06.05.1964
Neðri deild: 92. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

220. mál, ávöxtun fjár tryggingafélaga

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.-og félmn. hefur athugað frv. til l. um ávöxtun fjár tryggingafélaga og leggur einróma til, að það verði samþykkt með nokkrum minni háttar breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 596 og hefur nú nýlega verið útbýtt meðal hv, þm.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um frv. sjálft. Um það mun ekki hafa komið fram neinn efnislegur ágreiningur við 1. umr. Frv. er liður í fjáröflun til húsnæðisbygginga, og er talið, að það muni geta gefið, miðað við eitt ár, um 50 millj. til þeirra mála. Annað frv., um skyldusparnað, hefur nýlega verið hér til meðferðar, sem miðar einnig að því að afla fjár til byggingar íbúðarhúsa, og það mun á fyrsta ári geta gefið um 30 millj. kr. Hvort tveggja þetta er að vísu aðeins spor í þá átt að leysa úr fjármagnsþörfinni í sambandi við íbúðarhúsabyggingar, en ég hygg, að það sé ekki ágreiningur um, að heppilegt sé að fara báðar þessar leiðir, þótt allir viðurkenni hins vegar, að meira þurfi til að koma.

Það kom fram við 1. umr., að eftir atvikum hefur náðst gott samkomulag við tryggingafélögin um þetta mál, þó að þau telji, sem kannske er vonlegt, að það sé nokkuð þrengt að þeim með samþykkt frv. En ég tel, að óhætt sé að fullyrða, að ekki sé ætlunin að ganga svo langt í því efni, að það verði á nokkurn hátt til þess að hindra þá starfsemi tryggingafélaganna, sem er auðvitað fyrst og fremst þeirra verkefni, tryggingastarfsemina, og það verði ekki þrengt svo að þeim á þessu sviði, að þau hafi ekki nægilegt svigrúm til þess að borga tjónbætur og annað þess háttar, sem tilheyrir daglegum rekstri þeirra. ákvarðanir þessa frv. ná fyrst og fremst til þess ráðstöfunarfjár, sem félögin hafa, þegar búið er að fullnægja venjulegum þörfum þeirra.

Brtt., sem n. flytur, eru allar samkv. ábendingum tryggingafélaganna, eða Sambands ísl. tryggingafélaga, og eftir að þær hafa náð fram að ganga, hygg ég, að tryggingafélögin sætti sig eftir atvikum betur við frv.

Fyrsta brtt. er við 1. gr. Hún er á þá leið, að við gr. bætist nýr liður, d-liður, þar sem talin er upp sú tryggingastarfsemi, sem undanskilin er ákvæðum frv:, og að í d-lið verði bætt við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og bátaábyrgðarfélögum.

Við 2. gr. er lagt til, að í. 5. tölul. komi orðið „skrifstofur“ í staðinn fyrir „aðalskrifstofur“.

Í 4, gr. er lagt til, þar sem segir: „Enn fremur getur félmrh. ákveðið fyrir fram fyrir eitt ár í senn, að 25% af öðrum verðbréfa- og víxlakaupum tryggingafélaga skuli vera með sama hætti,“ að í staðinn fyrir „25%“ komi „allt að 25%“, enda er þarna um heimild að ræða.

Loks er lagt til við 5. gr., að í stað þess, að uppgjör skuli eiga sér stað ársfjórðungslega, komi „missirislega“.

Þá held ég, að ég hafi minnzt á allar brtt., sem n. flytur við frv., en n. leggur til, að með þessum breytingum verði frv. samþykkt og því vísað til 3. umr.