01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

196. mál, almannatryggingar

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og fengið forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins til viðtals um það. Auk þess hef ég rætt einstök atriði þess við aðra nm., sem unnu að samningu þess. N. er sammála um að mæla með samþykkt þess með þeim breytingum, sem greinir á þskj. 482. Hv. 9. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. e. áskilja sér þó rétt til þess að fylgja brtt., sem fram kunna að koma, eða flytja frekari brtt. við þær, sem n. er sammála um að flytja. Til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins var haft samráð við hv. heilbr.- og félmn. Nd.

Ég vil leyfa mér að þakka þeirri nefnd, sem unnið hefur að þessari endurskoðun, fyrir mjög gott starf. Það er enginn vafi á því, að þær breyt., sem með þessu frv. eru gerðar á almannatryggingum, eru til mikilla bóta, eins og þær breyt., sem áður voru gerðar á 1. 1960 og á þessu þingi í samráði við endurskoðunarnefndina, en það var að afnema skerðingarákvæðin og gera landið allt að einu verðlagssvæði.

Þá vil ég ræða nokkuð einstök atriði frv. og helztu breyt. og um leið þær brtt., sem við höfum lagt til að gerðar yrðu við frv.

Fyrstu 12 gr. frv. eru að mestu samhljóða gildandi lögum, aðeins breytt orðalagi á nokkrum stöðum til þess að gera ákvæðin skýrari og ótvíræðari í samræmi við þá framkvæmd, sem í reynd hefur orðið á lögunum.

Um 13. gr. Gert er ráð fyrir, að örorkumat komi síðar en nú er, en á móti því verði dagpeningar greiddir allt að 52 vikum, eins og síðar greinir.

Í 15. gr. er sú veigamikla breyt., að framvegis verða fjölskyldubætur greiddar með öllum börnum og án tillits til annarra bóta. Bæturnar greiðast þeim, sem foreldraráð hefur eða annast börnin. Við þá grein leggjum við til að bætist: „Nema meðlagsgreiðandi, sem greiðir meira en lágmarksmeðlag, óski eftir, þá er heimilt að draga helming fjölskyldubótanna frá meðlagsgreiðslunni, þó aldrei svo, að meðlagið verði lægra en lágmarksmeðlag.“

Sú skoðun kom fram, að eðlilegt væri, ef foreldrar væru ekki samvistum, þá væri fjölskyldubótunum skipt á milli þeirra. Rétt er þó í því sambandi að geta þess, að einmitt vegna þess, að gert er ráð fyrir, að sá, sem hefur börnin hjá sér, fái fjölskyldubæturnar, er. í frv. lagt til, að lágmarksmeðlag hækki ekki frá því, sem nú er. Á þann hátt nýtur því sá, sem meðlag greiðir, að nokkru þessarar breytingar, sem lagt er til að verði gerð á fjölskyldubótunum, að þær verði greiddar með öllum börnum. En n. féllst á, að skipta megi fjölskyldubótum eins og greinir í brtt., ef greitt er hærra meðlag.

Þá leggur n. til, að 17. gr. verði breytt svo, að mæðralaun verði greidd með einu barni, 1680 kr. á ári. Endurskoðunarnefndin hafði lagt til, að því yrði hætt, um leið og móðir með eitt barn fengi fjölskyldubætur.

Í 18. gr. er lagt til, að fæðingarstyrkur verði hækkaður um 56%, í 19. gr., að ekkjubætur verði hækkaðar um 17%, í 20. gr., að ekkjulífeyrir verði hækkaður mjög verulega.

Við 21. gr. er 3. brtt. á þskj. 482. Er þar lagt til, að heimildin til hækkunar lífeyris sé nokkuð rýmkuð frá því, sem nú er. Að öðru leyti er greinin óbreytt frá gildandi lögum.

Í 22. gr. er enn fremur lagt til, að hækka megi lífeyri til að mæta útgjöldum vegna heimilishjálpar í viðlögum, og ætti það að geta greitt fyrir, að breyt. á þeim 1., sem væntanlega verður samþ. á þessu þingi, komi til framkvæmda.

Aðrar greinar þessa kafla eru að mestu efnislega óbreyttar frá gildandi lögum. 29. gr. og 30. gr. eru að mestu óbreyttar, þó er orðalagi nokkuð breytt, til þess að ákvæðin verði skýrari og ótvíræðari í samræmi við aðstæður, eins og þær eru nú. Í 31. og 32. gr. er lagt til, að trygging án tillits til launagreiðslu verði nokkru víðtækari en nú er og skyldutrygging launþega látin ná til mun fleiri aðila en nú er. Er með þessu bætt úr annmarka, sem verið hefur á l. til þessa.

