04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

196. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um almannatryggingar er komið frá hv. Ed., þar sem einhugur var um að samþykkja það, að vísu með aðeins lítils háttar breyt. frá því, sem frv. var lagt fram í upphafi.

S.l. 3 ár hafa miklar breyt. verið gerðar við almannatryggingalögin og mjög þýðingarmiklar sumar. Ég skal aðeins nefna nokkrar: Það er hækkun bótagreiðslnanna 1960 og upptaka þá á fjölskyldubótum, þó að barnafjöldi væri ekki sá, sem áður var tilskilinn í lögum. Það er afnám skerðingarákvæðisins svokallaða, sem gerði það að verkum, að menn fengu ekki fullar lífeyris- eða örorkubætur, ef þeir höfðu vissar tekjur af einhverju, sem þeir unnu við. Í þriðja lagi var í fyrra landið gert að einu verðlagssvæði og þar með afnuminn sá munur, sem hefur verið á bótagreiðslum og iðgjaldagreiðslum á þessum tveim verðlagssvæðum, sem áður voru. Þá má líka nefna, að hækkanir hafa verið gerðar á bótum til samræmis við opinbera starfsmenn.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er um heildarendurskoðun á tryggingalögunum öllum, og hefur verið unnið að því síðan 1960. Þá voru skipaðir í nefnd til þess að athuga lögin þeir Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri, sem jafnframt er skipaður formaður n., Gunnar Möller hrl., frú Jóhanna Egilsdóttir, frú Sigríður J. Magnússon og Sverrir Þorbjarnarson. Í nóv. 1962 var svo tilnefndur í n. í viðbót Björgvin Sigurðsson framkvstj. Vinnuveitendasambands Íslands til þess að taka sæti í n., þegar rætt væri um slysatryggingar, en eins og kunnugt er greiða atvinnurekendur iðgjöldin, sem þarf

til þess að standa. undir slysatryggingagreiðslum.

Þessi n. hefur líka starfað að þeim lagabreytingum, sem ég lýsti í upphafi míns máls og gerðar hafa verið á þessu tímabili, þ.e.a.s. hækkun bótagreiðslanna, afnám skerðingarákvæðisins, landið eitt verðlagssvæði o.s.frv. Það hefur allt saman farið um hendur n. og hún haft það til meðferðar. En þessi heildarendurskoðun, sem hér er lögð fram, tekur til alls lagabálksins.

Þessu frv. fylgir afar ýtarleg grg., þar sem gerð er grein fyrir fyrst málinu í heild og síðan einstökum greinum frv., og skal ég ekki fara út í að ræða það nema að litlu leyti, því að hv. alþm. hafa haft tækifæri til þess að kynna sér málið, enda frv. lýst allýtarlega, eftir að það kom fram í hv. Ed., bæði í blöðum og útvarpi. En nokkur atriði skal ég leyfa mér að minnast á.

Helztu breyt., sem frv. felur í sér, eru í fyrsta lagi þær, að allir lífeyrissjóðir verði viðbótarsjóðir, þ.e. að allir fái bætur almannatrygginganna frá 1. jan. 1964 og bætur lífeyrissjóðanna verði viðbótarbætur við bætur almannatrygginganna. Þá er gert ráð fyrir, að uppgjör eigi sér stað fyrir liðinn tíma á milli hvers lífeyrissjóðs og almannatrygginganna. Enn fremur dragast bætur almannatrygginga frá bótum lífeyrissjóðs til einstakra bótaþega, unz bótaákvæði sjóðanna hafa verið endurskoðuð. Eftir afnám skerðingarákvæðanna er það öllum hagkvæmt að njóta bóta almannatrygginganna, Þetta er öllum ljóst, sem sjá má á því, að á síðustu árum hafa verið stofnaðir margir lífeyrissjóðir, sem eru aðeins viðbótarsjóðir, þ.e.a.s. sjóðfélagar þeirra eiga rétt til allra bóta almannatrygginganna. Þetta, að meðlimir lífeyrissjóðanna höfðu yfirleitt hætt greiðslum til almannatrygginganna, að því er tekur til þessara lífeyrisgreiðslna, kemur til af því, að skerðingarákvæði almannatryggingalaganna, meðan það var í gildi, kom í veg fyrir, að sjóðfélagar hefðu nokkurn hagnað af því að vera þátttakendur í almannatryggingunum, því að tekjur þeirra eða bótagreiðslur lífeyrissjóðanna voru það háar taldar, að þær skertu verulega þann möguleika, sem þeir þá áttu í bótum frá almannatryggingunum. Þess vegna var það, að þegar lífeyrissjóður var stofnaður, meðan skerðingarákvæðið var í gildi, var venjan sú að sækja um leyfi til Tryggingastofnunar ríkisins um það, að meðlimir lífeyrissjóðsins yrðu undanþegnir að greiða til almannatrygginganna, af því að fyrirsjáanlegt var, að þeir mundu engan hagnað hafa af því, eða a.m.k. lítinn, vegna þeirra bóta, sem þeir fengu úr sínum lífeyrissjóði. Við afnám skerðingarákvæðisins gerbreyttist þetta. Þá er ekkert því til fyrirstöðu, að menn geti fengið sínar bætur frá almannatryggingunum, þó að þeir njóti bóta úr sínum eigin lífeyrissjóði, enda hefur það farið svo, að ýmsir lífeyrissjóðir, sem stofnaðir hafa verið síðan, hafa ekki sótt um að verða undanþegnir greiðslum til almannatrygginganna og njóta þess vegna hvors tveggja, hvort sem þetta verður samþ. eða ekki.

