30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. félmrh., sem ég vildi víkja að. Hann viðurkenndi, að byggingarkostnaðurinn hefði vaxið svo, að hann væri orðinn mjög erfiður húsbyggjendum, en nefndi aftur á móti, að möguleikar mannsins til að taka á sig aukinn byggingarkostnað mundu hafa batnað, . m.ö.o. að tekjuaukning þeirra frá því, sem áður var, kynni að geta mætt þessu, eða ég skildi hann svo. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að því miður getur tekjuaukning almennra launamanna ekki mætt þessu, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að dýrtíðin hefur hækkað allan annan kostnað hverrar fjölskyldu heldur en húsnæðið svo mikið, að kauphækkanirnar, sem orðið hafa á síðustu 4 árum, duga ekki fyrir þeim hækkunum, þótt engin hækkun hefði orðið á húsnæðiskostnaði, og menn borga ekki með kauphækkuninni hvort tveggja, þegar hún dugir ekki fyrir hækkun á vörum og þjónustu. 1. marz 1960 stendur í Hagtíðindum, að þá kosti vörur og þjónusta fyrir vísitölufjölskyldu um 48.8 þús. kr. yfir árið, en 1. marz 1964, 4 árum seinna, 87.1 þús. kr., aðeins vörur og þjónusta, en húsnæðið er ekki með. Þarna eru komnar um 38 þús. kr., sem mun vera u.þ.b. helmingi meira en laun almennra verkamanna hafa hækkað á sama tíma. Og hvernig eiga þeir þá að nota kauphækkunina til þess að borga hækkun húsnæðiskostnaðar þar að auki?