30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hæstv. félmrh. sagði hér almennt um íbúðarhúsabyggingar. Mér fannst hæstv. ráðh. vilja láta liggja að því, að þær tölur, sem ég hefði nefnt hér um íbúðarhúsabyggingar á undanförnum árum, gæfu ekki fullkomlega rétta mynd af því, sem verið hefði að gerast í þeim efnum. En þær tölur, sem ég nefndi hér, voru yfir fullgerðar íbúðir, en þær sýndu, að nú síðustu árin hefur verið lokið við að fullu talsvert færri íbúðir en meðaltalið er talið þurfa að vera. En hæstv. ráðh. sagði þá, að það þyrfti einnig að hafa í huga, hvað margar íbúðir væru í byggingu á hverjum tíma, því að hefði verið lokið við nokkru færri íbúðir sum árin en önnur, þá gæti eigi að síður verið unnið að fleiri íbúðum þau árin. En þessu er nú ekki svona varið. Samdrátturinn hefur ekki síður komið fram í sambandi við fjölda þeirra íbúða, sem eru í byggingu og ófullgerðar eru í þessari skýrslu Framkvæmdabankans segir t.d. um þessi sömu ár, að í Reykjavík, svo að maður taki þann staðinn á landinu, sem segir langmest til í þessum efnum, hafi auk þeirra íbúða, sem voru fullgerðar á árinu, t.d. á árinu 1957 verið í byggingu í árslok 1957 1598 íbúðir, rétt tæpar 1600 íbúðir í byggingu, en hins vegar árið 1961 voru þessar byggingar ekki 1600, heldur 850 og 1962 voru þær 844. Samdrátturinn var alveg greinilega yfir alla línuna, bæði fullgerðar íbúðir voru miklum mun færri en áður og eins íbúðir í byggingu voru miklu færri. Og það er rétt að horfast í augu við þessar staðreyndir, því að þær liggja alveg óumdeilanlegar fyrir. Svona var þessu varið um allt land, og ástæðurnar til þess voru suðvitað þær, að byggingarkostnaður hafði farið ört vaxandi og aðstoð hins opinbera við húsbyggjendur var orðin miklum mun minni, miðað við byggingarkostnað, en áður var.

Í sambandi við athugasemdir hæstv. ráðh. í þeim efnum verð ég að segja, að það er auðvitað alveg fráleitt að ætla að fara að reikna þessa þátttöku ríkisins út í prósentutölum, því að það eitt, sem gildir fyrir húsbyggjendur í þessum efnum, er talan sjálf. Um það er vitanlega ekkert að villast, að ef byggingarkostnaðurinn vex meir en sem heildarlánveitingunni nemur, þá stendur húsbyggjandinn verr eftir en áður. Auðvitað væri betra fyrir húsbyggjanda, að byggingarkostnaðurinn á íbúðinni hefði lækkað um 217 þús. kr., þó að hann hefði ekkert húsnæðismálastjórnarlán fengið, heldur en að taka á sig þessa verðhækkun á íbúðinni upp á 217 þús. kr. og fá lán upp á 150 þús. Það er vitanlega hin „absolúta“ tala, sem gildir í þessum efnum, það sem húsbyggjandinn verður að greiða út, það er það eina, sem segir vitanlega um vanda þann, sem húsbyggjandinn stendur í í þessum efnum.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. ráðh., að auðvitað eru fleiri þættir, sem koma inn í þessi mál, heldur en aðeins það, hvað hið opinbera veitir af lánum til þess að byggja íbúðirnar. Það skiptir líka miklu máli, hvað kaupið er, úr hverju menn hafa að spila af eigin tekjum. Vissulega spilar það mikið inn í þetta dæmi. Og það er líka rétt, að tekjur manna hafa verið býsna háar. En nú er það staðreynd, að tekjurnar hafa ekki vaxið allan þennan tíma nema rétt í hlutfalli við það, sem verðlag hefur almennt farið hækkandi í landinu. Að vísu hafa verið uppgripaár nú síðustu árin, s.l. ár, 1963, og reyndar einnig 1962 var mjög hagstætt atvinnuár, sem gaf mörgum góðar tekjur, enda kom það líka fram í því, að þá fóru aftur að aukast húsbyggingar víða á landinu, einmitt vegna þess að tekjurnar urðu allmiklar.

En það er ekki aðalatriði málsins að þræta um þetta, heldur hitt, að viðurkenna þann vanda, sem við er að glíma í þessum efnum. Hæstv. ráðh. viðurkennir, að hér er um mikinn vanda að ræða, hér þarf miklum mun meira fé til þessara útlána en hefur verið til staðar. Það þarf að auka þetta mjög verulega frá því, sem verið hefur, og þau frv., sem ríkisstj. hefur enn lagt hér fram á Alþ. til þess að bæta úr í þessum efnum, ná vitanlega harla skammt. En aðalatriðið er að gera sér grein fyrir þörfinni og snúa sér síðan að því að leita ráða til úrbóta, og vonandi eiga hér eftir að koma fram aðrar till. frá hæstv. ríkisstj., sem ná lengra en þessar, sem hér hafa verið ræddar.