11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. hafa orðið varir við, hafa í hv. Nd. verið gerðar nokkrar breyt. á tollskrárfrv., en þar sem fjhn. hefur ekki enn þá haft möguleika á því að athuga málið, þykir mér rétt að gera með örfáum orðum grein fyrir því, í hverju þær breyt. eru fólgnar, sem hér er um að ræða, en eins og ég tók fram, eru þessar breyt. gerðar skv. till. tollskrárnefndar.

Brtt. eru í tveim liðum, 1. og 2. A-liður 1. liðar er fólginn í því, að lagt er til, að tollur á síkoríurótum lækki úr 30% í 20%. Síkoríurætur eru, eins og kunnugt er, eitt af aðalhráefnunum, sem notuð eru við kaffibætisgerð, en kaffibætirinn er til að drýgja kaffið. Hann er framleiddur hér innanlands, og þar sem kaffið er tollfrjálst, þykir eðlilegt, að þessi tollur sé ekki hærri.

Næstu tveir liðir, b og c, fela í sér, að tollur á brauðvörum og kexi, sem hér í þessari hv. d. var lækkaður úr 125% í 80%, sé aftur færður upp í 100%. Félag íslenzkra iðnrekenda mun hafa mótmælt því mjög eindregið, að tollurinn yrði lækkaður sem þessu næmi í einu, og tollskrárnefndin hefur lagt til, að komið yrði nokkuð á móts við það, og hv. Nd. á það fallizt.

D-liðurinn felur í sér, að tollur á flúrlömpum er hækkaður úr 60% í 70%. Eins og fram kom við meðferð málsins í þessari hv. d., voru tollar á þessum lömpum lækkaðir úr 90% í 60%, en þar sem þeir eru framleiddir innanlands, andmælti Félag íslenzkra iðnrekenda svo mikilli lækkun á tollinum, og tollskrárnefnd mun við nánari athugun hafa lagt til, að nokkur breyting yrði gerð á þessu að nýju til hækkunar.

E-liðurinn felur í sér, að lækkaðir eru tollar á sjúkrabifreiðum, eins og nánar er skilgreint, en eftir núgildandi reglum mundu þær vera tollaðar eins og venjulegar bifreiðar eða í 90% tolli. Býst ég ekki við, að ágreiningur sé um það, að rétt sé að gera þessa breytingu.

A-liður breytinganna við 2. gr. þarf að mínu áliti ekki nánari skýringar, og vænti ég ekki, að ágreiningur verði um það, að rétt sé að samþykkja þessa brtt. Sama máli gegnir um fyrri brtt. í b-lið, en seinni brtt. í þeim lið heimilar ríkisstj., eins og það er orðað, með leyfi hæstv. forseta, að „ákveða, að aðflutningsgjöldum af sjónvarpi og hlutum í þau megi verja til stofnkostnaðar sjónvarps“. Það þarf ekki heldur nánari skýringa við, og býst ég við, að hv. d. fallist eftir atvikum á það, að rétt sé að veita þessa heimild, því að hvað sem liður skoðunum manna, sem geta verið skiptar um það út af fyrir sig, hvort rétt sé eða tímabært að stofna til sjónvarps hér á landi, þá er aðeins hér um heimild að ræða, og auðvitað verður það á sínum tíma borið undir Alþingi, ef til sjónvarps verður stofnað hér á landi. En ekki er ástæða til að ætla, að þessi heimild verði notuð, nema um slíkt verði að ræða, þannig að ég vænti þess vart, að ágreiningur verði um það, að eðlilegt sé að samþ. þessa. heimild.