01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

196. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. heilbr.- og félmn. tók fram, flyt ég á þskj. 486 4 brtt. við frv. til l. um almannatryggingar.

Fyrsta till. fjallar um örorkubætur vegna sjúkdóms, þegar örorkan liggur á milli 50 og 75%. Ég legg þar til, að það verði ákveðið í l., hvernig greiða skuli örorku, þegar um þessa örorku er að ræða, 50–75%, en eins og nú er háttað í lögum, er þar aðeins um heimild að ræða. Ég legg til, að fylgt sé sömu reglum í þessu efni, hvort sem um slysaörorku er að ræða eða sjúkdómsörorku, og þær reglur, sem nú gilda um slysaörorku, skulu eftirleiðis einnig gilda um sjúkdómsörorku. Ég hef áður rætt þetta hér í hv. d. og skal ekki fjölyrða um það frekar nú. En ég vil aðeins benda hv. þdm. á, að nú hefur verið lagt fram frv. til l. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í 13. gr. þess frv. er um að ræða eitt nýmæli, og það nýmæli fjallar um hækkun örorkubóta vegna sjúkdóms, þegar örorkan er milli 50 og 75%. Og hvers vegna er þetta gert? Hvers vegna er þetta nýmæli tekið upp í þessu frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins? Það er af því, að menn hafa séð veiluna, komið auga á veiluna, sem er í almannatryggingalögunum í þessu efni, og það er til þess að bæta sjóðþegum upp það ranglæti, sem falið er í almannatryggingalögunum. Það kveður svo rammt að, að samkv. frv. til l. um lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna verður meira greitt þar örorkulífeyrisþegum, þegar örorkan liggur á milli 50 og 75%, heldur en þegar hún er komin yfir 75%. Þá taka almannatryggingarnar við og þá er unnt að lækka aftur. Lm þetta segir svo í aths. við þessa 13. gr. í nefndu frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Í 3. mgr. er það nýmæli, að örorkulífeyrir er hærri hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri en örorkan er metin, ef hún er yfir 50%.

Tilefni þessarar breyt. er, að það virðist vera reynsla, bæði hér og erlendis, að mönnum með háa örorku gangi tiltölulega verr að nýta þá starfsorku, sem þeir eiga eftir, heldur en þeim, er hafa lítið skerta starfsorku. Eftir reglunni mundi maður, sem væri 60% öryrki, fá örorkulífeyri, er næmi 70% af hámarksörorkulífeyri, samkv. 2. mgr. Sá, sem metinn er 76 % öryrki eða meira, á samkv. þessu rétt á hámarksörorkulífeyri, en hann á þá rétt á örorkulífeyri frá almannatryggingunum. Ef sá lífeyrir kæmi sem viðbót, yrði um stórt stökk að ræða í örorkulífeyrinum á 75% örorkustigi. Ekki er tilefni til slíks, og er því örorkulífeyrir sjóðsins lækkaður, um leið og menn öðlast rétt til örorkulífeyris almannatrygginganna, um þá upphæð, er honum nemur. Hér kemur greinilega fram viðleitni þeirra manna, sem undirbúið hafa þetta frv. um þennan lífeyrissjóð, til að bæta úr því ranglæti, sem ríkir í þessu efni í almannatryggingal. Það má segja, að þetta ákvæði í þessu frv. um þennan einstaka lífeyrissjóð er gott og gilt og það bætir þetta upp þeim fáu mönnum, sem þess njóta. En hvað um alla hina, sem ekki njóta viðbótarlífeyrissjóðs? Þeir mega eftir sem áður fara á mis við þetta réttlæti, verða áfram að búa við þá skerðingu, það ranglæti, sem almannatryggingalögin búa því. Það er enginn efi á því, að það er rétt, að þeir öryrkjar, sem metnir eru frá 50–75%, eru mjög illa settir atvinnulega og þjóðfélagslega séð. Og þess vegna er það, að ég flyt till. um þetta aftur og aftur hér á Alþingi.

