16.04.1963
Neðri deild: 71. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

196. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af þeim umr., sem hér hafa orðið, og þeim breyt., sem fyrir liggja, og þó kannske alveg sérstaklega út af síðustu orðum í ræðu hv. síðasta ræðumanns, þar sem hann lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að hann liti frekar á frv. sem rauða rós í hnappagat heldur en það kæmi nokkrum til góðs fyrir kosningar, eins og hann orðaði það. Hann m.ö.o. lét fullkomlega liggja að því, og sagði beinlínis, að það væri enginn skaði skeður, þó að frv. dagaði uppi.

Þetta verð ég nú að segja, að mér finnst koma úr hörðustu átt. Það eiga, eins og hann sagði, að fara fram á næstunni kosningar, og maður veit ekkert, hvernig næsta þing muni verða skipað, ekki a.m.k. nákvæmlega. En hitt veit ég, að það þing, sem nú hefur setið í heilt kjörtímabil, hefur verið mjög vinsamlegt í tryggingamálum og gert á þeim málum margar höfuðbreytingar, og veit hönd hvað hefur, þannig að það, sem verður samþ. á þessu þingi, þarf ekki að samþykkjast á ný af öðru þingi, sem maður veit ekki, hvernig verður samsett. Ég vildi þess vegna fyrir mitt leyti leggja mjög mikla áherzlu á, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, því að í því felast, eins og hér hefur verið sagt, bæði af form. heilbr.- og félmn. og eins af hv. 4. landsk. þm., verulegar bætur. Það má vel vera, að þær bætur gætu verið meiri og þyrftu að vera meiri, ég skal hreint ekki mótmæla því, en svo má lengi segja. Það má alltaf betrumbæta, og ég tel, að alveg eins og mþn. hefur verið starfandi nú um langan tíma til þess að athuga þessi mál, þá verði þeirri athugun fram haldið. Þetta mál er eitt af þeim, sem lengi má færa í betra horf en það á hverjum tíma er, og þess vegna nauðsynlegt að ræða og undirbúa þær breyt., sem til bóta horfa.

Ég skal ekki fara efnislega út í að ræða þær till., sem hér liggja fyrir. Þær eru á 2 þskj., á þskj. 635 frá heilbr.- og félmn. og á þskj. 636 frá Hannibal Valdimarssyni. Hv. síðasti ræðumaður, hv. 4. landsk. þm., skýrði frá því, að form. heilbr.- og félmn. hefði komið til mín og rætt við mig um þessar breyt., og hann hefði líka rætt við heilbr.- og félmn. Ed., og þetta er hvort tveggja rétt. En ég vil aðeins, að það komi hér fram, að í því viðtali, sem hann átti við mig, kom fram, að hann var áður búinn að eiga viðtal við hv. félmn. Ed. og hafði frá henni upplýsingar um þau atriði, sem samkomulag hafði orðið um milli n. í báðum d., þannig að það samkomulag lá fyrir, áður en viðtalið við mig fór fram. Þetta samkomulag á milli heilbr.- og félmn. beggja d. er það, sem flutt er á þskj. 635, og inn á þær breyt. gekk ég fyllilega, því að mér finnst, að þær komi allar meir en til greina og séu til bóta.

En um hinar till., á þskj. 636, vil ég á þessu stigi ekki taka efnislega afstöðu. Það má vera, og ég get vel gengið inn á, að sumar af þeim till. séu til bóta einnig. En það liggur fyrir, að um þær næst ekki samkomulag við hv. Ed., þannig að ef á að koma málinu fram, sem er mér áhugamál, þó að það sé ekki áhugamál hv. 4. landsk., þá er ekki hægt að fara lengra í sakirnar en samþ. þær breyt., sem fluttar eru á þskj. 635. Og ég get getið þess til viðbótar, eins og hv. þdm. hafa sjálfsagt gert sér grein fyrir líka, að sumar af þeim brtt., sem fluttar eru á þskj. 636, voru felldar í hv. Ed., svo að segja alveg samhljóða, eða ég held alveg shlj. sumar, þannig að ef nú málið á síðustu dögum þingsins á að hrekjast á milli deilda vegna nokkurra atriða, sem væri meira og minna æskilegt að samþ. yrðu og ekki fæst samkomulag um, þá teldi ég það illa farið, og ég vil ekki a.m.k. ljá mitt lið til þess, og ég vona, að hv. þdm. geri það ekki heldur.

Ég held þess vegna, að á þessu stigi málsins sé rétt að láta hér nægja þær brtt., sem fluttar eru á þskj. 635, og hafa hinar til athugunar framvegis. Ef það er ekki nauðsynlegt að samþ. frv. í heild á þessu þingi, sem ég tel þó vissulega vera, þá ætti ekki heldur að vera nauðsynlegt — og minna nauðsynlegt að taka til meðferðar þær till., sem hér eru fluttar á þskj. 636 og ekki hefur enn náðst samkomulag um, en gætu orðið til þess, að frv. hrektist á milli deilda og næði ekki samþykki. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að samþ. hér aðrar till, en þær, sem fluttar eru á þskj. 635 og vissa er um, að hv. Ed. samþ. líka, og láta hinar bíða. Það er þá ekki útilokað að taka þær upp síðar. Ég skal, eins og ég hef sagt, ekki taka efnislega afstöðu til þeirra, af því að mér er svo í mun, að málið í heild nái fram að ganga.

Málið hefur verið vel undirbúið. Það eru í því veigamiklar breyt. og áreiðanlega þeim til góðs, sem almannatrygginganna njóta. Það má alltaf segja, að t.d. ellilífeyrisgreiðslurnar séu of lágar. En geta vil ég þó þess, að útgjöld ríkisins á þessu kjörtímabili til almannatrygginganna hafa hvorki meira né minna en ferfaldazt. Þau voru á árinu 1959 rétt um 100 millj. kr. á fjárl., en eru á fjárl. ársins 1963 rúmar 400 millj. kr. Þetta er veruleg hækkun, og ég verð að segja það, að ef á að samþykkja þær breyt., sem enn valda miklum hækkunum umfram það, sem í frv. felst, þá þyrfti að athuga um það, hvort greiðslugetu ríkissjóðsins væri ekki næstum því að segja ofboðið, eða a.m.k. finna þá tekjustofna til að mæta þessum útgjöldum. Ég held þess vegna, að það væri réttast að samþ. þær till., sem samkomulag næst um, láta hinar bíða, athuga þær á milli þinga og taka þær þá upp síðar, ef þær á næsta þingi að athuguðu máli reyndust að vera til bóta og greiðslugeta ríkisins fær staðið undir þeim.

Þess má geta, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að útgjöld almannatrygginganna hækki enn um 54 millj. kr., og þar af á ríkissjóður að greiða 31 millj. kr.

Æskilegast hefði mér þótt, að hv. 4. landsk. þm. hefði tekið þessar till. aftur, þannig að þær yrðu ekki felldar, en ef hann, ekki gerir það, þá mun ég a.m.k. ekki á þessu stigi málsins greiða þeim atkvæði, en óska, að þær yrðu síðar teknar til athugunar.