25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

214. mál, þátttaka síldarverksmiðja ríkisins í útgerðarfélagi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mér er þetta mál nokkuð kunnugt, bæði vegna þess, að ég hef nú um skeið átt sæti í stjórn síldarverksmiðja ríkisins, og eins frá fyrri tíð í ríkisstj. Ég mundi segja, að forsaga þessa máls hæfist að vissu leyti á mestu síldarleysisárunum, þegar Siglufjörður átti mjög í vök að verjast og fólk þar átti í ákaflega miklum erfiðleikum vegna síldarleysisins. Þá var ráðizt í að ákveða, að síldarverksmiðjur ríkisins byggðu hraðfrystihús á Siglufirði til eflingar staðnum og stuðnings fólkinu.

Mér er vel kunnugt um, hver hugsunargangur lá að baki þess, sem þá var gert, og hann var í raun réttri tvíþættur. Annars vegar álítu menn, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu skyldur við Siglufjörð. Þetta er risafyrirtæki, og það er ekki hægt að segja, að slíku fyrirtæki sé það óviðkomandi, þegar byggðarlagið

lendir í jafnmiklum vandræðum af óviðráðanlegum ástæðum og á þeim árum varð á Siglufirði. í annan stað virtist það augljóst, að síldarverksmiðjur ríkisins gátu ekki aðgerðalaust horft á vandkvæði Siglfirðinga, þar sem síldarverksmiðjunum getur blátt áfram aldrei til lengdar vegnað vel á Siglufirði, nema þar sé talsvert þróttmikið pláss. Það er óhugsandi að reka annan eins risarekstur og síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði eru nema í þróttmiklu plássi. Þá má svo segja, að þriðja ástæðan hafi komið til. Það var hagfellt, að upp kæmi verkefni fyrir fagmenn þá, sem vinna á vegum síldarverksmiðja ríkisins, önnur en þau, sem beint lutu að rekstri sjálfra síldarverksmiðjanna. Allar þessar ástæður urðu til þess, að hraðfrystihús var reist á vegum síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði. Ég var stuðningsmaður þessa á sinni tíð, og mér er þetta vel kunnugt.

Síðan hefur þetta frystihús verið rekið og orðið til hags bæði fyrir síldarverksmiðjurnar og byggðarlagið. Á hinn bóginn hefur alltaf verið nokkrum erfiðleikum bundið með hráefnið, og þau vandkvæði hafa farið vaxandi. Þá kom upp spurningin um, hvort síldarverksmiðjur ríkisins gætu látið hráefnismálið afskiptalaust, þar sem þær eru svona mikill þáttur í byggðarlaginu, og enn fremur vegna þess, að þær höfðu nú komið sér upp hraðfrystihúsi. Um þetta hafa menn bollalagt fram og aftur, hversu mikil afskipti síldarverksmiðjur ríkisins skyldu hafa af hráefnisöfluninni. Og niðurstaðan, a.m.k. niðurstaða meiri hl. í stjórn síldarverksmiðja ríkisins, varð sú, að síldarverksmiðjur ríkisins ættu þátt í því að stofna hlutafélag til þess að eignast báta og skip og reka togarann Hafliða. En þetta er það, sem frv. gerir ráð fyrir, sem hæstv. ráðh. hefur nú mælt fyrir.

Ég var einn af þeim í stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem voru meðmæltir því, að fyrirkomulag þessara mála yrði einmitt á þá lund, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og styð það því að sjálfsögðu og vil mæla með því. Ég vona, að síldarverksmiðjum ríkisins verði þetta ekki að neinu tjóni, heldur hið gagnstæða, og reynslan verði svipuð og hefur orðið með hraðfrystihúsið, og jafnframt verði þetta Siglufirði lyftistöng.