Það hafa farið fram athuganir á því, hvort einstaka lífeyrissjóðir mundu þola að greiða til almannatrygginganna bæði þær iðgjaldagreiðslur, sem niður hafa fallið, og vexti af þeim greiðslum, og með þeim árangri, að það virðist hafa komið í ljós, að þetta ætti ekki að vera lífeyrissjóðunum um megn. Þó er vitað, að þetta verða mjög mikil útgjöld fyrir lífeyrissjóðina, og þess vegna hefur í bráðabirgðaákvæði þessa frv. verið gefinn kostur á því, að þessar greiðslur megi dreifast á tíu ára bil. Einstaka lífeyrissjóðir, eins og lífeyrissjóðir bankanna, hafa látið í ljós áhyggjur út af því, að það mundi verða þessum sjóðum ofvaxið að standa í skilum við almannatryggingarnar, en þeir sérfræðingar, sem við höfum haft til að athuga þetta, telja, að svo þurfi ekki að verða.

Hins vegar hefur rn., sem á að gefa út reglugerð um það, hvernig þessum endurgreiðslum skuli hagað, ákveðið, að það verði það vægilega í sakirnar farið við þessa lífeyrissjóði, að það komi ekki til neinna vandræða, en ef til vandræða komi einhvers staðar út af þessum endurgreiðslum, þá verði gerðar sérstakar ráðstafanir í því sambandi og mál þess lífeyrissjóðs tekið sérstaklega til athugunar. En ég vænti, að til þess þurfi ekki að koma.

Þetta er mjög veigamikil breyt. og sjálfsagt sú, sem einna mesta þýðingu hefur af þeim breyt., sem frv. gerir ráð fyrir. Það eru nú svo margir lífeyrissjóðir starfandi á landinu, að það verður mikill fjöldi manna, sem þarna fær ellilífeyrisgreiðslur almannatryggingalaganna í ofanálag á þær lífeyrisgreiðslur, sem viðkomandi lífeyrissjóður lætur þeim í té. Og mætti svo fara, að þetta yrði byrjun á því, að ellilífeyrisgreiðslur almennings í landinu gætu almennt verulega hækkað frá því, sem nú er.

Önnur aðalbreytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að fjölskyldubætur skulu greiddar með öllum börnum, en nú eru, eins og kunnugt er, fjölskyldubætur ekki greiddar með börnum, sem njóta barnalífeyris eða eiga rétt til meðlags eða meðlagsskyldan föður utan fjölskyldunnar. Fjölskyldubætur eru nú 3077 kr. með hverju barni, sem þeirra nýtur, en í frv. er gert ráð fyrir mjög svipaðri upphæð, eða réttum 3000 kr. N. taldi eðlilegt, að fjölskyldubætur væru greiddar vegna allra barna, annaðhvort sem sjálfstæð greiðsla eða innifalið í öðrum bótum. Til athugunar kom hjá n. að lækka barnalífeyrinn vegna þessara breyt., en með hliðsjón af því, að barnalífeyrir er ekki hærri hér á landi en eðlilegt má telja, taldi n. ekki rétt að leggja til, að hann yrði lækkaður. Þau börn, sem meðlög eru skilvíslega greidd með af barnsföður, njóta engra fjölskyldubóta, eins og nú er, og fá engar bætur í stað fjölskyldubóta. Hér virðist því með hinum nýju ákvæðum þessa frv. leiðrétt nokkurt misrétti. Fæðingarstyrkur er nú 2556 kr., en

lagt er til, að hann verði hækkaður upp í 4000 kr., eða um 56% . Þessi hækkun á nokkuð rót sína að rekja til hækkunar á daggjöldum í sjúkrahúsum og til hækkunar á fæðingarstofugjaldi.

