14.03.1963
Efri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

196. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. tók fram, hafa verið gerðar allmiklar breytingar á lögum um almannatryggingar á síðustu 2–3 árum. Þetta ber að viðurkenna, og þetta er mér ljúft að viðurkenna. Nú liggur hér fyrir frv. til l. um almannatryggingar, þar sem um er að ræða ýmiss konar smærri og stærri breyt. Enn hefur mér ekki gefizt tími til að athuga þetta frv. gaumgæfilega, en mér er þó ljóst, að í því felast allmargar og verulegar umbætur frá því, sem nú er. Þetta frv. er undirbúið af mikilli vandvirkni af stjórnskipaðri nefnd. Í þeirri n. eiga sæti ágætir menn og reyndir menn í þessum efnum. En ég vil aðeins hafa orð á því, að mér hefði þótt heppilegra, að að þessu hefði unnið ekki stjórnskipuð n., heldur þingkjörin n. Það er mikilsvert; þegar um veigamikil mál er að ræða eins og þetta, endurskoðun mikilla lagabálka, þá fer vel á því, að það sé þingkjörin n., mþn., sem endurskoði, að þar eigi sæti fulltrúar bæði stjórnarsinna og stjórnarandstöðu. Þetta er auðvitað öllum hv. þdm. ljóst, að er líklegra til að gefa farsæla niðurstöðu. Það gefur víðari sjónhring.

Ég skal ekki ræða þetta frv. í einstökum atriðum, enda er ég ekki fær um það, hef ekki kynnt mér efni þess nógu vel. Mig langar þó aðeins að minnast á örfá atriði.

Í 22. gr. er nýmæli, sem fjallar um heimilishjálp handa ellilífeyrisþegum, heimilishjálp handa gömlu fólki, það, að kostnað við slíka hjálp geti tryggingaráð ákveðið að greiða sem uppbót á lífeyri. Ég hef orð á þessu fyrst, af því að ég fagna því sérstaklega, að þetta skuli hafa verið tekið upp. Ég hef á öðrum vettvangi í allmörg ár barizt fyrir því og bent á þörfina á því að auka heimilishjálp gamals fólks, einblína ekki alltaf á elliheimili og byggingu þeirra, heldur þvert á móti reyna að forða gamalmennum frá elliheimilum og öðrum stofnunum í lengstu lög. Nú hefur þetta litla atriði verið tekið hér upp í frv. til l. um almannatryggingar, og tel ég það mjög vel farið.

Ég vil líka hafa orð á því, eins og raunar hæstv. ráðh. tók fram, að hækkun sjúkradagpeninga er skv. þessu frv. mjög veruleg frá því, sem nú er. Hún hefur verið fyrir neðan allar hellur að mínum dómi, og gerði ég um það í fyrra hér í þinginu till., að sjúkradagpeningar yrðu hækkaðir. Nú hefur þetta fengizt í þessu frv., og ég fagna því. Nú er upphæðin farin að nálgast hliðstæðu sína í lögum, slysadagpeningana, að upphæð.

Þá skal ég loks geta þess sem eins kosts við þetta frv., að nú á að greiða fjölskyldubætur með öllum börnum yngri en 16 ára, en eins og hæstv. ráðh. tók fram í sinni ræðu, hefur það ekki verið fram að þessu. Hér er um mikið réttlætismál að ræða, og ber að fagna því alveg sérstaklega, að það skuli finna náð hjá hæstv. ríkisstj., sem leggur þetta frv. fram. Samtímis því er svo það, að fjölskyldubætur skuli geta farið saman með hvers konar öðrum bótum almannatrygginganna. Þetta er stórt spor til bóta.

