum væri farið við kjaradeilur, sem upp kynnu að koma síðar. Þó heimiluðu lögin frá því eina undantekningu, nefnilega þá, að ef um almennar kauphækkanir í þjóðfélaginu væri að ræða, þá væri heimilt á þeim grundvelli að greiða opinberum starfsmönnum launahækkanir til samræmis við þær, sem kæmu til framkvæmda fyrir mitt næsta ár, en frá þeim tíma gera lögin ráð fyrir að hinir nýju kjarasamningar taki gildi.

Hæstv. ríkisstj. og BSRB hafa hins vegar náð um það samkomulagi, að hvað sjúkrahúslækna snertir, þá fái þeir laun greidd skv. hinum nýju kjarasamningum — ekki frá 1. júlí 1963, eins og lögin gera ráð fyrir, heldur frá 1. ágúst s.l. Hafa báðir þessir aðilar komið sér saman um það, að læknarnir hefðu þá sérstöðu í þessu efni, að slíkt ákvæði væri eðlilegt. En það er einmitt til staðfestingar á þessu, sem frv. þetta er lagt fram. Fjhn, hefur haft þetta mál til meðferðar, og eins og álit hennar á þskj. 122 ber með sér, mælir hún einróma með því, að frv. verði samþ. óbreytt.