30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur verið freistað að ná um það samkomulagi við tryggingafélögin í landinu, að þau legðu fram af sínu ráðstöfunarfé nokkra upphæð til þess að kaupa bréf húsnæðismálastjórnar eða hins almenna veðlánakerfis. Árangurinn af þessum viðræðum og samningaumleitunum hefur orðið lítill, þ.e.a.s. nokkur félög hafa keypt lítils háttar af þessum bréfum, en það hefur, þori ég að segja, ekki verið neitt, sem neinu verulegu hefur numið. Það var þess vegna nú á síðasta vetri, sem farið var fram á það við tryggingafélögin, að þau féllust á, að um þetta yrðu settar fastar reglur og lögbundnar. Ég verð að segja, að félögin hafa tekið þessu eftir atvikum með skilningi, en komu með nokkrar brtt. við frv., sem sumar hafa verið teknar til greina, en aðrar ekki.

Frv. sjálft er ákaflega einfalt. Það er efni þess, að líftryggingafélögin eru skylduð til þess að leggja 25% af sínu ráðstöfunarfé tryggingasjóða líftrygginga til kaupa á íbúðalánabréfum frá húsnæðismálastofnun ríkisins. Enn fremur getur félmrh. ákveðið fyrir fram fyrir eitt ár í senn, að 25% af öðrum verðbréfa- og víxlakaupum tryggingafélaga skuli vera með sama hætti.

Þessi skylda, sem hér er lögð á tryggingafélögin, bæði líftryggingafélögin og hin almennu tjónatryggingafélög, er fram komin vegna þess, að mikil þörf er fyrir aukið fé handa húsnæðismálastjórn. Það hefur ekki tekizt neitt líkt því að fullnægja eftirspurninni eftír húsnæðismálastjórnarlánum, og hefur þess vegna verið leitað í ýmsar áttir um að auka framlög í þessu skyni. Nú fyrir stuttu var borið hér fram frv, um hækkun skyldusparnaðarins, og þetta er annað af þeim frv., sem hafa verið samin í því skyni að reyna að ráða hér nokkra bót á. Það verður þó sjálfsagt ekki með réttu sagt, að hér verði fullnægt neinni eftirspurn, en það má segja, að það verði bætt úr þörfinni. Það er gert ráð fyrir því, að með þessu frv., ef að lögum verður, fáist í kringum 20 millj. kr. á ári í þessu skyni, en um 30 millj. með hinu frv., ef það verður einnig að lögum. Það er náttúrlega nokkur úrbót, en ekki nóg, og enn hefur ríkisstj. til athugunar aðra hluti til viðbótar.

Það skal og tekið fram, að bæði þessi frv., sem hér eru borin fram, koma ekki að fullum notum á þessu ári, þar sem nokkuð er liðið á árið og fjárframlögin í þessu skyni koma þess vegna ekki til skila eins og á ársgrundvelli væri.

Ég held, að það sé ekkert annað, sem ég þarf að taka fram um þetta frv. Efni málsins er ekki annað en það, sem ég hef lýst, og nokkru nánari ákvæði um framkvæmdaatriði, sem óþarfi er að fara orðum um. Ég vildi svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.