En þótt ég hafi ekki gaumgæft þetta frv. mikið, hef ég þó rekizt á nokkur atriði, sem mér finnst heldur miður fara. Mér finnst það a.m.k. líta dálítið illa út á pappírnum, að fjölskyldubætur og barnalífeyrir skuli lækka að krónutölu frá því, sem nú er. Hæstv. ráðh. gat um ástæður fyrir því, að barnalífeyrir hækkar ekki, en mér hefði fundizt, að hann hefði ekki átt að lækka að krónutölu þrátt fyrir þá breyt., sem gerð er í sambandi við hann. Hvorki fjölskyldubæturnar né barnalífeyririnn áttu að lækka. Þó er annað atriði, sem ég rakst á, öllu alvarlegra, og það er, að fyrirhugað skuli vera í frv. að fella niður mæðralaun með einu barni. Nú er það þannig, að mæðralaun eru greidd með einu barni og fleirum, en eftirleiðis skulu mæðralaun aðeins greidd með tveim eða fleiri börnum. Þetta finnst mér ósanngjarnt, sérstaklega ef við lítum á, að fjölskyldubætur eru greiddar með einu barni. Það verður þó að skoðast mjög mikill aðstöðumunur yfirleitt, aðstaða einstæðrar móður með barn og aðstaða fjölskyldu með barn. Þetta finnst mér vera svo stór galli, að engu tali taki. Það getur ekki verið, að það sé fjárhagsatriði, sem mæli gegn leiðréttingu á þessu.

Hér hefur áður verið flutt um það till., að lagfært yrði það ósamræmi, sem er á milli öryrkja eftir því, hvort þeir eru öryrkjar af völdum slysa eða sjúkdóma. öryrkjar af völdum slysa njóta meiri fríðinda en öryrkjar af völdum sjúkdóma. Þetta er auðvitað óréttlátt. Ég hef áður gert um það till. hér, að þessu yrði a.m.k. að verulegu leyti kippt í lag, þannig að sömu reglur giltu fyrir báða þessa aðila með örorku á milli 50–75%. Þetta er ofur einfalt og kostar áreiðanlega ekki mikið. Til þess að greiða öryrkjum af völdum sjúkdóma styrk á þessum stigum milli 50 og 75% er heimild, sem er notuð að einhverju leyti, en mér finnst, að það eigi að vera sama ákvæði fyrir báða flokka: öryrkja af völdum slysa og öryrkja af völdum sjúkdóma.

Ég skal svo ljúka þessum orðum með því að benda á það, sem mér finnst vera stærsta vöntunin í sambandi við þetta ágæta frv. Aðalgallinn á frv. er að mínum dómi sá, að ekki skuli vera séð fyrir neins konar verðtryggingu bóta almannatrygginga. Ég hef oft bent á það áður, að það er ekki sanngjarnt gagnvart þessu fólki með sínar lágu tekjur og á tímum, sem við lifum á og höfum lifað á um áratugi, við vaxandi dýrtíð, minnkandi verðgildi peninganna, að það skuli ekki. fást fram að verðtryggja þessar bætur. Það hefur verið bent á og boríð fram sem afsökun, að slík verðtrygging bóta almannatrygginga yrði til þess að auka verðbólguna. Þessi afsökun, þessi röksemd er hlægileg. Vitanlega hefði það engin áhrif á verðbólguna, þótt allar bætur trygginganna yrðu verðtryggðar. Þetta er það, sem mér sýnist í fljótu bragði vera aðalvöntunin í þessu frv. Það er ekki einasta það, að það sé sanngjarnt gagnvart bótaþegum og raunverulega sjálfsagt gagnvart þessu vesalings fólki, heldur hygg ég, að það hljóti að vera miklu þægilegra fyrir ríkisvaldið og fyrir löggjafann sérstaklega. Þá þyrfti ekki á fárra ára fresti að vera að deila um þörfina á hækkun bótanna, a.m.k. ekki eins oft og nú. Ég tel því allt mæla með því, að einhvers konar verðtrygging á bótunum verði tekin upp, og úr því að þetta frv., svo vel og fagurlega sem það er undirbúið, er nú komið fram, þá finnst mér vera rétt, að þetta fáist nú í gegn.

Ég skal aðeins að lokum vekja athygli á, að þessi n., sem undirbjó frv., athugaði mjög gaumgæfilega önnur lög, sem líka þarfnast endurskoðunar, og það eru l. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. N. komst að niðurstöðu í því máli, eins og fram kemur í grg., og ég felli mig mjög vel við þá lausn, sem n. telur heppilegasta. Ég harma það að vísu, að það mál skuli ekki koma fram nú þegar á þessu þingi, því að þörfin á endurskoðun þeirra l. er mjög rík. Þau eru löngu orðin úrelt og valda mikilli mismunun, sem fer eftir sjúkdómum, og hafa á þann hátt valdið mörgum sjúklingi miklum og óþörfum sársauka.