11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

148. mál, tollskrá o.fl.

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. virtist eiga í einhverjum erfiðleikum með að skilja ræðu hv. 5. þm. Reykn. (GilsG). E.t.v. er þessi skilningsskortur hæstv. ráðh. nokkuð einkennandi fyrir sálarástand hæstv. ríkisstj. í heild, þegar um þessi mál er að ræða.

Eins og hv. 5. þm. Reykn. tók fram í ræðu sinni og minnti á, sendu 60 þjóðkunnir menn á sviði menningarmála og félagsmála Alþingi eindregna áskorun um, að sjónvarpssendingar frá Keflavíkurflugvelli yrðu takmarkaðar eða hindraðar í á2t til fjölbýlisins á Reykjanesskaganum. Þessi áskorun barst Alþingi fyrir tveim mánuðum. Mánuði síðar var borin fram þáltill. sama efnis. Hún hefur ekki fengizt rædd á Alþingi fyrir tilverknað hv. stjórnarliða. Það hefur ekki fengizt rætt á Alþingi, hvort hv. alþm. vilji una því, að þjóðin yrði að þola dátasjónvarp frá Keflavíkurflugvelli.

Hæstv. ríkisstj. hefur að sjálfsögðu ekki látið neitt til sín heyra í þessu máli fyrr en nú. Nú lætur hún til sín heyra loks, og það er í sambandi við brtt. um tollskrá.

Sextíumenningarnir, sem sendu Alþingi áskorun, líta allir sem einn á ameríska sjónvarpið sem smánarblett á íslenzku þjóðinni. Ég veit ekki, hvað hæstv. ríkisstj. gerir, en ég veit annað. Hvort sem hún lítur á það sem smánarblett á þjóðinni eða ekki, þá hugsar hún sem svo: Við skulum a.m.k. reyna að græða fjárhagslega á ósómanum og niðurlægingu þjóðarinnar. Þannig virðist hæstv. ríkisstj. hugsa og hæstv. menntmrh. þjóðarinnar, í sambandi við ameríska sjónvarpið. (Forseti: Mig langar nú til að minna hv. þm. á, að sjónvarpið er nú ekki til umr. hér, heldur er það tollskráin.) Það er amerískt og íslenzkt sjónvarp til umræðu, herra forseti. Ég ræði um breyt., sem gerð var í Nd. og komin er nú til hv. Ed. Það er breyt. við 2. gr. frv. um tollskrá, 39. lið, um heimild handa ríkisstj. til að ákveða, að aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum og hlutum í þau megi verja til stofnkostnaðar sjónvarps. Hér er um að ræða annars vegar bandaríska sjónvarpið og sjónvarpstæki í sambandi við þann rekstur og hins vegar væntanlegt íslenzkt sjónvarp, svo að ég hef ekki farið neitt út fyrir dagskráratriðið.

Það er enginn efi á því, að það er eitthvað bogið við þjóðarmetnað þeirra manna, sem vilja nú snúast við ameríska sjónvarpinu á Íslandi með þeim eina hætti að reyna að græða á því. En það er einmitt það, sem felst í þessari till. Það er um það að setja aðflutningsgjald á sjónvarpstæki, sem notuð eru til þess að ná hermannasjónvarpinu á flugvellinum. Þessu vildi ég mótmæla harðlega. Ég mótmæli harðlega þeirri smekkleysu hæstv. ríkisstj. að tengja væntanlegt íslenzkt sjónvarp við þann sjónvarpsrekstur, sem nú fer fram í landinu, og ætla sér eða hugsa sér að safna fé úr rekstri ameríska sjónvarpsins til þess að koma upp íslenzka sjónvarpinu. Og það er einmitt þetta, sem sextíumenningarnir, sem áskorunina sendu til Alþ., hafa varað við. Þeir segja um íslenzka sjónvarpið væntanlega, með leyfi hæstv. forseta:

„Með stofnun og rekstri íslenzks sjónvarps teljum vér, að ráðizt sé í svo fjárfrekt og vandasamt fyrirtæki með örfámennri þjóð, að nauðsynlegt sé, að það mál fái að þróast í samræmi við vilja og getu þjóðarinnar, án þess að knúið sé fram með óeðlilegum hætti.“

En nú er einmitt komið að því, að hæstv. ríkisstj. vill knýja fram þetta vandamál, íslenzkt sjónvarp, með óeðlilegum hætti, með því að skattleggja að vissu leyti amerísku sjónvarpsstarfsemina í landinu, og það er það, sem ég vil sérstaklega undirstrika, að ég fordæmi. Ég er ekki andvígur því, að undirbúið sé íslenzkt sjónvarp, en ég er andvígur því, að rekið sé amerískt sjónvarp hér, og ég er andvígur því, að hið væntanlega íslenzka sjónvarp sé á nokkurn hátt gert háð ameríska sjónvarpsrekstrinum. Og ég tel það smekkleysi, eins og ég sagði áðan, að ætla sér að tengja möguleikana á að koma upp íslenzku sjónvarpi fjárhagslega rekstri dátasjónvarpsins. Þetta hljóta að skilja þeir menn, sem enn eiga heilbrigðan þjóðarmetnað.