Þá er lagt til, að ekkjulífeyrir verði nokkuð hækkaður frá því, sem nú er, enda voru þær bætur með þeim lélegustu, sem veittar voru. Þessi hækkun á ekkjulífeyri er gert ráð fyrir að verði 17%. Þá er lagt til, að dánarbótum vegna slysa verði breytt þannig, að í staðinn fyrir eina greiðslu til ekkju eða ekkils, eins og nú er, komi í staðinn bætur, sem greiddar verði mánaðarlega samtals í 8 ár. Auk þessarar breyt. á greiðslumátanum er lagt til, að þessar bætur verði hækkaðar verulega. Þá er lagt til í frv., að lágmarkssjúkradagpeningar verði hækkaðir verulega og ákveðin rýmkun að því er varðar bótaþegana. Þetta sama eða svipað er gert ráð fyrir að gildi um greiðslur slysa- og sjúkradagpeninga. Þar er lagt til, að slíkar bætur verði greiddar til atvinnurekandans, ef hlutaðeigandi launþegi er á launum hjá honum á þeim tíma, sem bæturnar eru greiddar. Þetta hefur verið samningsatriði oft og tíðum á milli atvinnurekanda og launþega og verið talið af hálfu atvinnurekendanna óeðlilegt, að bótagreiðslur almannatrygginganna féllu niður og kæmu hvergi fram, ef atvinnurekandinn greiddi viðkomandi launþega fullt kaup eða hluta af kaupi, sem er hærri en dagpeningarnir, og frá þeirra hálfu var borin fram ósk um, að í því tilfelli gengju dagpeningar Tryggingastofnunarinnar til atvinnurekandans upp í það, sem hann greiðir í viðkomandi tilfelli. Þetta hefur þótt ekki óeðlilegt og hefur verið tekið upp í frv.

Þá er lagt til, að verksvið héraðssjúkrasamlaga verði aukið nokkuð, þannig að þau greiði kostnað vegna sjúkrahúsvistar þeirra samlagsmanna, sem hafa lengri sjúkrahúsvist en 30 daga á hverjum 12 mánuðum. Það eru oft erfiðleikar með fámenn sjúkrasamlög, ef eitthvað útgjaldafrekt kemur til sögunnar, og þess vegna hafa verið stofnuð héraðssamlög, sem jafna þá á sig byrðum smærri samlaganna, ef á þarf að halda.

Útgjaldaaukningin við þessar breyt. er talin upp á bls. 49 í grg., og virðist hún koma út þannig, að útgjaldaaukningin muni verða um 54.1 millj. í heild. Þar af greiði ríkissjóður 31.4 millj., hinir tryggðu 10.7 millj., sveitarsjóðirnir 5.8 millj. og atvinnurekendurnir 6.2 millj. Þetta er talsvert mikil aukning frá því, sem nú er, en heildarútgjöldin vegna almannatrygginganna í dag, eða á árinu 1963, getur maður sagt að séu í kringum 834 millj. kr., og við þá upphæð bætast svo þessar 54.1, þannig að heildarupphæðin verður þá 888 millj., sem varið verður í þessu skyni sameiginlega af ríki, sveitarsjóðum, einstaklingum og atvinnurekendum.

Í Ed. var gerð lítils háttar breyt. á frv., eins og ég nefndi í upphafi, og þá sú helzt, að tekin voru upp mæðralaun til konu með eitt barn, sem hafði verið fellt niður í frv., vegna þess að hún fékk nú fjölskyldubætur, sem henni höfðu ekki verið greiddar áður. Mæðralaunin voru í upphafi kölluð þessu nafni, þegar þau voru sett 1953 eða 1954, að ég ætla 1953 líklega, vegna þess að það þótti ekki rétt að kalla þetta framlag til einstæðra kvenna með eitt barn fjölskyldubætur, því að það hefði kannske dregið stærri dilk á eftir sér, en tilsvarandi upphæð var þá tekin upp í tryggingarnar handa þessum konum og kölluð mæðralaun. Þess vegna var það líka ástæðan til þess, að þessi upphæð var niður felld í frv., þegar fullar fjölskyldubætur voru teknar upp. En hv. Ed. hefur þótt hlýða, og sá ég ekkert á móti því, nema síður væri, að þetta væri tekið upp að nýju og mæðralaunin greidd, þrátt fyrir það að fjölskyldubæturnar kæmu líka.

Það er gert ráð fyrir því, að þetta frv. taki gildi um næstu áramót, m.a. vegna þess að það hefur ekki verið tekið upp í fjárlög nein sérstök upphæð til að standast þessi útgjöld.

Ég vænti þess svo, að hv. alþm. í þessari hv. d. taki þessu máli vinsamlega, eins og gert var í hv. Ed., þannig að afgreiða megi það, áður en þessu þingi lýkur. Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.