Í næstu greinum eru ekki veigamiklar breyt. aðrar en sú, að lagt er til, að dagpeningar verði greiddir í allt að 52 vikur í stað 26 nú, og er það í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefur, og þykir heppilegra, einkum vegna ákvæðanna um örorku í samræmi við hinar nýju reglur um örorkumat. Enn fremur er örorkulífeyrir þeirra, sem hafa 50—75% orkutap, hækkaður verulega frá því, sem nú er.

Í 37. gr. felst veruleg hækkun dánarbóta og breytt greiðsluform, mánaðarleg greiðsla í 8 ár í stað þess, að nú er greitt í einu lagi. Í öðrum greinum þessa kafla eru ekki aðrar breyt., sem máli skipta, en þær, að álagning iðgjalda og skipting í áhættuflokka er gerð mun einfaldari í framkvæmd en nú er.

Í IV. kafla eru ekki verulegar breyt. frá því, sem nú gildir, nema lagt er til, að húsmæður fái rétt til sjúkradagpeninga án tillits til tekna eiginmanns, en það er veruleg réttarbót. Dagpeningaupphæðin til þeirra er ákveðin með tilliti til þess, að algengt er, að húsmæður inni störf sín af hendi, þó að þær séu að verulegu leyti óvinnufærar, og til mats á tekjum þeirra og svo þess nýmælis, að gert er ráð fyrir, að dagpeningar húsmóður haldist, þótt hún liggi í sjúkrahúsi. En upphæð sjúkrabóta húsmóður er miðuð við það, að þær séu jafnar lífeyrisgreiðslu.

Við 54. gr. er brtt., 4. till. á þskj. 482. Þar er lagt til, að stefnt skuli að því, að iðgjöld sjúkrasamlaga séu jafnhá, þar sem aðstaða er sambærileg. Er þetta í samræmi við það, að skiptingu landsins í verðlagssvæði var hætt, og þá sjálfsögðu stefnu, að menn skuli njóta svipaðra réttinda, hvar á landinu sem þeir eru búsettir, eftir því sem unnt er.

Í V. kafla eru þessi nýmæli helzt: Gert er ráð fyrir, að fjölskyldubætur séu greiddar án tillits til annarra bóta, eins og áður er sagt. Enn fremur er lagt til, að greiða megi slysadagpeninga samtímis elli- eða ekkjulífeyri, og er það eðlileg og sjálfsögð réttarbót. Mikill fjöldi ellilífeyrisþega vinnur nú fulla vinnu, og er óeðlilegt, að þeir fái ekki sem aðrir bætt tímabundið vinnutap vegna slysa. Ákvæðin, sem nú gilda, eru eftirstöðvar af skerðingarákvæðunum gömlu, sem numin voru úr gildi 1960. Þá er gert ráð fyrir, að endurkræfur barnsfararkostnaður hækki úr 600 kr. í 1000 kr. á mánuði.

Í 81. gr. þessa kafla er ekki gert ráð fyrir, að Tryggingastofnunin veiti sérstökum lífeyrissjóðum viðurkenningu og viðurkenning þeirra sjóða, sem hana hafa hlotið nú, falli niður um næstu áramót og njóti sjóðfélagar fullra réttinda almannatrygginga frá 1. janúar 1964 og greiði full iðgjöld til almannatrygginga frá sama tíma. Þó helzt afstaða þeirra gagnvart sjóði sínum og almannatryggingum óbreytt, þar til lög sjóðsins hafa verið endurskoðuð með tilliti til hinna nýju viðhorfa. Langstærsti og elzti sjóðurinn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, hefur þegar látið fara fram þessa endurskoðun, og liggur frv. um lagabreyt. til samræmis við þessi nýju viðhorf fyrir þessari hv. d. Ég skal að þessu sinni ekki hafa mörg orð um þessa breytingu. Ég tel, að hún hafi verið fyrir alllöngu orðin eðlileg og nauðsynleg. Þess hefur líka orðið vart, að lífeyrissjóðir, sem nýlega hafa verið stofnaðir, hafi verið viðbótarsjóðir við almannatryggingar, eins og lagt er til að allir slíkir sjóðir verði framvegis. Nokkrir sjóðir, sem hlotið hafa viðurkenningu, hafa óskað eftir og fengið hana afturkallaða og orðið viðbótarsjóðir. Virðist sú skipan þessara mála eðlilegust, að allir hafi fullan rétt til almannatrygginga, en síðan sé frjálst að afla sér eða kaupa frekari tryggingu, ef menn óska.