Önnur till. mín fjallar um, að árlegur barnalífeyrir verði hækkaður örlítið frá því, sem er í frv. Það er staðreynd, að flestar bætur almannatrygginganna hækka verulega og sumar mjög mikið, þegar þetta frv. er orðið að lögum. En það er eitt, sem ekki hækkar, það er barnalífeyririnn, og það er ekki nóg með það, að hann hækki ekki, heldur lækkar hann í krónutölu. Þetta er ekki mikið að vísu, en mér finnst það líta svo illa út, að það ætti að breyta því. Lækkunin er til komin fyrir það, að það stóð eitthvað illa á aurum og krónum. Þess vegna er mánaðarlegur barnalífeyrir nú lækkaður um 10.11 kr. Það er lækkað niður í næsta tug fyrir neðan. En þegar líkt hefur staðið á í þessu frv. um aðra styrki, þá eru þeir hækkaðir upp í næsta tug fyrir ofan. Hvers vegna ekki gera það eins, þegar um barnalífeyri er að ræða, og það er það eina, sem felst í minni till. Hækkunin er þess vegna óveruleg, en hún er aðeins í samræmi við önnur vinnubrögð í þessu frv., þ.e.a.s. hækka frekar í krónutölu en að lækka í krónutölu.

Í 50. gr. frv., 5. mgr., er mjög sérkennilegur málsliður. Það er síðasti málsliðurinn í 5. mgr. Hann hljóðar svo:

„Tekjur húsmóður vegna fullrar vinnu á heimili skulu í þessu sambandi metnar jafnar lífeyrisupphæð samkv. 13. gr.“ Hingað til hefur gengið mjög illa að fá nokkurt mat á vinnu húsmóðurinnar, það hefur þótt vandaverk og enginn eiginlega viljað taka það á sig að meta vinnu húsmóðurinnar til fjár. Nú hefur þetta verið gert hér í þessu frv. Vinna húsmóðurinnar er metin, og hún er metin til jafns við lífeyrisupphæð, metin til jafns við styrk, sem öryrki fær, þ.e.a.s. hún er metin til 18240 kr. Nú er auðvitað tekið fram, að það sé í þessu sambandi, þetta á ekki að vera algilt mat á vinnu húsmóðurinnar. En er ekki hér þó með þessu verið að skapa fordæmi? Er ekki hætt við, að á þetta verði litið sem fordæmi og eftir því farið, þegar mat fer fram á vinnu húsmóðurinnar eftirleiðis og á öðrum vettvangi? Ég tel þessa setningu mjög óheppilega, og ég vil hana feiga, auk þess sem ég tel, að húsmóðurinni séu ætlaðir of lágir sjúkrapeningar með þessu móti. Það lágmark, sem þessi sama grein ætlar einhleypingum, er 60 kr. á dag, getur farið upp í 76 kr. Það lágmark og raunar hámark líka, sem húsmóður er ætlað í sjúkradagpeninga samkv. þessari gr., er 37.50 kr., þ.e.a.s. helmingi lægri upphæð en einhleypingi er ætlað. Þetta tel ég engan veginn sanngjarnt í garð húsmóðurinnar. Ég legg þess vegna til í minni 3. till., að þessi óheppilegi málsl. í 5. mgr. 50. gr. verði niður felldur, en í hans stað komi annar málsl. svo hljóðandi:

„Sjúkradagpeningar húsmóður vegna fullrar vinnu á heimili skulu ekki vera lægri en 50 kr. á dag.“

Um 4. brtt. mína þarf ég ekki að hafa mörg orð að þessu sinni. Hún fjallar um, að allar bótagreiðslufjárhæðir laga þessara séu grunnupphæðir, sem breytist í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar. Ég hef margsinnis rætt það mál hér á þessu þingi og undanförnum þingum og tel ekki þörf á að þreyta hv. þdm. frekar með röksemdum fyrir þessu nú, en læt aðeins í ljós mína sannfæringu um réttmæti þess, að þetta fyrirkomulag verði tekið upp, tel það vera sanngjarnt gagnvart bótaþegunum, en tel það hins vegar ekki ósanngjarnt gagnvart neinum aðila og skal endurtaka það, sem ég hef oft sagt, að ég tel það fjarstæðu að óttast, að slíkt ákvæði í lögum yrði á nokkurn hátt til þess að auka verðbólguna í landinu. Það er fáránleg kenning, sem hv. stjórnarliðar hafa flutt hér á þingi gegn þessu, og raunar svo fjarstæðukennd, að mig undrar, að slíkt skuli borið fram.