11.05.1964
Efri deild: 87. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til frekari skýringar á því, sem ég sagði um sjónvarpið í fyrri ræðu minni, að gefnu tilefni frá hv. 8. þm. Sunnl.

Þegar ég sagði, að ég teldi, að óháð afstöðu manna til sjónvarpsmálsins teldi ég óhætt að samþ. þá heimild, sem hér var farið fram á, þá fólst ekki í því, að ég væri að lýsa neinni skoðun á því, hvort sérstaka löggjöf þyrfti til þess að stofna til sjónvarps hér á landi. Ég hef ekki myndað mér nema skoðun á því efni, hvort heimilt sé að stofna til sjónvarps á grundvelli l. um ríkisútvarpið, og var ekki að hugsa um að taka neina afstöðu í því máli, enda hef ég ekki kynnt mér það atriði rækilega. Það, sem ég hins vegar átti við, var það, að ég taldi, að það gæfi auga leið, að stofnkostnaður sjónvarps yrði svo mikill, að sá kostnaður fengist ekki uppi borinn með því að samþ. þessa heimild einvörðungu. Og þar við má bæta því, að þess er ekki að vænta, hvaða ríkisstj. svo sem verður við völd á þeim tíma, þegar sjónvarpi verður komið á fót hér á landi, hvort sem það verður fyrr eða síðar, að stofnað verði til sjónvarps, nema tryggður sé ekki einvörðungu stofnkostnaðurinn, heldur líka rekstrarkostnaður, en til slíks þyrfti auðvitað að leita samþykkis Alþingis. Það var þetta, sem ég átti við og í því efni falls skoðanir mínar og hæstv. menntmrh. mjög saman, eins og þegar hefur komið í ljós. Hins vegar lá það ekki í orðum mínum, að ég vildi neina afstöðu taka til þess, hvort setja þyrfti sérstaka löggjöf um stofnun sjónvarps. Hitt gefur auga leið, að heimildir til fjáröflunar þarf auðvitað að fá á hæstv. Alþingi, en þessi heimild leysir ekki þann vanda.