Það hefur komið fram nokkur uggur í forráðamönnum sumra þessara sjóða um, að skiptin yrðu sjóðunum erfið. Ég tel ástæðulaust að óttast það, enda var óttinn að nokkru leyti bundinn við þann misskilning, að endurskoðun yrði að vera lokið 1. jan. n.k. En svo er alls ekki, eins og fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu, sem ég las áðan. Þá hefur sú hugmynd komið fram, að í stað þess, að sjóðirnir semji fyrir félaga sína við Tryggingastofnun ríkisins, skuli hver sjóðfélagi semja fyrir sig, en það yrði slíkur glundroði, að telja má alveg ófært. Þessi hugmynd mun risin af því, að réttindi einstakra sjóðfélaga geta verið verulega misjöfn eftir því, hvað þeir hafa starfað lengi, á hvaða aldri þeir hófu störf o.s.frv. Þó er þess að geta, að nú er munurinn ekki eins mikill og áður var, því að almannatryggingalögin binda rétt sjóðfélaga þannig, að hann má aldrei vera minni en almannatryggingar veita. En samkv. því getur lífeyrissjóður, sem samkv. sínum reglum ætti að greiða bótaþega 16 þús. kr. á ári, verið skyldugur til að greiða honum nær 33000 kr. á ári. M.a. af þessum ástæðum verður uppgjör sjóðanna eða endurskoðun því erfiðari sem það dregst lengur, og virðist ekki ástæða til að breyta ákvæðum frv. um þetta. Það er enginn vafi á því, að með þessu frv. er stórt spor stigið í þá átt að gera almannatryggingarnar fullkomnari, sanngjarnari og réttlátari og bæta eftir föngum hlut þeirra, sem mest þurfa á því að halda.

Það eru komnar fram á þskj. 486 brtt. frá hv. 9. þm. Reykv., sem ég hef aðeins litið á og ég skal aðeins fara örfáum orðum um.

1. brtt. er sú, að lagt er til að taka upp í lögin reglur, sem eftir frv. er ætlazt til að séu settar með reglugerð, og verð ég að telja, að það séu miklu heppilegra að setja það í reglugerð en að binda það í l. Það er miklu þjálla í meðförum.

2. brtt. leggur til, að hækkun barnalífeyris verði 240 kr. meiri en nú er. Í sambandi við það vil ég aðeins geta þess, að endurskoðunarnefndin hafði þetta að sjálfsögðu til athugunar, hvað mikið ætti að hækka ýmsar bætur, sem frv. veitir, og taldi ekki ástæðu til að hafa barnalífeyrinn hærri en lagt er til í frv., og getur þess sérstaklega, ef ég man rétt, að það kæmi frekar til mála að hækka aðrar bætur, sem séu nær því tæpasta, sem við verði unað, frekar en að hækka þessar bætur.

Þá leggur hv. þm. enn fremur til í 3. brtt. sinni, að dagpeningar húsmóður hækki í 50 kr. á dag. Ég gat þess áðan, að dagpeningar húsmóður eru í þessu frv. miðaðir við það, að þeir séu jafnir lífeyri, og gat enn fremur um nokkrar ástæður til þess, að þeir eru ákveðnir eins og gert er í frv. Það er að mörgu leyti miklu erfiðara að meta til fjár starf húsmæðra en annarra og sömuleiðis miklu erfiðara að fylgjast með heilsufari þeirra en annarra þeirra, sem vinna úti og taka þar sín laun. Þá er þess enn fremur að geta, eins og kom fram áðan í því, sem ég sagði, að það er gert ráð fyrir nokkrum hlunnindum, sem húsmæður hljóti umfram aðra bótaþega, nefnilega þeim, að þær halda sínum sjúkrabótum, þó að þær liggi í sjúkrahúsi, en svo er ekki um aðra bótaþega.

Og þá er eins og vænta mátti rúsínan í pylsuendanum hjá hv. þm. Hann ætlast til þess að taka upp vísitölureikning á bætur, eins og hann hefur stundum lagt til áður, en ég held nú ekki, að ég eða aðrir muni verða fylgjandi þeirri till. hans.